föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vaxandi ónæði á Skjálfanda

Guðsteinn Bjarnason
4. mars 2018 kl. 08:00

Hvalaskoðun á Skjálfanda. AÐSEND MYND

Hvalir eru taldir geta orðið fyrir ýmsu ónæði af völdum stórra skemmtiferðaskipa og annarrar skipaumferðar. Hvalaskoðun er þar vart undanskilin og á Skjálfanda bætist brátt við umferð stórra flutningaskipa væntanlegrar verksmiðju á Bakka.

Innan fárra vikna verður ný verksmiðja PCC Bakka tekin í notkun við Skjálfanda, skammt frá Húsavík. Henni mun fylgja umferð stórra flutningaskipa sem bætast við aðra skipaumferð um flóann. Þar eru fyrir bæði fiskiskip og hvalaskoðunarbátar auk þess sem stór skemmtiferðarskip hafa í auknum mæli lagt leið sína þangað.

Um þetta var fjallað á ráðstefnu sem haldin var í síðustu viku í hvalasafninu á Granda, Whales of Iceland. Þar kynntu meðal annars Ben Haskell frá Bandaríkjunum og Marc Richir frá Evrópusambandinu útfærslu á hafverndarsvæðum austan hafs og vestan.

Einnig fluttu erindi þær Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri við Hvalasafnið á Húsavík. Þá fjallaði Gísli Víkingsson, yfirmaður hvalarannsókna á Hafrannsóknarstofnun, um útbreiðslu hvala í hafinu við Ísland.

Skjálfandi á tímamótum
„Að mínu mati standið þið á tímamótum,“ sagði Bandaríkjamaðurinn Haskell, en hann stýrir Stellwagen griðarsvæðinu í Massachusets, rétt út af Boston. „Áhrifin eru enn ekki mikil en það mun koma.“

Hann taldi betra að grípa til aðgerða í tæka tíð frekar en að bíða átekta og þurfa þá að bregðast við eftir á.

„Ég hef komið til Skjálfanda og veit hvað þetta er stórkostlegt svæði,“ sagði hann. Á Stellwagen-griðasvæðinu sé mikil skipaumferð, meðal annars vegna fiskveiða og flutninga, en þar hefur verið gripið til þess ráðs að setja reglur um hraðatakmarkanir til að draga úr hávaða frá skipum. Einnig hefur skipaleiðum verið breytt til að sneiða framhjá þeim stöðum sem hvalir halda til á.

Hér við Ísland hafa hvalveiðar hafa verið bannaðar á þremur stöðum, nefnilega í Skjálfanda og á Eyjafirði ásamt innri hluta Faxaflóa. Ekkert hefur samt verið gert til að vernda hvali gegn öðrum hættum sem að þeim geta steðjað, eins og til dæmis skipahljóðum sem geta hrakið þá burt frá stöðum sem til þessa hafa verið vænlegir til hvalaskoðunar.

Marianne sagði rannsóknir benda eindregið til þess að hvalir verði fyrir umtalsverðum áhrifum af hávaða sem berst frá skipum.

Gísli Víkingsson sagði frekari rannsókna þörf á áhrifum hljóðmengunar á hvali, en þar séu Marianne og félagar hennar á Húsavík í fararbroddi.

Þá sagði Gísli einnig að enn sem komið er sé í raun fátt vitað um áhrif hvalaskoðunar á hvalina.

„Sumar íslenskar rannsóknir hafa sýnt að hvalaskoðun í Faxaflóa til dæmis hefur truflað fæðuhegðun hrefna, enda þótt seinni rannsóknir hafi síðan sýnt að það hafi líklega ekki mikil áhrif á heildarfjölda hvalanna. Það er frekar að þeir haldi sig frá hvalaskoðunarsvæðunum.“

Þótti fáránlegt í fyrstu

Huld Hafliðadóttir rifjaði upp þær miklu breytingar sem urðu á atvinnulífi Húsavíkur fyrir rúmlega tuttugu árum þegar hvalaskoðun hófst þar. Húsvíkingar höfðu þá misst kvótann og fólki var byrjað að fækka í bænum.

„Þetta þótti furðuleg hugmynd til að byrja með, fáránleg reyndar,“ sagði Huld um viðhorfið til hvalaskoðunar. Fyrsta árið voru farþegarnir í hvalaskoðunarferðum frá Húsavík um 1500, en þeim fjölgaði hratt og skipta nú tugum þúsunda.

Húsavík er nú þekkt sem „hvalaskoðunarhöfuðborg“ Íslands og treystir mjög á þennan atvinnuveg og aðra þjónustu sem honum tengist.

Hún sagði reiknað með 29 skemmtiferðaskipum til Skjálfanda á þessu ári. Þá voru meira en tuttugu norsk fiskiskip á loðnuveiðum í og við Skjálfanda í þessum mánuði.

Takmarkanir skoðaðar
Í pallborðsumræðum sagði Huld að vissulega hafi verið skoðað til hvaða aðgerða væri skynsamlegt að grípa varðandi skipaumferð á Skjálfanda. „Við höfum rætt um að það verði ákveðnar leiðir fyrir skipin til að sigla inn í höfnina. Það verði fylgst með því hvar hvalirnir halda sig í flóanum og reynt að forðast þau svæði. Einnig hefur verið rætt um hraðatakmarkanir, að minnsta kosti fyrir stærri skipin.“

Varðandi starfsemina á Bakka sem brátt fer af stað þá segist fyrirtækið sjálft leggja mikla áherslu á að starfa í sátt við samfélagið, eins og sjá má á vefsíðu þess.

„Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu umhverfis Ísland og grunnvatni á landi er afar mikilvægur,“ segir á þar um sjálfbærnimál varðandi ferskvatn og höf. „Næsti þéttbýlisstaður við kísilverið, Húsavík, er vinsæll staður meðal ferðamanna vegna hvalaskoðunar og PCC BakkiSilicon vill því tryggja að losun frá verksmiðjunni sé undir umhverfisverndarmörkum til að vernda vistkerfið.“

Þarna er hins vegar ekkert minnst á hugsanleg áhrif flutningaskipa á hvalina sjálfa eða aðrar lífverur í hafinu.