sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vaxtakostnaður norsks sjávarútvegs lækkar um 14,8 milljarða ísl. kr.

17. desember 2008 kl. 15:49

Norski seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti um 1,75 prósentustig. Þar með lækkar vaxtakostnaður norsks sjávarútvegs um 875 milljónir norskra króna á ársgrundvelli, eða um 14,8 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur á vef norska blaðsins Fiskaren. Forsvarsmenn norsks sjávarútvegs taka þessum fréttum fagnandi enda ráða vaxtagjöld miklu um afkomu greinarinnar.

Heildarskuldir norsks sjávarútvegs eru um 50 milljarðar norskra króna (850 milljarðar íslenskar). Stýrivextir seðlabankans voru hækkaðir nokkrum sinnum framan af árinu og fóru hæst í 5,75% í júní í sumar.

Eftir það hafa þeir verið lækkaðir smám saman og voru 4,75% í lok október. Nú eru þeir 3%. Aldrei fyrr í sögunni hefur seðlabankinn lækkað vexti jafn skart og nú. Reiknað er með því að stýrivextir lækki enn meir á næstu mánuðum.

Í fréttatilkynningu frá seðlabankanum kemur fram að vextirnir skuli liggja á bilinu 2-3% þar til næsta skýrsla um peningamálastefnu bankans verður lögð fram 25. mars 2009.