mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðar á úthafsrækju hafnar

7. mars 2008 kl. 15:11

Áformað var að tvö skip legðu af stað til veiða á úthafsrækju nú í vikunni, Sigurborg SH og Gunnbjörn ÍS, en úthafsrækja hefur ekki verið veidd hér við land síðan í haust, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Í heild má veiða um 8 þúsund tonn á fiskveiðiárinu og þar af var aðeins búið að veiða um 215 tonn þegar skip hættu veiðum í haust.

Veiðar á úthafsrækju hafa verið sáralitlar undanfarin ár. Skipum fjölgaði aðeins á þessum veiðum í fyrra en aflinn varð samt ekki mikill miðað við fyrri ár. Sigurborg SH er í raun eina skipið sem hefur stundað úthafsveiðar að einhverju ráði.

,,Umræðan um úthafsrækjuna hefur verið á villigötum. Menn hafa talað um slæmt ástand rækjunnar og lítinn afla en staðreyndin er sú að árið í fyrra var okkar besta ár á rækjuveiðum í 10 ár. Við veiddum rétt tæp 800 tonn á sex mánuðum. Meðalaflinn í veiðiferð var 28 tonn sem hefði einhvern tímann þótt gott. Rækjuverð hefur aðeins hækkað en kostnaður við veiðarnar er mikill, einkum olíukostnaður þannig að reksturinn á þessu stendur væntanlega í járnum,“ sagði Ómar Þorleifsson, skipstjóri á Sigurborgu SH, í samtali við Fiskifréttir.