mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðar Norðmanna við Grænland: Grálúðukvótinn eykst um 28,5%

18. janúar 2010 kl. 15:00

Norðmenn fá að veiða meira af karfa og grálúðu í lögsögu Grænlands á þessu ári en í fyrra samkvæmt fiskveiðisamningi milli Noregs og Grænlands sem gengið var frá í lok síðustu viku að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Í samkomulaginu um gagnkvæmar fiskveiðar milli landanna fá grænlensk skip aukinn þorskkvóta í Barentshafi. Ýsukvóti þeirra nær tvöfaldast, fer úr 360 tonnum 2009 í 630 tonn 2010. Ufsakvótinn eykst einnig verulega, fer úr 270 tonnum í 1.000 tonn. Loks er gert ráð fyrir 260 tonna meðafla.

Á móti fá Norðmenn mun rýmri veiðiheimildir í grænlenskri lögsögu en í fyrra. Grálúðukvóti þeirra við Vestur-Grænland verður 900 tonn og eykst hann um 28,5%. Þá mega Norðmenn veiða 400 tonn af karfa í botntroll og á línu, sem er aukning frá fyrra ári, og 300 tonn af úthafskarfa í flottroll. Auk þess má meðaflinn nema 150 tonnum.