föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðarfæri 27% af plasti sem finnst á fjörum

svavar hávarðsson
4. nóvember 2018 kl. 07:00

Óhemjumagn af gömlum veiðarfærum rekur á fjörur. Mynd/Sýslumaðurinn á Svalbarða

Evrópuþingið samþykkir að einnota plastvörur verði settar út í kuldann.

Evrópuþingið hefur samþykkt áætlun að banna tíu tegundir af einnota plastvörum. Frá þessu segir í frétt Umhverfisstofnunar en þær plastvörur sem um ræðir eru til dæmis plastdiskar, hnífapör, plastglös, plaströr, drykkjarflöskur, tappar, lok og plastumbúðir, blautþurrkur og plastpokar.

Í fréttum af þessari ákvörðun Evrópuþingsins segir jafnframt að af því rusli sem finnst á ströndum eru um 50% sem falla undir þær tíu tegundir af einnota vörum sem stendur til að banna. Um þær allar gildir að til eru umhverfisvænni vörur sem geta komið í staðinn. Sumar plastvörurnar sem um ræðir eru hreinn óþarfi. Einnig voru lagðar fram tillögur um bann á svokölluðum fleiri tegundir af plastvörum og frauðplasti.

Tillögur Evrópuþingsins voru samþykktar með miklum meirihluta og fara nú til umræðu í Evrópuráðinu og hjá einstökum Evrópusambandsríkjum, en hluti af samkomulaginu lítur að endurvinnslu og söfnun á veiðarfærum sem eru 27% af því plasti sem finnst á ströndum eins og staðan er í dag.

Eitt stærsta viðfangsefnið

Ekkert bendir til annars en að rusl – og þá ekki síst plast – verði miklu meira vandamál í hafinu í náinni framtíð en það er í dag. Reiknað er með því að framleiðsla plastefna eigi innan fárra ára eftir að fjórfaldast frá því sem nú er. Að óbreyttu felast í þessu grafalvarlegar fréttir – því mengun í hafi er þegar orðið eitt stærsta viðfangsefni nútímans í umhverfislegu tilliti. Veiðarfæri eru hluti af vandamálinu eins og sést af samkomulagi Evrópuþingsins, enda mikið til gerð úr plastefnum.

Tap á veiðarfærum er risavaxið vandamál víða um heim, en þau reka oft á land á fjarlægum slóðum eftir að hafa velskt um í hafi í langan tíma.

Haraldur A. Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, fjallaði um þennan vanda í fyrirlestri fyrir skemmstu. Sagði hann að stærsti hluti nútíma veiðarfæra eru gerð úr plastefnum. Tapist þau eða enda í hafi af öðrum orsökum verða þau að rusli sem rekur á fjörur, leggst á hafsbotninn eða rekur um höfin sem „drauganet“ áður en þau falla saman. Að lokum brotnar plastefnið niður í smá agnir en plastagnir eru taldar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í lífríki hafsins.

Sagði hann að ef veiðarfæri væru merkt væri hægt að sjá upprunann og vinna við að leysa vandamálið þar sem mikið er að tapast – öllum til heilla. Þetta á við hér sem annar staðar – veiðarfæri á vestfirskri fjöru geta vel hafa tapast við Rússland, en enginn veit það í raun.

Íslenskir sjómenn, sem ganga vel um, eru að hans mati oft hafðir fyrir rangri sök og gagnrýndir fyrir sóðaskap þó ár og dagur sé síðan sjómenn hér við land losuðu sig viljandi við ónýt veiðarfæri með því að skilja þau eftir eða henda þeim í sjóinn.

Safna veiðarfærum?

Haraldur vakti máls á því hvort safna ætti töpuðum veiðarfærum í sérstökum leiðöngrum, ef vitað er hvar þau er að finna. Þetta er gert víða um heim, en upplýsingar hérlendar hafa safnast upp t.d. hjá Hafrannsóknastofnun sem myndar hafsbotninn við upplýsingaöflun um botndýr.

Hann svaraði því til að það sé jafnvel ástæða til að gera slíkt á tilteknum svæðum, en þó ekki þar sem hafsbotninn er viðkvæmur fyrir frekara raski t.d. þar sem er kórall – en slík svæði myndu þola það illa ef lína eða net yrðu rifin upp af botninum.

Hins vegar sagði Haraldur gleðiefni að almenningur og félög safni rusli á fjörum. „Þeir sem hafa komið að slíkum söfnunum ber saman um að stór hluti af því sem safnast er frá fiskveiðum – frá skipum. Ég sakna þess samt að þetta sé skráð með skilvirkari hætti, svo hægt sé að rekja af hvaða toga vandamálið er,“ sagði Haraldur. „En sjómenn eru almennt mjög vel meðvitaðir um að henda ekki rusli í sjóinn en það er hægt að fullyrða að nær allt rusl sem fellur til úti á sjó kemur í land,“ sagði Haraldur.

Endurvinnsla veiðarfæra

Forveri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, gerði árið 2005 samning við stjórn Úrvinnslusjóðs um úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum. Móttaka veiðarfæraúrgangs samkvæmt samningnum hófst 1. janúar 2006.

Kemur fram í umhverfisskýrslu SFS frá því í desember 2017 að frá því samtökin hófu afskipti af þessum málum hafa þau sent á eigin vegum eða haft milligöngu um endurvinnslu á rúmum 8.400 tonnum af veiðarfæraúrgangi, sem samsvarar um það bil 15-16.000 rúmmetrum eða 260 fjörutíu feta gámum. Þetta miðast við ellefu ára tímabil, frá árinu 2006 til ársins 2016.

„Af þeim veiðarfæraúrgangi sem safnaðist á tímabilinu og var úr gerviefni, fóru nálægt 96% í endurvinnslu. Það er langt yfir því hlutfalli sem tilgreint er í markmiðum samningsins við Úrvinnslusjóð. Veiðarfæraúrgangur frá Íslandi er nú fluttur til Litháen til endurvinnslu. Góður árangur hefur náðst í þessum efnum og framleiðslan fer að stærstum hluta í raf- og bílaiðnaðinn í Þýskalandi, meðal annars til framleiðslu á plastíhlutum í bifreiðar. Þessi árangur hefur leitt til þess að endurvinnslufyrirtækið getur greitt meira fyrir úrganginn,“ segir í skýrslunni.