fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðin datt skyndilega niður

Guðjón Guðmundsson
9. mars 2019 kl. 09:00

Ásmundur Sigurjón Guðmundsson, skipstjóri á Arnari SH, með einn vænan. MYND/ALFONS FINNSSON

Hálfmelt loðna í þorskinum í Breiðafirði.

Hálfmelt loðna var í þorskinum sem landað var úr Arnari SH á þriðjudag sem bendir til þess að loðna er úti fyrir Vesturlandi. Ásgrímur Sigurjón Guðmundsson skipstjóri segir að veiðarnar hefðu  gengið mjög vel fram að síðustu tveimur túrum þegar ekki fengust nema tvö og hálft og þrjú tonn í netin.

Ásmundur segir að ekki sé laust við að þetta hafi komið sér dálítið á óvart því flest hafði bent til þess að vertíðarbragur væri kominn á veiðarnar miðað við aflabrögðin að undanförnu. Hann veltir því jafnframt fyrir sér hvort þorskurinn hafi farið af miðunum út af Ólafsvík  að eltast við loðnu. Það hafi þó gerst áður að veiðin hafi dottið niður en blossað svo upp á ný.

Smáloðna úti í köntunum

Arnar SH hefur verið á þorsknetum og hefur verið góður gangur í veiðunum bæði í janúar og febrúar. Marsmánuður virtist líka ætla að byrja vel en svo dró skyndilega úr veiðinni. Ásmundur segir að eitthvað hafi greinilega breyst í hafinu miðað við hvernig veiðin datt niður. Hugsanlega hafi fiskurinn leitað annað í æti eða þá að straumar spili hlutverk í þessu.

„Jú, þetta hefur gengið vel en það var lítið sem ekkert í netunum í dag. Það hafa verið ágætis róðrar inn á milli og ég hélt að þetta væri að bresta á. Þess vegna lagði þrjár trossur að morgni til að draga um hádegið. Það er eitthvað ástand núna sem ég veit ekki hvað er. Nema að það sé að koma loðna. Við höfum séð nokkra fiska með hálfmelta loðnu í sér. Ekki veit ég hvort þarna sé vestanganga í vændum en ég heyrði það hjá öðrum skipstjóra á togbát að það hefði verið smáloðna úti í köntum. Svo hafa aðrir líka orðið varir við loðnu í þorskinum,“ segir Ásmundur.

Meðalþyngd 9,5 kg

Hann segir að veiðarnar geti alltaf dottið niður og ekkert nýtt sé í því. Góðir róðrar hafi verið farnir fyrir mánaðamót en það hafi líka komið svona daprir dagar í febrúar. Stutt stím er á miðin út af Ólafsvík og landað er svo hjá Þórsnesi á Stykkishólmi þar sem fiskurinn fer í saltfiskvinnslu og þegar mokið er sem mest er auðvelt að skjótast inn til að landa.

Ásmundur segir árið engu að síður fara betur af stað en í fyrra. Þannig var aflinn um 100 tonn í janúar þótt fyrsti róður hafi ekki verið fyrr en tólfta þess mánaðar. Í febrúar fengust svo 150 tonn. „Ég byrjaði á netum í kringum 2000 og þá var veiðin ekkert í líkingu við þetta, jafnvel á stóru bátunum með allt upp í 150 net í sjó. Á Þórsnesinu fengu við man ég 24 tonn á einum degi sem þótti gott þá. Við erum ekki með nema 50 net á Arnari og fækkuðum reyndar niður í 40 net nýlega fullir af bjartsýni,“ segir Ásmundur.

Meðalþyngdin hefur verið nálægt 9,5 kg af óslægðum þorski sem hentar ákaflega vel fyrir vinnsluna í Þórsnesi. Arnar SH var í eigu Guðmundar Björgvinssonar skipstjóra og útgerðarmanns og þar hafði Ásmundur áður verið vélstjóri til fjögurra ára. Guðbrandur seldi nýlega útgerðina til Þórsness sem auk þess gerir út línuskipið Þórsnes SH, sem keypt var notað frá Noregi 2016, og krókaaflamarksbátinn Bíldsey.