miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veitt umfram aflamark í sex fisktegundum

28. ágúst 2009 kl. 11:58

Búið er að veiða umfram aflamark í sex fisktegundum nú þegar rétt um 4 dagar eru eftir af kvótaárinu en heimilt er að búa til viðbótarheimildir upp að ákveðnu marki með tegundatilfærslum í öllum tegundum nema þorski. Mest er umframveiðin hlutfallslega í keilu eða 15%.

Veiðar á kvótaárinu hafa gengið vel í flestum tegundum en í sumum tegundum hefur aðeins náðst lítill hluti kvótans, samkvæmt samantekt Fiskfrétta sem byggist á tölum frá Fiskistofu.

Langa kemur næst á eftir keilunni með um 12% umframveiði. Þar á eftir er karfinn með rúmlega 8% umfram, þykkvalúra með 7%, steinbítur með 6% og skötuselur með um 3%.

Ef litið er á þær tegundir þar sem veiðst hafa 80-100% af aflamarki má fyrst telja íslensku síldina en kvóti hennar náðist síðastliðið haust og vetur. Þá hefur kvóti innfjarðarrækju í Arnarfirði allur verið veiddur. Um 94% af aflamarki þorsks hafa verið veidd, um 85% af grálúðunni sem telst vera gott en hingað til hefur verið erfitt að ná grálúðukvótanum. Skarkolinn er sú flatfisktegund sem næstbest hefur gengið að veiða á eftir þykkvalúrunni, en um 84% kvótans eru veidd. Um 83% hafa veiðst af ýsukvótanum og 81% af humarkvótanum.

Ekki hafa veiðst nema um 78% af ufsakvótanum, 63% af langlúrukvótanum, 56% af sandkolakvótanum, 48% af úthafsrækjunni og 18% af aflamarki í skrápflúru.

Útgerðarmenn hafa ýmis úrræði til að hindra það að ónotaður kvóti fiskveiðiársins detti dauður niður, svo sem með flutningi aflaheimilda á milli ára og tegundatilfærslum. Þessi úrræði duga þó ekki til í öllum tilfellum og því er hætt við að eitthvað af aflaheimildum í þeim tegundum, sem minnst hafa veiðst, detti dauð niður.