sunnudagur, 18. febrúar 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vélstjóri fæst ekki og komast ekki á sjó

18. september 2017 kl. 18:00

MYND/HEIÐA LÁRA

K & G Fiskverkun kaupir Sóley SH af Soffaníasi Cecilssyni hf.


K & G Fiskverkun hefur keypt Sóley SH, 200 tonna togskip, af Soffaníasi Cecilssyni hf. á Grundarfirði og áttu kaupin sér stað áður en FISK Seafood keypti Soffanías Cecilsson sem tilkynnt var um sl. mánudag. Skipið liggur hins vegar bundið við bryggju því enginn fæst vélstjórinn.

K & G Fiskverkun er með fiskvinnslu í Sandgerði og Hrísey þar sem fyrirtækið er einnig með útgerð á línu- og handfærabátnum Darra EA, sem það eignaðist þegar það keypti útgerðarfyrirtækið Hvamm í Hrísey ásamt frystihúsi og kvóta. Fyrir átti K & G Pálínu Ágústsdóttur GK.

Sóley hefur nú fengið nafnið Pálína Ágústsdóttir EA en til stendur að selja bæði Darra EA og eldri Pálínu Ágústsdóttur og færa kvóta þeirra yfir á nýja skipið. K & G ehf. er í eigu bræðranna Kjartans og Garðars Guðmundssona. Fyrirtækið nýtir sér sérstakt aflamark Byggðastofnunar sem er ætlað brothættum byggðum og byggir reksturinn í Hrísey að auki á eigin aflaheimildum.

Fyrsti túrinn

Farið var í fyrsta túrinn á nýrri Pálínu í síðustu viku. Tilgangurinn var að prófa tæki og tól miklu fremur en veiða en þó fengust um tvö tonn í einu holi.

Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Pálinu sagði að flest allt hefði virkað vel í túrnum. Menn væru því til í tuskið en áframhaldandi veiðar strandi núna á því að það vanti vélstjóra.

„Það virðist engin leið að fá vélstjóra. Við höfum auglýst og höfum reyndar ráðið mann en hann fær sig ekki lausan fyrr en um næstu mánaðamót. Við erum því áfram að leita að manni til að dekka þann tíma. Það er óþægileg staða að heilt skip og heilt frystihús þurfi að bíða eftir því að það finnist vélstjóri,“ segir Arnþór.

Menn farnir að tvístíga

Hann segir að ef skipið er ekki að veiðum sé engin atvinna í eyjunni. Arnþór sótti skipið til Grundafjarðar í júlí síðastliðnum en það þurfti að laga eitt og annað í því. Það hafði legið óhreyft í höfn síðan 2014 en það var smíðað 1985 á Seyðisfirði. Skipið var þó í þokkalega góðu lagi en skipta þurfti til dæmis um olíu á vélum sem ekki hafði verið gert í þrjú ár.

„Núna erum við allir hér um borð og bíðum bara. Ég er búinn að hringja út um allt að leita að vélstjóra og fengið ábendingar víða en það virðist enginn á lausu. Hafa menn ekki bara orðið hærri laun í landi? Ég veit um annað skip sem liggur bundið við bryggju meðan leitað er að vélstjóra. Það er Hörður Björnsson frá Húsavík. Ég hef aldrei kynnst svona og átti ekki von á þessu. Menn eru auðvitað farnir að tvístíga og ég gæti alveg misst frá mér mannskap ef það rætist ekki úr þessu,“ segir Arnþór.