föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð á flatfiski lækkar ekki mikið erlendis

29. maí 2009 kl. 15:03

Verð á flatfiskafurðum hefur ekki lækkað eins mikið og verð á þorski á erlendum mörkuðum undanfarin misseri. Verð á ferskum flatfiski virðist hafa haldið sér en frosnar afurði hafa lækkað eitthvað í verði, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Björgvin Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Fiskvali ehf. í Keflavík, sagði í samtali við Fiskifréttir að árstíðarbundnar sveiflur væru í verði á flatfiski. Hæst er verðið um háveturinn en yfirleitt lækkar það aðeins á vorin. ,,Heimskreppan hefur haft einhver áhrif á verð til lækkunar, einkum í frosnum afurðum. Fersk kolaflök hafa haldist nokkuð óbreytt í verði. Mér sýnist að verðlækkun í erlendri mynt séu um 5-7% á framleiðsluvörum okkar að meðaltali frá síðasta ári en um 60% af framleiðslu okkar eru ferskar afurðir. Þá hefur aðeins borið á sölutregðu í frosnum afurðum,“ sagði Björgvin.

Fiskval sérhæfir sig í vinnslu flatfisks. Þar eru unnin um 1.200 tonn á ári, aðallega skarkoli og sólkoli. Helstu markaðslönd eru Holland, Írland og Bandaríkin.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum