miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð sjávarafurða hið sama og um mitt ár 2006

27. febrúar 2009 kl. 11:15

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 4,7% í janúar síðastliðnum. Þar með hefur afurðaverð lækkað í sjö mánuði í röð, samkvæmt útreikningum IFS greiningar.

Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð lækkað um 12,8% mælt í erlendri mynt. Eftir þessa lækkun er afurðaverð álíka hátt og um mitt ár 2006.

Þessi lækkun er í góðu samræmi við lækkun á öðrum hrávörum á heimsvísu. Raunar hafa íslenskar sjávarafurðir lækkað minna en ýmiss önnur matvæli á heimsmarkaði undanfarið. Búast má við að verð geti lækkað áfram á næstunni. Þó hefur almennt hægt mjög á lækkunum á mörgum hrávörum undanfarið, segir í mati IFS greiningar.

Vegna veikrar stöðu krónunnar er afurðaverð hátt mælt í ISK. Vegna þessa er framlegð í íslenskum sjávarútvegi góð. Á móti kemur að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja eru háar vegna erlendra skulda.

Samkvæmt upplýsingum IFS greiningar hafa birgðir hjá framleiðendum aukist mikið undanfarna mánuði. Þetta skýrist m.a. af því að erlendir kaupendur eru meira hikandi en áður og vilja lágmarka birgðahald við þær aðstæður sem nú ríkja í helstu mörkuðum.