mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verslun með leigukvóta verði aflögð

9. maí 2009 kl. 13:18

segir framkvæmdastjóri LÍÚ

,,Við leggjum til að stefnt verði að menn veiði helst allan kvóta sinn sjálfir og kaup og sala á leigukvóta leggist að mestu af. Það þarf áfram að vera hægt að skiptast á kvótum á jöfnum verðmætum til hagræðingar og eins þarf kannski að vera unnt að kaupa eina tegund í dag og selja aðra eftir mánuð, ef svo ber undir, en þó þannig að nettó útkoma slíkra viðskipta verði sem næst núllinu.”

Þetta sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskifréttir í dag, en fulltrúar útvegsmanna átti í gær fund með oddvitum stjórnarflokkanna þar sem þessi tillaga útvegsmanna var meðal annars sett fram. Sem kunnugt er hafa viðskipti með leigukvóta verið eitt af stóru ágreiningsmálunum hvað varðar kvótakerfið og hafa fulltrúar sjómanna meðal annarra ávallt lýst andstöðu við leiguframsalið.

,,Á þessum fundi ítrekuðum við andstöðu okkar við áformin um fyrningarleiðina svokölluðu og lögðum áherslu á að áður en farið yrði út í einhverjar breytingar í þá veru yrði vandlega kannað hvaða áhrif þær hefðu á fyrirtækin og bankakerfið. Við fengum engin sérstök svör á þessum fundi en reiknum með að viðræður við stjórnvöld haldi áfram eftir að stjórnin hefur verið mynduð. En hvað sem öðru líður munum við aldrei sættast á það að veiðiheimildirnar veði gerðar upptækar,” sagði Friðrik J. Arngrímsson.