föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vestmannaeyingar skora á ráðherra að leyfa loðnuveiðar

16. febrúar 2009 kl. 09:09

Bæjarráð Vestmannaeyja skorar á sjávarútvegsráðherra að gefa tafarlaust út 30 til 50 þúsund tonna upphafskvóta í loðnu. Í greinargerð með bókun bæjarráðs segir m.a. að miðað við stöðuna í efnahagslífi þjóðarinnar, eigi að leita allra leiða til að skapa þjóðarbúinu tekjur, m.a. með loðnuveiðum. Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Eyjum tekur í sama streng í ályktun sinni.

Í greinargerð bæjarráðs Vestmannaeyja  segir m.a.:

Vestmannaeyjabær hefur fullan skilning á mikilvægi þess að sjávarauðlindin sé umgengin af virðingu og hefur með ráðum og dáð staðið við bakið á ábyrgri fiskveiðistjórnun. Það mun Vestmannaeyjabær gera áfram enda framtíð byggðar í Vestmannaeyjum háð því að vel takist í stjórnun sjávarauðlindarinnar og nýting stofna sé sjálfbær.

Hinsvegar liggur nú fyrir að ástandið í efnahagslífi þjóðarinnar kallar á að einskis sé látið ófreistað í að skapa þjóðarbúinu tekjur. Á næstu klukkutímum og sólarhringum er loðnan verðmætust enda færi hvert kíló til manneldis af því sem nú veiðist. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að 30 til 50 þúsundtonna upphafskvóti myndi skapa þjóðarbúinu gjaldeyristekjur upp á 4 til 6 milljarða og hleypa miklu lífi í atvinnulíf þjóðarinnar. Þá er einnig mikilvægt að hafa hugfast að fyrstu tonnin eru að öllu jöfnu þau verðmætustu.

Í greinargerð Verðandi segir m.a.:

,,Það eru mörg hundruð milljónir að tapast á hverjum degi meðan þið sem stjórnið landinu okkar vitið ekki að sjávarútvegurinn er það eina sem getur bjargað þessari þjóð frá gjaldþroti.  Álver eða tónlistahús gera það ekki.  Hvernig ætlið þið í ríkisstjórninni að bjarga heimilum landsins ef ekki á að nota þetta tækifæri sem fellst í veiðum á loðnu? Tíminn er stuttur sem þið hafið og þá erum við að tala um daga eða jafnvel klukkutímaspursmál.  Stjórn Verðanda hvetur ríkisstjórnina til að láta af mannaveiðum og láta hefja loðnuveiðar ekki seinna en á morgun.”