miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðhalda sterkum tengslum við Ísland

svavar hávarðsson
21. desember 2018 kl. 07:00

Icewater hefur lengi keypt tæknilausnir frá Íslandi. Mynd/Icewater Seafood

Icewater Seafood í Kanada kaupir af kælismiðjunni Frost.

Kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið Icewater Seafoods, sem er eitt stærsta fyrirtækið þar í landi í vinnslu á þorski, hefur tryggt sér þriggja milljóna dollara fjárfestingarstyrk frá kanadískum stjórnvöldum. Styrkféð verður meðal annars nýtt til að skipta út öllum kælibúnaði, enda yfirlýst stefna fyrirtækisins að með skertum kvóta verði lögð áhersla á gæði.

Alberto Wareham, framkvæmdastjóri Icewater, staðfestir í viðtali við Fiskifréttir að kælikerfin sem fyrirtækið hyggst kaupa munu koma frá kælismiðjunni Frost, en tengsl Icewater við íslenska tæknigeirann rista enn dýpra og eru samofin sögu fyrirtækisins.

Líta til Íslands

Icewater hefur að undanförnu unnið að allsherjar endurnýjun á vinnslubúnaði sínum, og hafa litið til tækjabúnaðar íslenskra fyrirtækja í viðleitni til að keppa á markaði fyrir þorskafurðir. Það á að auka vörugæði með tilliti til þróunar markaða með hvítfisk.

Icewater hefur unnið úr um fimm þúsund tonnum af hráefni á ári. Níu af hverjum tíu tonnum fara á markað í Evrópu, sem byggir á samvinnu við smásölurisann Mark & Spencer með sínar þúsund verslanir. Wareham telur að viðskiptavinurinn eigi að sjá það sama á Nýfundnalandi og annars staðar þar sem þorskur er unninn samkvæmt kröfum tímans.

Tækjabúnaðurinn sem Icewater  hefur þegar keypt er að stórum hluta frá tveimur íslenskum fyrirtækjum; Marel og Skaganum 3X auk þýska fyrirtækisins Baader. Nú hefur kælismiðjan Frost bæst í hópinn.

Lifðu af

Fiskifréttir sögðu frá því fyrir skemmstu að umrædd verksmiðja Icewater var byggð í Arnold‘s Cove í Nýfundnalandi árið 1979, þá undir merkjum fyrirtækisins High Liner Foods. Verksmiðjan var ein fárra sem lifðu það af þegar stjórnvöld sáu þá einu leið færa að banna alla veiði á þorski úr hinum áður risavaxna þorskstofni sem sögulega hafði verið veitt úr innan lögsögu Nýfundlendinga. Eins og þekkt er var sá stofn ofveiddur svo harkalega að árið 1992 var hann gott sem horfinn með öllu og allsherjarbann við þorskveiðum sett á við austurströnd Kanada.

Ráðgjöf

Matís hélt í fyrra vinnufund í bænum Gander á Nýfundnalandi, þar sem til umfjöllunar var hvernig þeir geti best undirbúið sig fyrir auknar þorskveiðar. Þar hvöttu sérfræðingar frá Matís og víðar að heimamenn til að líta ekki á aðrar þorskveiðiþjóðir sem samkeppnisaðila, það sé hagur allra að þeir nái að framleiða þorskafurðir í hæstu gæðum og að það muni í raun styrkja og stækka markaðinn fyrir afurðir allra framleiðenda.

Á þetta hefur verið hlustað þar sem Icewater hyggst styrkja kælingu og meðferð þess afla sem þeir hafa aðgang að. Mikið er undir enda vinna 210 manns hjá fyrirtækinu.

Fyrsti kúnni Marel

Í viðtali við Fiskifréttir sagði Alberto Wareham að fyrirtækið hafi verið fyrsti viðskiptavinur Marel í Kanada, og forsvarsmenn fyrirtækisins hafi þess vegna farið oft til Íslands til að kynna sér nýjungar.

„Að okkar mati leiða Íslendingar tækniþróun í hvítfiskvinnslu eftir að flökun sleppir. Flökunar- og roðdráttarvélar höfum við keypt frá Baader, en allt annað í verksmiðjunni okkar er frá Marel," sagði Alberto.