föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilhelm Þorsteinsson EA seldur úr landi

9. ágúst 2018 kl. 15:00

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 hverfur úr flotanum um áramótin. MYND/HÁKON ERNUSON

Samherji stefnir að nýsmíði á uppsjávarskipi


Samherji hefur selt aflaskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 11 og verður skipið afhent kaupendum í Rússlandi um næstu áramót. Fyrirtækið hyggst láta smíða fyrir sig nýtt uppsjávarskip og að sögn Kristjáns Vilhelmssonar, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs, er stefnt að því að það verði komið í rekstur árið 2020.

Kristján segir að þetta sé liður í endurnýjun flota Samherja á Íslandi og gert sé ráð fyrir nýsmíði á uppsjávarskipi sem komi í stað Vilhelms Þorsteinssonar. Ekki hefur verið samið um smíðina ennþá og búið að ákveða hvar skipið verður smíðað.

Vilhelm Þorsteinsson EA var smíðaður í Póllandi og Noregi um síðustu aldamót og er því að verða 18 ára gamalt skip. Það þykir ef til vill ekki hár aldur á íslenskan mælikvarða en Kristján segir að ný tækni hafi komið fram sem verði nýtt í nýju skipi.

Oft aflahæsta uppsjávarskipið

Vilhelm Þorsteinsson hefur verið í hópi aflamestu uppsjávarskipa í íslenska flotanum frá því það bættist í flotann í september árið 2000. Þannig var það á toppnum yfir aflahæstu skipin fiskveiðiárið 2014/2015 með rúm 70 þúsund tonn, fiskveiðiárið 2012/2013 með tæp 60 þúsund tonn og fiskveiðiárið 2007/2008 með tæp 64 þúsund tonn.

Markmiðið með Vilhelmi Þorsteinssyni á sínum tíma var að þróa vinnslu á uppsjávarfiski um borð í skipinu. Skipstjóri á Vilhelmi Þorsteinssyni er Guðmundur Þ. Jónsson.

„Við teljum þennan tímapunkt réttan til að endurnýja. Þegar skip eru orðin þetta gömul skapast talsverð viðhaldsþörf og viðhaldsvinna er mjög dýr. Með nýju skipi drögum við úr þeim kostnaði líka,“ segir Kristján.