sunnudagur, 27. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja aftur ofan í flak Minden

13. júlí 2017 kl. 06:00

Mynd/Landhelgisgæslan

Allt bendir til að Advanced Marine Services séu að baki starfsleyfisumsókn um að hefja vinnu við flak Minden og fjarlægja úr því þau verðmæti sem eru talin vera þar.

Umhverfisstofnun hefur borist starfsleyfisumsókn frá ónafngreindu fyrirtæki sem vill hefja vinnu við flak þýska flutningaskipsins Minden og að fjarlægja úr því þau verðmæti sem eru talin vera þar.

Líklega sömu aðilar
Norska rannsóknarskipið Seabed Constructor sem huldufélagið Advanced Marine Services leigði og notaði til að ná verðmætum úr þýska fraktskipinu Minden var rétt nýlega farið út úr íslenskri lögsögu þegar Umhverfisstofnun barst starfsleyfisumsókn um að hefja vinnu við flakið í þeim tilgangi að fjarlægja þaðan verðmæti.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Umhverfisstofnunar til Fiskifrétta, en umsóknin barst stofnuninni þann 27. apríl síðastliðinn. Þá var rétt rúm vika liðin síðan rannsóknaskipið sigldi héðan, eftir að Landhelgisgæslan færði skipið að landi og lögreglurannsókn hófst. 

Ekki fæst hins vegar upp gefið hvort umsóknin er frá fyrirtækinu Advanced Marine Services (AMS). Allt bendir hins vegar til að svo sé.

Ólöglegar rannsóknir?
Landhelgisgæslan stefndi skipinu til hafnar þegar vika var liðin af apríl síðastliðnum á grundvelli þess að um ólöglegar rannsóknir á hafsbotni innan íslensku efnahagslögsögunnar væri að ræða. AMS fullyrti hins vegar að fyrirtækið væri í fullum rétti. Forstjóri Umhverfisstofnunar tók á þeim tíma af allan vafa um að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir útiloki vinnu við skipsflakið, nema að fengnu sérstöku leyfi. 

Í skriflegu svari Umhverfisstofnunar til Fiskifrétta segir að umsóknin sé nú í umsagnarferli, en því líkur á morgun. Umsagnarbeiðnir voru sendar á Samgöngustofu, Landhelgisgæsluna, Minjastofnun Íslands, Hafrannsóknarstofnun, utanríkisráðuneytið og heilbrigðisnefnd Austurlands. Ákvörðun um hvort tillaga að starfsleyfi verður auglýst, og um efni hennar, verður svo tekin eftir að umsagnir hafa borist.

Milljónir á dag
Landhelgisgæslan hafði fylgst með skipinu dögum saman áður en ákveðið var að færa það til hafnar í Reykjavík. Þá hafði það haldið sig á afmörkuðu svæði um 120 sjómílur suðaustur af landinu. Þar liggur á hafsbotni þýska flutningaskipið Minden, sem áhöfn þess sökkti sjálf á fyrstu dögum síðari heimsstyrjaldarinnar að skipun þýskra heryfirvalda.

Leiga á jafn fullkomnu rannsóknaskipi í Noregi hleypur á milljónum dag hvern og ljóst að þá daga sem skipið hafði varið innan íslenskrar lögsögu hleypur kostnaðurinn á tugum eða hundruðum milljóna. Ef sama fyrirtæki hefur sótt um leyfi til að klára leiðangur sinn er ljóst að þau verðmæti sem eru um borð eru mikils virði – en aldrei hefur fengist staðfest hver farmur þýska skipsins var.

svavar@fiskifrettir.is