þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja alþjóðlegar hömlur á túnfiskveiðar

6. október 2017 kl. 11:00

Frá uppboði á Tsukiji túnfiskmarkaðnum í Tókíó í Japan fyrr á árinu. MYND/EPA

Þrjár stórar túnfiskútgerðir vilja setja nýjar takmarkanir á túnfiskveiðar á heimsvísu, þannig að ofveiði verði ekki til þess að túnfiskstofnarnir hrynji.

„Ég held að það sé möguleiki á því að fiskimennirnir vinni þennan slag gegn fiskinum, og þannig munum við tapa stríðinu,“ sagði Pete Trutanich, einn af yfirmönnum Tri Marine International, eins af stærstu túnfiskútgerðum heims.

Hann sagði nauðsynlegt að setja hámark á veiðigetu túnfiskveiðiflota heimsins, koma kvótakerfi á veiðarnar og hafa stjórn á notkun fiskaðlöðunarbúnaðs, en þetta síðastnefnda er búnaður af ýmsu tagi sem flýtur í hafinu og dregur að sér fiska.

Þetta sagði Trutanich á alþjóðlegri túnfiskráðstefnu sem haldin var í Vigo á Spáni í síðasta mánuði. Frá þessu er skýrt á fréttavefnum Undercurrentnews.com og þar er einnig rætt við Trutanich.

Fyrirtæki hans er með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, en tvö önnur stórfyrirtæki í túnfiskveiðibransanum, Albacora og Pevasa sem bæði eru spænsk, lýstu á ráðstefnunni einnig yfir miklum áhuga á því að koma böndum á túnfiskveiðar.

Imanol Loinaz frá Albacora segir, í viðtali við Undercurrentnews, nauðsynlegt að takmarka nýsmíði skipa. „Við verðum að úrelda skip áður en ný eru smíðuð,“ segir hann.

Borja Soroa frá Pevasa tekur í sama streng, og leggur áherslu á að koma á kvótakerfi. Það sé árangursríkasta leiðin til að draga úr stækkun og síaukinni afkastagetu flotans.

Hann sagðist hafa skorað á Evrópusambandinu að taka forystuna í þessu máli á heimsvísu, en fengið dræm viðbrögð.

„Allir eru fastir í þessum fiskveiðihugsunarhætti, að forðast samvinnu því annars kemur einhver annar og tekur það sem er mitt,“ sagði hann.

Á heimsvísu hafa túnfiskveiðar aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi, en hafa samt staðið nokkuð í stað það á síðustu árum. Árið 2015 voru veiddar 4,8 milljónir tonna af túnfiski, sem var 4 prósenta samdráttur frá árinu áður, en meðaltalsveiði áranna 2011 til 2015 var 4,7 milljónir tonna.

Veiðigeta flotans hefur hins vegar aukist um 17 prósent frá árinu 2013 til þessa árs, að því er fram kom á ráðstefnunni á Spáni.

gudsteinn@fiskifrettir.is