fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja fræða með myndmáli

9. apríl 2018 kl. 13:00

Á Suðureyri er lífæðin sjávarútvegur – lífæð fræðslu og menntunar til framtíðar litið er m.a. að gera námsefni af miklum gæðum aðgengilegt öllum sem þurfa á því að halda. Mynd/Áskell

Umhverfisbankinn - þekkingu safnað saman á einn stað sem auðveldar upplýsingaleit um umhverfismál

Landgræðslan hefur í nokkra mánuði leitt könnunarviðræður um gagnabanka meðal nokkurra stofnana en vinnuheiti bankans er Umhverfisbankinn.  Undirtektir viðmælenda Landgræðslunnar lofa góðu en enn er langt í land.  Hafrannsóknarstofnun er í hópi viðmælenda Landgræðslunnar því máli skiptir að nemendur í skólum landsins átti sig á tengslum sjávar og umhverfismála.

Umhverfisbankahugmyndin fór á skrið eftir Umhverfisþing. Tveir ræðumanna voru nemendur úr Menntaskólanum við Hamrahlíð og þeir sögðu lítið til af heppilegu námsefni þegar kæmi að umhverfismálum. Takist að koma Umhverfisbankanum á fót verður hann byggður upp á stuttum myndböndum, tengdum ítarefni.

Lífríkið er ein heild

„Framtíð þjóðarinnar byggist á aukinni þekkingu á umhverfismálum. Allt í kringum okkur eru að gerast hlutir sem geta haft áhrif á búsetu og afkomu. Göngur fiska taka breytingum og nýjar tegundir hafa sést við landið. Meiri þekking í umhverfismálum skipir máli í baráttunni en þá verðum við líka að hefja framboð myndræns námsefnis sem sýnir hvernig lífríkið virkar sem ein heild,“ segir Áskell Þórisson, starfsmaður Landgræðslunnar á sviði útgáfu og kynninga.

Áskell segir að ætlunin væri að Umhverfisbankinn byggði á stuttum „lifandi“ fyrirlestrum.

„Við viljum leita til vísindasamfélagsins og fá fólk innan þess til að flytja stutta fyrirlestra sem henta mismunandi aldurshópum. Ungt fólk er vant myndmálinu og við verðum einfaldlega að nota þá leið. Ritaður texti er vissulega ágætur en hann á ekki sama hljómgrunn meðal unga fólksins og myndmálið – en textinn styður það svo sannarlega.“

Samvinna margra aðila

Rætt hefur verið við Veðurstofuna, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun, Menntamálastofnun, Landbúnaðarháskólann, Umhverfisstofnun, Landvernd, Skógræktina, Félag ungra umhverfissinna, Samlíf, Félag kennara í raungreinum og Matís. Samstarfið hefur ekki verið formgert og þessi listi er ekki tæmandi.

Áskell segir að áfram yrði leitað samstarfsaðila en ekki væri verra ef þeir einfaldlega gæfu sig fram. „Hugmyndafræðin að baki Umhverfisbankanum byggir á samvinnu fjölmargra aðila en markmiðið er betur upplýst skólaæska og almenningur. Umhverfismálin snerta okkur öll.  Þekking, byggð á vísindalegum staðreyndum, er eitt af því sem getur komið okkur til bjargar í þeim vanda sem við blasir. Þessari þekkingu verður að koma til fólks með þeirri tækni sem hefur rutt sér til rúms á síðustu árum.“

Á mörgum stöðum í einu

Sem dæmi má nefna að fyrirlestur um súrnun hafsins gæti verið fluttur samtímis á mörgum stöðum í einu. Í framhaldinu gætu kennarar efnt til hópavinnu sem einnig byggðist á stuttum myndum og tiltæku, viðurkenndu ítarefni. Til er aragrúi stutta fræðslumynda um umhverfismál á erlendum tungum sem Áskell segir að áhugi sé á að þýða á íslensku.

Ef allt gengur upp mun ritnefnd ætíð fara yfir efni sem á að fara í bankann og tryggja að ekkert fari inn nema það sé stutt vísindalegri þekkingu. Notendur bankans verða að geta treyst því efni sem bankinn býður og leit má ekki taka langan tíma. Auk þess munu notendur geta lagt inn efni sem einnig yrði vegið og metið af ritnefndinni. Þá er hugmyndin að bjóða upp á ljósmyndasafn sem fólk má nota án þess að greiða fyrir.

Vilja búa til fljót þekkingar

En er svona banki ekki dýr? Því svarar Áskell á þá leið að vissulega sé dýrt að stofna heilan banka en ef horft er til þess gríðarlega kostnaðar sem bíði framtíðarinnar, ef ekki verður spyrnt við fótum  - og ef  Umhverfisbankinn geti leitt til lægri framtíðarreiknings – sé kostnaðurinn hóflegur.

„Í umræðunni um bankann hefur hlutverki hans verið líkt við að litlum lækjum sé safnað saman og búið til fljót þekkingar. Til að koma þessu út til fólks verður að markaðssetja bankann og nota myndmálið sem notendur skilja og þekkja.“

Markmiðið af safna fróðleik

Samvinna

Einkafyrirtæki, opinberar stofnanir og fjölmargir aðrir aðilar búa yfir gríðarlegri þekkingu á sviði umhverfismála. Gildir einu hvort talað er um áhrif loftslagsbreytinga, beitar eða súrnun sjávar. Þekkingin er til staðar en skólakerfið – almenningur – veit lítið um t.d. rannsóknir á þessu sviði nema fjölmiðill flytji af því fréttir sem gleymast hratt.

Söfnun og dreifing fróðleiks

Markmiðið með Umhverfisbankanum (UB) er að safna saman tiltækum fróðleik á þessu sviði og koma honum í þann búning að grunn- og framhaldsskólanemendur geti nýtt sér hann. Umhverfisbankinn á að vera tæki sem kennarar í náttúrufræði geta nýtt sér í kennslustundum og til hópavinnu nemenda. Áhersla yrði lögð á flokkun efnis þannig að notendur geti fundið það sem þeir eru að leita að hverju sinni. Leit má aldrei taka langan tíma.

Gæðatrygging

Það skiptir máli að notendur Umhverfisbankans geti treyst því efni sem hann geymir. Ritnefnd, skipuð kennurum og vísindamönnum, fengi það hlutverk að ákvarða hvað væri hæft til geymslu og dreifingar og hvernig best væri að framreiða það svo nemendur / almenningur geti nýtt sér efnið.

Breytt framsetning

Ætlunin er að nota þá framsetningu á efni sem nemendur skilja. Nútímatækni hefur gjörbreytt því hvernig best er að koma þekkingu á framfæri. Tími bóka er vissulega ekki liðinn en snjallsímar og önnur áþekk tæki kalla á breytt vinnubrögð.

Vísindamenn

Umhverfisbankinn mun leggja áherslu á stutt myndbönd og tengja við ítarefni. Vísindamenn sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt verið jákvæðir og hið sama má segja um stjórnendur stofnana og fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að vísindamenn flytji örstutt erindi um afmarkaða málaflokka. Ítarefni tengt við erindið. Þá má nefna að kennarar – sem oft búa til gott kennsluefni/myndbönd og annað geta lagt efnið í bankann svo fremi að ritnefnd telji það í lagi.

Kennarar

Frá því að hugmyndir um Umhverfisbankann voru fyrst settar á flot hefur verið lögð áhersla á að hafa samband við kennara í náttúruvísindum. Þeir hafa fagnað hugmyndinni enda sjá þeir þarna möguleika á efni á íslensku, sem búið er til um íslenskar aðstæður.

Þýtt efni

Erlendar stofnanir á sviði umhverfismála hafa búið til mikið af efni. Umhverfisbankinn mundi þýða svona myndir og texta. Nokkrar af þessum alþjóðlegu stofnunum láta efni af þessu tagi endurgjaldslaust en þá situr að sjálfsögðu eftir kostnaður við að þýða og vinna fyrir íslenska nemendur og aðra áhugasama.