sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill komast í viskubrunn sjómanna

Guðsteinn Bjarnason
6. janúar 2018 kl. 08:00

Einn háhyrninganna sem Filipa Samarra og félagar hafa séð við Vestmannaeyjar. MYND/SARA TAVARES

Háhyrningar sáust ítrekað flýja undan grindhvalahópum við Vestmannaeyjar síðastliðið sumar. Filipa Samarra hefur í nærri áratug stundað merkar rannsóknir á háhyrningum hér við land.

Síðan 2008 hefur Filipa Samarra stundað háhyrningarannsóknir hér við land, upphaflega í tengslum við doktorsnám sitt við St. Andrews háskólann í Skotlandi en síðan á Hafrannsóknarstofnun. Aðeins tvö ár hefur gagnaöflun að sumri fallið niður vegna skorts á fjármögnun, en það voru árin 2011 og 2012.

Rannsóknir hennar beinast meðal annars að fæðuvenjum háhyrninga hér við land. Venjulega éta þeir aðallega síld, en Filipu leikur forvitni á að vita hvort þeir eigi það til að snúa sér að makríl þegar síldin lætur ekki sjá sig.

„Við vitum að sumir háhyrningar skipta frá síld yfir í spendýr, og þá helst seli, en vitum ekki hvort þeir skipta yfir í til dæmis makríl ef engin síld er fyrir hendi. Eða hvort þeir lenda í alvarlegum vanda þegar síldin fer,“ segir Filipa.

Þessa dagana er hún að taka saman spurningalista til að senda íslenskum sjómönnum, sem hún vonast til að geti hjálpað sér við rannsóknir sínar.

„Sjómenn eru úti á hafinu miklu meira en við, sjá þar margt og hafa mikla þekkingu á vistkerfinu og öllu því sem er að gerast í sjónum,“ segir hún. „Þannig að okkur langar að heyra hvort þeir sjái háhyrninga þegar þeir eru á makrílveiðum. Þeir hafa miklu meiri upplýsingar en við getum safnað á einu sumri, eða jafnvel þó það væru mörg sumur.“

Flóknari hópamyndun
Rannsóknir á háhyrningum hófust fyrst fyrir alvöru á áttunda áratugnum í norðaustanverðu Kyrrahafi, undan ströndum Bandaríkjanna. Þar hefur verið safnað saman mikilli þekkingu á hegðun háhyrninga, en niðurstöður rannsóknanna hér við land virðast ætla að draga upp nokkuð aðra mynd.

„Þar hafa kálfarnir fylgt móður sinni alla ævina, hvort sem það er karlkyns eða kvenkyns kálfur. Sem er mjög óvenjulegt í samfélögum spendýra. Yfirleitt fara karlkyns afkvæmin sína eigin leið þegar þau þroskast,“ segir Filipa.

Hér á landi er samfélagsgerðin dálítið flóknari, eftir því sem séð verður.

„Við höfum að vísu ekki jafn mikið af upplýsingum og þar, því við erum ekki komin með jafn mörg ár í rannsóknum. En við höfum séð að hóparnir blandast meira hérna. Í staðinn fyrir að fjölskyldan haldi sig út af fyrir sig þá sjáum við að önnur dýr bætast í hópin og svo eru þau kannski horfin úr hópnum næst þegar við sjáum þau.“

Hún segir þetta ekki endilega þýða að fjölskyldan haldi ekki hópinn. „Það getur verið að þeir hafi bara slegist í hóp með ættingjum sínum stund, en fari svo að hitta nánustu fjölskylduna aftur.“

Nú orðið býr Filipa Samarra hér á landi allt árið ásamt fjölskyldu sinni og hefur vinnuaðstöðu á Hafrannsóknarstofnun í nánu samstarfi við sérfræðinga þar, bæði þá sem stunda hvalarannsóknir og aðra. Rannsóknirnar hafa að mestu leyti verið fjármagnaðar af Rannís.

Hún hefur frá upphafi stundað rannsóknir sínar við Vestmannaeyjar á sumrin, en einnig hafa verið gerðar rannsóknir við Grundarfjörð að vetri til.

Með sjónauka á Stórhöfða
Síðasta sumar jókst umfang rannsóknanna við Vestmannaeyjar töluvert. Til þessa höfðu þær einungis verið stundaðar í júlímánuði, en nú tókst að halda þeim úti allt sumarið, frá júníbyrjun til ágústloka.

Allt sumarið, þegar veður leyfði, var einnig fólk á vegum Filipu uppi á Stórhöfða með sjónauka að fylgjast með öllu sem gerist á hafinu allt í kring.

„Við vorum þarna að skrá niður allar hvalategundir sem sjást, því þaðan höfum með miklu betri yfirsýn yfir allt vistkerfið, ekki bara háhyrningarna.“

Þar urðu þau ítrekað vitni að sjaldséðu sjónarspili þegar háhyrningar sáust forða sér undan grindhvalavöðum.

„Við höfðum einstaka sinn séð slíkt áður, en í sumar sáum við í fyrsta sinn mikið af þessu. Stór grindhvalahópur kom þá langt að og synt mjög hratt. Háhyrningarnir hljóðnuðu og forðuðu sér. Þetta er mjög áhugavert, þessi samskipti tegundanna tveggja, því yfirleitt sjáum við ekki háhyrninga við Vestmannaeyjar eiga nein samskipti við önnur spendýr.“

Um rannsóknir Filipu Samarra má lesa bæði á vefsíðu verkefnisins, icelandic-orcas.com, og Facebook-síðu þess og á vef Hafrannsóknarstofnunar. Lögð er áhersla á að veita þar aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning, þar á meðal er þar fjöldi ljósmynda og einnig eru þar hljóðupptökur þar sem heyra má þau hljóð sem háhyrningarnir gefa frá sér.

Filipa hvetur alla sem hafa sögur að segja af háhyrningum hér við land til að hafa samband með tölvupósti í icelandorca@gmail.com 

Háhyrningaskrá
Á Hafrannsóknarstofnun hefur verið tekin saman og gefin út skrá yfir alla háhyrninga sem vitað er um við Ísland, með ljósmyndum af ugga dýranna, en af lögun og útliti uggans má þekkja hvert dýr rétt eins og fólk þekkist af fingraförum.

Filipa Samarra og félagar hennar vinna meðal annars að því bæta nýjum gögnum inn í þessa skrá, taka ljósmyndir og húðsýni úr hverju dýri, en úr húðsýninunum má meðal annars lesa upplýsingar um erfðaefni og fæðuval dýranna.