þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinna hægðalyf úr lýsi

Guðsteinn Bjarnason
27. apríl 2019 kl. 07:00

Omalax, hægðalyfið sem kemur á markað fyrir árslok. MYND/AÐSEND

Uppgötvuðu fyrir tilviljun hægðalosandi áhrif óbundinna fitusýra

Hrein tilviljun varð til þess að hægðalosandi áhrif óbundinna fitusýra í lýsi uppgötvuðust. Nýsköpunarfyrirtækið Lipid Pharmaceuticals hefur nú, með stuðningi Tækniþróunarsjóðs, þróað hægðalyfið Omalax sem væntanlega kemur á markað fyrir lok ársins.

Stella Rögn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Lipid Pharmaceuticals, greindi frá þessu á ráðstefnu um fullvinnslu sjávarafurða, Fish Waste for Profit 2019, sem haldin var dagana 10. og 11. apríl á vegum Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, Icefish.

Hún segir að prófessorarnir Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, sem stýrðu verkefninu, hafi vitað af því að óbundnar fitusýrur í lýsi hafi ákveðin læknandi áhrif. Bæði hafi þau bólgueyðandi áhrif og vinni einnig gegn bæði veirum og bakteríum.

„Þeir vildu framleiða vöru þar sem þessi gagnlegu áhrif yrðu nýtt,“ sagði Stella Rögn. „Einar, sem er prófessor í augnlækningum, fékk því þá hugmynd að þróa augndropa gegn smiti í augum.“

Óþægileg lykt
Þegar prófa átti augndropana kom hins vegar í ljós óþægileg aukaverkun.

„Þetta var gert úr lýsi þannig að lýsið tók að leka niður táragöngin og inn í nefholið þar sem þefurinn af þráum fiski sat fastur dögum saman. Ég get fullyrt að það er ekki góð lykt til að sitja uppi með.“

Því var ákveðið að prófa annað, leita þangað sem lyktin væri ekki vandamál og kanna hvort ekki væri hægt að búa til stíla sem myndu virka gegn gyllinæð. Þegar tilraunir hófust með það komu í ljós önnur hliðaráhrif sem ekki hafði verið reiknað með.

„Það komu nefnilega í ljós mikil hægðalosandi áhrif,“ sagði Stella Rögn. „Í staðinn fyrir að hætta við vöruna áttaði hópurinn sig á því að þau hefðu gert mikilvæga uppgötvun, að þarna væri í reynd tækifæri. Og þannig duttu menn niður á Omalax.“

Með því að vinna hægðalyf úr lýsi eykst verðmæti vörunnar gríðarlega. Úr aðeins einni skeið af lýsi, venjulegum dagskammti, er hægt að vinna 30 skammta af Omalax.

Ítarlegar prófanir
Gerðar hafa verið ítarlegar prófanir á lyfinu sem sýna að það er bæði hraðvirkt og öruggt, og mjög samkeppnishæft við þau lyf sem nú eru notuð í sama tilgangi.

Stella Rögn segir hægðalosandi áhrifin koma innan fimmtán mínútna, engar alvarlega aukaverkanir á borð við magakrampa og niðurgang hafi komið í ljós og prófanir sýni að óhætt sé að gefa börnum þetta hægðalyf.