þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viskíreyktur lax

27. október 2009 kl. 15:00

Skoska eldisfyrirtækið Loch Fyne hefur sett á markaðinn reyktan lax sem eflaust á eftir að kitla bragðlauka matgæðinga. Um er að ræða lax sem marineraður hefur verið í 21 árs gömlu maltvískíi frá hinum þekkta framleiðanda Glengoyne.

Laxinn er sagður alinn upp við sérstakar vistvænar aðstæður. Eftir slátrun er hann handflakaður og lagður í lög með sjávarsalti og lífrænt ræktuðum sykri. Þessu næst er hann marineraður í Glengoyne-viskíi. Loks eru laxaflökin reykt í 10 klukkustundir. Brennd er eik úr gömlum viskítunnum sem bætir bragðið enn frekar.

Boðið er upp á þennan eðallax sneiddan niður í 200 gramma pakkningar og 1,5 kílóa pakkningar. Að sjálfsögðu mæla framleiðendur svo með því að menn dreypi á maltviskíi eftir að hafa gætt sér á laxinum.

Heimild: IntraFish o.fl.