föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Von á 147.000 manns af skipsfjöl

12. mars 2018 kl. 12:00

Skemmtiferðaskip í höfn á Akureyri.

Tólf hafnasjóðir höfðu tekjur af komu skemmtiferðaskipa á árinu 2016, alls um 662 milljónir króna.

Áætlaðar eru 168 skipakomur til Faxaflóahafna í ár, með heildar farþegarými fyrir 147.000 farþega. Til samanburðar þá komu 135 farþegaskip til Faxaflóahafna á síðasta ári með alls 128.000 farþega. Þjóðverjar eru stærsti hópur ferðamanna sem koma með skemmtiferðaskipum til Faxaflóahafna og voru rúmlega 40.000 í fyrra en ferðamenn frá Bandaríkjunum fylgja þar fast á eftir, voru um 30.000 í fyrra.

Risi væntanlegur

Frá þessu segir á heimasíðu Faxaflóahafna en einnig að skipið MSC Meraviglia kemur til Reykjavíkur í sumar. Það er langstærsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til Reykjavíkur í brúttótonnum talið. Skipið er smíðað í Frakklandi og var tekið í notkun árið 2017. MSC Meraviglia er 171.598 brúttótonn og 333 metrar að lengd, með farþegarými fyrir rúmlega 4.500 farþega og í áhöfn eru 1.536 manns. Káetur og svítur farþeganna eru á 15 hæðum.  MSC Meraviglia mun koma þrisvar yfir sumarið, dagana 26. maí, 29. júní og 2. ágúst.

Tólf hafnarsjóðir

Skemmtiferðaskipum fjölgar stöðugt og koma víða við, en um þessar breytingar í rekstri hafnanna er sérstaklega fjallað í skýrslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga vann fyrir Hafnasamband Íslands. Þar kemur fram að tólf hafnasjóðir höfðu tekjur af komu skemmtiferðaskipa á árinu 2016, alls um 662 milljónir króna. Þessar tekjur hafa farið vaxandi undanfarin ár, 2015 námu tekjurnar 560 milljónum og 2014 473 milljónum. Hafnir Ísafjarðarbæjar hafa hlutfallslega mestar tekjur af skemmtiferðaskipum og er áætlað að þær hafi numið um 44% af tekjum ísfirsku hafnanna.

10 milljarðar

Nokkuð hefur verið rætt um mengun frá skemmtiferðaskipum að undanförnu. Ólíkt minni skipum er tæknilega ógerlegt að tengja skipin við landrafmagn í íslenskum höfnum.  Landtengingar skemmtiferðaskipa kalla á sérlausn vegna orkuþarfar þeirra, eða kerfi á háspennu.

Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um verður kostnaður við háspennutengingar sex til sjö stærstu hafna landsins aldrei lægri en 10 milljarðar króna. Íslenskar hafnir geta ekki landtengt skip sem þurfa meira en eitt megavatt í aflþörf á þeim tíma sem landlega varir.

Háspennutengingar verða ekki settar upp nema á nokkrum stærstu höfnum landsins. Gróft metið má ætla að kostnaður Faxaflóahafna gæti orðið um fjórir milljarðar króna til að koma upp fjórum til fimm slíkum stöðvum, en fullnægjandi kostnaðarmat fyrir slíkri aðgerð liggur ekki fyrir. Því síður kostnaðarmat á þeim aðgerðum sem veitustofnanir þurfa að gangast fyrir við að leggja strengi að höfnunum sem þjónustu háspennustöðvarnar.

Þessum tölum um tilkostnað má finna stað í skýrslu Darra Eyþórssonar, umhverfisverkfræðings, sem kannaði fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf., og Reykjavíkurborg hvernig landið liggur varðandi þetta stórverkefni. Skýrsla hans lá fyrir í fyrrasumar.

Þar segir: „Mestum umhverfislegum ávinningi má ná með því að auka notkun landrafmagns um borð í skipum við höfn. Nýta skipin sér þá innlenda raforku sem framleidd er á umhverfisvænan og endurnýjanlegan máta, í stað þess að brenna skipaolíu í ljósavélum sínum. Nú þegar nýta innlend fiskiskip og togarar sér þessa þjónustu, en rafdreifikerfi hafnanna var hannað með það í huga að þjónusta þessi skip.

Ríkið þarf til

Það er þó ekki ljóst hvort það sé yfir höfuð skylda hafnanna sjálfra – eða sveitarfélaganna -  að ráðast í kostnaðarsama uppbyggingu við landtengingar hafna, samkvæmt núgildandi lagaumhverfi. Erlendis eru það ríki, sjóðir og héruð sem leggja höfnum til verulegan hluta stofnkostnaðar - þar sem þetta hefur verið sett upp - en hafnir eru fáar í Evrópu sem hafa svona búnað - en í Bandaríkjunum og Kanada hafa nokkrar hafnir fjárfest í háspennutengingum með öflugum stuðningi frá borgaryfirvöldum.

Því virðist ljóst er að uppsetning háspennutenginga er langtímaverkefni – og málinu verður ekki hreyft nema með myndarlegri aðkomu ríkisvaldsins enda um tuga milljarða uppbyggingu að ræða