laugardagur, 17. nóvember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonir um greiðari aðgang en EES veitir

2. desember 2017 kl. 08:00

Mikið unnar sjávarafurðir eru með hærri tolla en þær sem minna eru unnar. MYND/HAG

Á vegum utanríkisráðuneytisins hefur verið unnin ítarleg greining á hagsmunum Íslands í tengslum við brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. Íslensk stjórnvöld hyggjast reyna að ná fram auknum tollfríðindum í Bretlandi eftir Brexit.

Íslensk stjórnvöld gera sér vonir um að brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu verði markaðsaðgangur Íslendinga að Bretlandi enn betri en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggir okkur.

„Jafnvel þótt EES--samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslensks útflutnings til Bretlands njóti annað hvort tollfrelsis eða tollaívilnana þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir,“ segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um hagsmuni Íslands vegna Brexit. „Á viðskiptasviðinu er því ljóst að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helstu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.“

Í skýrslunni er vissulega tekið fram að óvissan um það um það sem kemur út úr væntanlegum samningaviðræðum Íslands við Breta sé mikil. En fari svo að hagstæðir samningar náist við Breta geti þeir falið í sér lækkun eða niðurfellingu á tollum sem enn eru í gildi þrátt fyrir EES-samninginn.

Þetta muni ná til viðskipa með sjávarafurðir ekki síður en aðrar vörur.

Stefnt á algjöra fríverslun
Þessi afstaða ráðuneytisins, undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, kom einnig fram í nýlegu viðtali Fiskifrétta við þá Stefán Hauk Jóhannesson, sem nú er nýorðinn sendiherra í London, og Sigurgeir Þorgeirsson, sérfræðing í atvinnuvegaráðuneytinu, sem báðir hafa staðið í ströngu við að búa Íslendinga undir það mikla verkefni sem brotthvarf Breta úr ESB hefur í för með sér.

Þeir fullyrtu í þessu viðtali að helsta samningsmarkmið Íslendinga gagnvart Bretum verði algjör fríverslun með sjávarafurðir, en til vara að við fáum ekki lakari kjör en okkur bjóðast í dag.

„Það er nú þannig að í gegnum EES samninginn og í einstökum tilvikum gagnvart gamla EFTA samningnum höfum við almennt mjög góð kjör inn á Evrópu,“ sagði Sigurgeir. „Það eru nokkrar afurðir hins vegar þar sem eru ekki algjör tollafríðindi eða að því er mönnum finnst ekki fullnægjandi tollkvótar.“

Í skýrslunni segir að ljóst sé að við úrsögn Bretlands úr ESB muni Ísland að óbreyttu glata núverandi markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir þar. Útilokað sé að fullyrða hvernig tollaumhverfið í Bretlandi verður eftir úrsögnina, hvernig hin almenna tollskrá Bretlands muni líta út eða hversu háir tollar verði lagðir á einstakar afurðir.

Í þeim efnum verði Bretar einungis bundnir að því leyti að almennir bestukjaratollar á einstakar afurðir mega ekki vera hærri en tollabindingar ESB, samkvæmt GATT-samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO.

Misháir tollar
„Tryggja mætti áframhaldandi greiðan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir til Bretlands með gerð hagfellds fríverslunarsamnings, tvíhliða eða með hinum EFTA-ríkjunum,“ segir í hagsmunagreiningunni. „Slíkur samningur gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er ef tollar féllu einnig niður af afurðum sem nú bera toll inn til ESB.“

Tollar eru almennt hærri á mikið unnar sjávarafurðir en þær sem minna eru unnar. Greiðari markaðsaðgangur ætti því ekki síst við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum, einkum þær sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag. Þar á meðal má efna makríl, síld, lax og túnfisk ásamt karfa, steinbít og skarkola.

„Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapast tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru.“

Í skýrslunni er tekið fram að Íslendingar hafi ríkan skilning á því að Bretar kjósi að taka sjávarútvegsmálefni aftur í sínar hendur eftir að sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB sleppir. Eftir að Bretland gangi úr ESB muni bresk stjórnvöld þurfa að skipuleggja eigið fiskveiðikerfi, og þar búi Íslendingar að áratuga langri reynslu.

„Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og saman geta Ísland og Bretland orðið talsmenn sjálfbærra fiskveiða, talað gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og sótt fram í fríverslun með sjávarafurðir á heimsvísu.“