sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonlítið orðið að loðnuganga komi að vestan

4. mars 2009 kl. 15:59

Með hverjum deginum sem líður minnkar vonin um að meira finnist af loðnu. Vestanganga lætur ekki á sér kræla. Faxi RE fór út til leitar í fyrradag eftir að Ingunn AK hafði siglt yfir eina eða tvær torfur í Kolluál á leið í land en ekkert kom út úr þeirri skoðun.

,,Við höfum ekki fengið neinar fréttir af svæðinu fyrir vestan land sem benda til þess að komið hafi vestanganga af loðnu. Eiginleg leit er ekki í gangi en það eru skip á svæðinu sem láta okkur vita ef eitthvað sést. Jafnframt munu skipin í togararallinu, sem nú er hafið, fylgjast með,” sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun þegar Fiskifréttir ræddu við hann um hádegisbilið í dag.

,,Vonin um finna frekari loðnu er orðin veik þótt við viljum ekki gefa hana upp fyrr en í fulla hnefana,” sagði Þorsteinn. ,,Síðasta kröftuga vestanganga kom árið 2001 en svo kom ein í hittifyrra sem lítið var veitt úr. Venjan er að vesturgöngur skjóti upp kollinum um mánaðamótin febrúar/mars. Hins vegar virðist loðnan hafa verið um 10 dögum fyrr í þroska að þessu sinni miðað við undanfarin ár þannig að reikna má með að þessu sé að ljúka núna.”