föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vorrallið í fullum gangi

14. mars 2008 kl. 10:53

Verkefnið Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum, oft nefnt togararall, hefur staðið yfir frá 27. febrúar. Fimm skip taka þátt í verkefninu; togararnir Bjartur, Ljósafell og Páll Pálsson ásamt rannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni.

Búið er að fara yfir miðin fyrir norðan, norðaustan og suðvestan land en enn á eftir að toga á mikilvægum svæðum út af Vestfjörðum og á Suðausturmiðum. Alls verður togað á tæplega 600 stöðvum vítt og breitt á landgrunninu á 10-600 m dýpi.

Helstu markmið verkefnisins eru að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu helstu fisktegunda við landið, ásamt hitastigi sjávar.

Leiðangrar hafa víðast gengið vel fram til þessa, að undanteknum Vestfjarðamiðum þar sem veður hefur verið slæmt. Úrvinnsla mælinganna og aldursgreiningar fara fram í lok mars og fyrstu niðurstöður verða kynntar snemma í apríl. Þessar upplýsingar koma fram á hafro.is.