sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vottun grásleppuveiða afturkölluð

28. desember 2017 kl. 09:12

Grásleppa

Komið hefur í ljós að meðafli við veiðarnar er umfram viðmiðunarmörk í fjórum tegundum.

Landssambandi Smábátaeigenda hefur verið tilkynnti að MSC vottun fyrir grásleppuveiðar hafi verið afturkölluð, að minnsta kosti tímabundið. Ástæðan er sú að meðafli við veiðarnar hafi verið umfram viðmiðunarmörk í fjórum tegundum, samkvæmt niðurstöðum frá Vottunarstöðinni Tún.

Veiðarnar ógna þar með tilvist þessara fjögurra tegunda, en þær eru landselur, útselur, dílaskarfur og teista. Vottunarstofan Tún byggir niðurstöður sínar á útreikningum Hafrannsóknastofnunar frá upplýsingum úr afladagbókum og athugunum veiðieftirlitsmanna.

Landssambandi smábátaeigenda var gerð grein fyrir málinu stuttu fyrir áramót og greindi frá þessu á heimasíðu sinni.

Að sögn Gísla Gíslasonar hjá MSC hefur Iceland Sustainable Fisheries, sem sér um að afla MSC-vottana á veiðarfæri og fiskistofna hér við land, nú fengið 90 daga frest til að að koma annað hvort með áætlun sem endurheimtir vottunina eða fá samþykkta aðgerðaráætlun sem mun á endanum endurheimta vottunina.

Selir og fuglar í hættu
Í skýrslu vottunarstofunnar fyrir 2017 segir að við grásleppuveiðar hér við land hafi meðafli af landsel mælst um það bil tólf prósent af stofninum, eða 930 dýr af þeim 7.600 sem er áætluð stofnstærð. Að vísu er tekið fram að mikil óvissa sé í þessum útreikningum.

Þá er meðafli af útsel talinn geta numið 1.566 dýrum, en aftur er vísað til óvissu í mælingunum. Þessi tala er sögð ótrúleg með hliðsjón af því að stofn útsela er aðeins metinn á um það bil 4.200 dýr.

Þá er talið að dílaskarfur í meðafla hafi verið um 17 prósent af stofninum og 20 prósent af þeim fjölda teista sem stofninn telur.

Nokkuð er fjallað um seli í ástandsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar í júní 2017. Þar kemur fram að fjöldi landsela hafi verið metinn um 33 þúsund dýr árið 1980, en stofninn hafi minnkað hratt eftir það. Hann hafi verið um 15 þúsund dýr árið 1989 og var svo kominn niður í um 7.600 dýr árið 2016 þegar síðasta talning fór fram.

Samkvæmt þessu mati Hafrannsóknarstofnunar var stofninn þá 77% minni en hann var árið 1980 og 36% undir stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda sem er 12 þús. dýr.

Að sögn Hafró eru takmörkuð gögn til um óbeinar veiðar, en allt bendi til að árið 2015 hafi 1066 landselir hafi veiðst í grásleppunet og 160 árið 2014. Einnig veiddust 46 landselir í þorskanet á árið 2015 en engir árið 2014. Samkvæmt matinu veiddust 86 landselir í botnvörpu árið 2015.

Frétt uppfærð 8. janúar.