miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsukvótinn lækkaður um 30 þúsund tonn

10. júlí 2009 kl. 15:53

þorskkvótinn verður 150 þúsund tonn eins og Hafró lagði til

Þorskkvótinn verður 150 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra sem kynnt var fyrir skömmu. Fer ráðherra þar að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Aflamark í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári er 162.500 tonn. Aflamark í ýsu er lækkað úr 93 þúsund tonnum niður í 63 þúsund tonn. Þá boðar ráðherra breytta stjórna á veiðum á skötusel og úthafsrækju.

Í frétt frá sjávarútvegsráðherra segir að ekki verði um að ræða verulegar breytingar á leyfilegum heildarafla einstakra tegunda frá tillögum Hafrannsóknarstofnunarinnar. Þorskaflinn verður í samræmi við tillögur stofnunarinnar eða 150 þúsund tonn en það skal þó tiltekið hér að ekki er gert ráð fyrir strandveiðum á næsta ári í þeirri tölu. Heildaraflamark þorsks byggir á  nýtingarstefnu sem felur í sér aflareglu. Er hér gert ráð fyrir að á fiskveiðiárinu 2009/2010  muni leyfilegur þorskafli miðast við 20% afla úr viðmiðunarstofni.

Samdráttur í ufsa

Hvað aðrar tegundir áhrærir eru breytingar nokkrar. Aflamark í ýsu og ufsa lækkar milli ára, en þó ekki jafn mikið og Hafrannsóknastofnunin leggur til.

Hafrannsóknastofnunin leggur til verulega lægra aflamark ýsu á næsta fiskveiðiári, eða 57 þúsund tonn, en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs er 93 þúsund tonn.  Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar felur í sér varfærni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, telur það sjónarmið rétt að sýna beri varfærni við nýtingu ýsustofnsins og hefur því ákveðið lækka aflamarkið í 63 þúsund tonn og víkja þannig lítið frá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.

Varðandi ákvörðun heildar aflamarks í ufsa leggur Hafrannsóknastofnunin til 37 þúsund tonn en aflamark á yfirstandandi fiskveiði ári er 65 þúsund tonn. Ákvörðun ráðherra er 50 þúsund tonn.

Aðrar leiðir skoðaðar við stjórn skötuselsveiða

Þá er aflamark sett hærra en tillögur Hafrannsóknastofnunar gera ráð fyrir karfa, steinbít, skrápaflúru, skarkola,sandkola, keilu, löngu, þykkvalúru og langlúru og er það mat ráðherra þrátt fyrir það sé varlega farið með hliðsjón af því sem vitað er um þessa stofna. Breytingin er þó í flestum tilvikum lítil og engin frá yfirstandandi ári. Þrátt fyrir tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar um verulega lækkun aflmarks í grálúðu er það ákveðið 12 þúsund tonn en það er þó 20% lækkun frá 15 þúsund tonna aflamarki yfirstandandi fiskveiðiárs. Varðandi skötusel skal það tiltekið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hefur ákveðið aflahámark er svarar til 2.500 tonna sem er í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Ráðherra tekur þó fram að hann hefur í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel.

Aukin veiðiskylda og takmarkað framsal í úthafsrækju

Veiðar á úthafsrækju hafa ekki verið miklar undanfarin ár sé miðað við áratugina þar á undan. Veiðin 2007/2008 var eingöngu 1.394 tonn þótt heildaraflamark hafi verið ákveðið 7.000 tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári eru þó bendingar um að þessi veiði sé að aukast. Þrátt fyrir litla veiði undanfarin ár hefur ráðherra ákveðið að aflamark í úthafsrækju verði 7.000 tonn. Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru að auka veiðiskyldu og takmarka flutningsrétt aflamarks í úthafsrækju á milli fiskveiðiára og milli fiskiskipa, einkum með tilliti til þess að flutningur milli skipa verði ekki notaður til að auka framsalsrétt í öðrum tegundum frá þeim skipum sem aflamarkið er flutt til.