miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsuævintýri í Barentshafi

14. október 2009 kl. 12:43

Ýsustofninn í Barentshafi er í sérstaklega góðu ástandi. Frá aldamótunum hefur nánast hver einasti árgangur ýsunnar verið sterkur þannig að nú er yfirdrifið af ýsu í hafinu í öllum stærðum.

Allt þar til fyrir tíu árum einkenndist þróun ýsustofnsins í Barentshafi af því að einstakir sterkir árgangar héldu öllum veiðistofninum uppi. Þetta mynstur er einnig þekkt í ýsustofninum hér við land.

Nú bregður hins vegar svo við að hver sterki árgangurinn á fætur öðrum kemur inn í ýsustofninn í Barentshafi. Þannig mælist 2009 árgangurinn núna þrisvar sinnum stærri en langtímameðaltal.

Ýsukvótinn í Barentshafi fyrir næsta ár hefur verið ákveðinn 243.000 tonn sem er 25% aukning frá yfirstandandi ári.

Á sama tíma og kvótar í þorski og ýsu á Íslandsmiðum eru skertir verulega gengur sjómönnum í Barentshafi allt í haginn. Meira að segja loðnan er nú aftur á uppleið í Barentshafi á sama tíma og loðnustofninn við Ísland er í djúpri lægð.