Seðlabanki Íslands spáir um 1,4% framleiðsluspennu á þessu ári samkvæmt heftinu Peningamálum frá því í nóvember síðastliðnum. Með því væntir hann að áframhald verði á gangi síðustu þriggja ára þar sem magn vergrar landsframleiðslu er umfram getu framleiðsluþátta hagkerfisins – ástand sem stuðlar að verðbólguþrýstingi sem kallar á aukið peningalegt aðhald.

Vandasamt er að meta framleiðsluspennu sem er nauðsynlegt þar sem peningastefnunefnd bankans notast við matið til að ákvarða stig hagsveiflunnar og samsvarandi vexti fyrir nánustu framtíð. Í rammagrein IV-3 í Peningamálum frá mars 2006 er tiltekið að matið sé háð tvenns konar óvissu; annars vegar gagnaóvissu sem að mestu má rekja til endurmats Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum, og hins vegar ómöguleiki við nákvæma mælingu framleiðslugetu vinnuafls og fjármuna hagkerfisins. Þeir þættir sem áhrif hafa á getuna eru meðal annars þróun mannfjölda á vinnufærum aldri, vænt atvinnuþátttaka, framleiðniaukning, fjármunaeign og fjármunamyndun.

Staðfestir sagan tengsl framleiðsluspennu og verðbólgu? Frá árinu 1992 til 2017 hefur framleiðsluspenna verið til staðar árin 1998 (auk 1999-2001 líklega), 2004 til 2008, og 2015 til 2017. Samtímaverðbólga er álíka þessi ár og ár með slaka eða liðlega 4%. Verðbólga eitt og tvö ár fram í tímann reyndist um 2 prósentustigum hærri en að jafnaði árin sem framleiðsluslaki varð. Aftur á móti að frátöldum árunum 2008 og 2009, þar sem verðbólga var um 12%, er hún ekki marktækt hærri eða um 3,6%.

Dr. Ásgeir Daníelsson nefnir í grein sinni í Peningamálum í apríl 2008 réttilega að „[þ]að er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.“ Myndin sýnir einstakar spár úr öllum útgáfum Peningamála frá því í nóvember 2006. Um er að ræða endanlegt mat Seðlabankans á framleiðsluspennu (rauður ferill) frá árinu 2008 og spár fyrir hvert ár (gular súlur þar sem hæðin táknar bil milli hæsta og lægsta mats). Skyggða svæðið táknar ókomin ár. Frá upphafs- til lokamats breytast spár bankans að jafnaði um eitt prósentustig en áhugavert er að fyrir síðastliðin þrjú ár hefur bankinn vanmetið spennuna um 2 prósentustig. Í nóvember 2013 spáði bankinn um 0,2% spennu fyrir árið 2016 en hún reyndist 3,2% að lokum í nóvember 2017. Erfitt var að sjá fyrir mikinn vöxt þjónustuútflutnings.

Fyrir vikið er síður auðvelt að fullyrða um framleiðsluspennu fyrr en 11 mánuðum eftir að árið er liðið. Seðlabankinn spáði í nóvember 2007 4,1% slaka fyrir árið 2009 og 3,4% slaka árið 2010. Bankinn hélt sig við þessar spár og hafði rétt fyrir sér. Þá kynnti bankinn í síðustu Peningamálum nýja vísitölu nýtingar framleiðsluþátta (NF-vísitala) sem stuðning við mat á framleiðsluspennu.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.