Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ( SFS ) ritaði grein í Viðskiptablaðið fyrir tveimur vikum sem mátti skilja á þá leið að kröfur hins opinbera til laxeldis í opnum sjókvíum væru á þá leið að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum þessarar starfsemi á lífríkið og umhverfið. Vissulega eru í orði lagðar ákveðnar skyldur á þessi fyrirtæki en þegar kemur að því að fylgjast með því hvort eftir þeim sé farið er vanmáttur hins opinbera nær alger.

Rifnir netapokar

Aðeins eru liðnir nokkrir mánuðir frá því haft var eftir Ernu Karen Óskarsdóttur, fagsviðsstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun (MAST), í fjölmiðlum að hún teldi stofnunina ekki í stakk búna til að sinna skyldum sínum um eftirlit með fiskeldi. Benti Erna á að um 60 aðilar hefðu rekstrarleyfi til fiskeldis en einungis einn starfsmaður vinni við eftirlit með þeim hjá stofnuninni. Sá starfsmaður er síðan staðsettur á Selfossi, sem er um það bil eins langt frá þeim landsvæðum þar sem meginhluti fiskeldis Íslands er stundað og hægt er að komast.

Tilefni fréttaviðtalsins við Ernu var að rifur höfðu fundist á netapoka sjókvíar Arnarlax í Tálknafirði þar sem í voru um 153.000 eldislaxar. Vitað var að fiskur hafði sloppið út en Erna sagði stofnunina ekki hafa burði til að meta fjöldann. „Okkur þykja óvissuþættirnir vera það stórir að við getum ekki áætlað um fjölda fiska sem farið hafa úr kvínni. Hvort þau séu hundruð eða þúsund,“ sagði hún í frétt Fréttablaðsins. Þess má geta að þegar slátrað hafði verið upp úr kvínni gat Arnarlax ekki gert grein fyrir afdrifum um um 5.000 fiska sem vantaði.

Fullkomið máttleysi

Eftirlitið er ekki það eina sem er ábótavant. Máttleysi kerfisins verður enn meira sláandi þegar fyrirtækin eru svo staðin að brotum. Í byrjun júní 2018 setti Arnarlax til dæmis út lax í sjókvíar við Hringsdal í Arnarfirði aðeins þremur mánuðum eftir að fiski hafði verið slátrað þar upp úr kvíum en samkvæmt starfsleyfi félagsins átti að hvíla svæðið að hvíla að lágmarki í sex til átta mánuði milli eldislotna. Hvíldartíminn er hugsaður til að gefa umhverfinu svigrúm til að ná jafnvægi áður en næsti skammtur af botnfalli og annarri mengun frá yfir milljón fiskum bætist við það sem fyrir er.

Umhverfisstofnun brást við þessu einbeitta broti með því að boða að Arnarlax yrði áminnt. Viðbrögð fyrirtækisins voru að sækja um í júlí í fyrra undanþágu fyrir þessum verknaði til umhverfisráðuneytisins.

Í september 2018 kom fram að Umhverfisstofnun legðist gegn því að undanþága yrði veitt, enda ekki lagastoð fyrir að slíku. Það var svo ekki fyrr en í apríl á þessu ári sem loks barst sú niðurstaða úr ráðuneytinu að undanþágan yrði ekki veitt. Nú rúmum mánuði síðar er Arnarlax hins vegar enn með um milljón fiska í óleyfi í sjókvíum í Arnarfirði og óljóst hvert framhald málsins verður.

Frítt spil

Í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi, sem Alþingi hefur nú til meðferðar, er gert ráð fyrir að eftirlit með fiskeldi sé fyrst og fremst í höndum fyrirtækjanna sjálfra. Þau haldi uppi innra eftirliti og sendi MAST skýrslur. Það liggur í augum uppi að þetta er mjög veikburða kerfi. Fyrirtækin hafa augljósa hagræna hvata af því að gefa ekki upp upplýsingar sem kunna að skaða þau.

Þessi stóri galli á frumvarpsdrögum ráðherra verður enn skýrari þegar úttekt Ríkisendurskoðunar á Fiskistofu frá því í fyrra er höfð til hliðsjónar. Í henni kom fram stór áfellisdómur um þá umgjörð sem stjórnvöld hafa kosið að búa stofnuninni, en með henni er geta Fiskistofu til að sinna lögbundinni eftirlitsskyldu sinni mjög takmörkuð. Þarf hún meðal annars að treysta á tilkynningarskyldu handhafa aflahlutdeilda þegar kemur að eftirliti með hvort aflahlutdeild sé í samræmi við það hámark sem skilgreint er í lögum, í stað þess að byggja á eigin upplýsingaöflun.

Mögulega er það einmitt draumaveruleiki framkvæmdastjóra SFS að fyrirtækin hafi svona frítt spil en fyrir náttúru Íslands er það martraðarkennd staða.

Höfundur er í stjórn Icelandic Wildlife Fund.