Það er álitamál hvort launamenn geti notið sjálfstæðrar verndar almennra reglna skaðabótaréttar ef þeir verða fyrir tjóni sem rekja má til sakar stjórnenda félagsins. Rétt er að benda á að almennum reglum skaðabótaréttarins og skaðabótaákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög hefur verður beitt í tilvikum skaðabótaábyrgðar stjórnenda gagnvart hlutafélagi. Höfundur telur að unnt sé að beita ákvæðum laganna í tilviki þrotabúa þar sem þrotabú eða kröfuhafar þessar kunna að eiga skaðabótakröfu á hendur stjórnenda félags, sbr. t.d. Hrd. 23. mars 2017 í máli nr. 187/2016. Á hinn bóginn er ekki tekið á því í íslenskum lögum hvort launamenn geti átt sjálfstæða bótakröfu á hendur stjórnendum félags.

Samkvæmt lögum nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa ábyrgist sjóðurinn greiðslur vegna vangoldinna krafna launamanna við gjaldþrot vinnuveitenda sem er með skráða starfsemi hér á landi. Lögin eiga sér rætur að rekja til EES-réttar en þau vou sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins frá 20. október 1980 nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota. Tilskipunin var innleidd á grundvelli EES-samningsins.

Sjóðurinn ábyrgist ekki eingöngu greiðslur vegna vangoldinna krafna launamanna heldur einnig iðgjaldagreiðslur vegna launamanna í lífeyrissjóð, orlofsgreiðslur o.fl. í ákveðinn tíma fyrir gjaldþrot, sbr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 12. gr. laganna eru greiðslur úr sjóðnum háðar því að krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa berist honum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ræður lokum kröfulýsingarfrests í búið. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið unnt að gera fyrr. Þá skal skiptastjóri í búi vinnuveitenda eins fljótt og kostur er láta sjóðnum í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem gæti notið ábyrgðar sjóðsins. Umsögn skiptastjóra skal jafnframt fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins, sbr. 13. gr. framangreindra laga.

Væri þessi sjóður ekki til staðar verður að telja að í einhverjum tilvikum gæti launamaður átt skaðabótakröfu á hendur stjórnendum hlutafélags persónulega að því gefnu að reglur skaðabótaréttarins leiði til skaðabótaábyrgðar. Sem dæmi má nefna tilvik þar sem stjórnendur vanræktu að gefa félag upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 64. gr. gjaldþrotalaga, með þeim afleiðingum að launamaðurinn fékk ekki laun sín greidd.

Ábyrgðasjóður launa greiðir launamönnum óháð því hvort stjórnendur gætu verið persónulega ábyrgir eður ei. Má því draga þá ályktun að sé skaðabótaábyrgð til staðar gæti sjóðurinn átt eftir atvikum endurkröfurétt eða hlutdeild í skaðabótakröfunni á hendur stjórnendum félags. Ekki verður séð að Ábyrgðasjóður launa hafi látið reyna á slíkan endurkröfurétt.