Í síðustu viku flutti undirritaður stutt erindi á Viðskipta- þingi um orkumál þar sem bent var á þá staðreynd að 92% af raforku á Íslandi eru framleidd af opinberum fyrirtækjum og 80% af kaupendum orkunnar væru stórfyrirtæki. Einnig kom fram að vægi hins opinbera af raforkuframleiðslu hefur aukist ár eftir ár og að búast mætti við enn auknu vægi á næstu árum. Aðeins 20% af notendum orkunnar væru almennir notendur en 80% svokallaðir stórnotendur, sem myndu auka hlutdeild sína á næstu árum.

Við hjá GAMMA höfum komið töluvert að orkugeiranum hvort heldur er með rannsóknar- og greiningarvinnu t.d. fyrir Landsvirkjun og HS ORKU eða með fjárfestingum í skuldabréfum orkufyrirtækja. Megininntak erindisins var að velta því upp hvort ekki ætti að ræða aukna aðkomu einkaaðila að orkuframleiðslu á Íslandi, annars vegar til að virkja frumkvöðlakraftinn sem felst í einkaframtakinu, en ekki síður vegna áhættusjónarmiða skattgreiðenda.

Á árunum 2008 til 2009 mátti til dæmis ekki miklu muna að illa færi, vegna skuldsetningar og lækkunar hrávöruverðs. Um það leyti fóru skuldahlutföll opinberu orkufyrirtækjanna langt yfir það sem telja mætti sem viðráðanlegt þar sem nettó skuldir voru tuttugu sinnum rekstrarhagnaður. Til þess að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur frá verulegum vanda, jafnvel gjaldþroti, varð m.a. að grípa til þess að hækka raforkuverð um hátt í 50%. Raforkuframleiðsla er því síður en svo áhættulaus rekstur og þetta fjöregg þjóðarinnar getur því verið brothætt. Undirritaður benti jafnframt á að fyrir um 30% hlut í opinberum orkufyrirtækjum fengjust eflaust allt að 250 milljarðar; fjárhæð sem myndi duga langleiðina upp í að greiða upp helming langtímaskulda ríkissjóðs að fimm árum liðnum.

Umræðan í kjölfarið fór á að- eins annan veg en undirritaður bjóst við. Álitsgjafar, hvort heldur almenningur eða úr háskólaumhverfinu, sáu þessu erindi allt til foráttu. Tónlistarmaður í Reykjavík talaði um ræðumann sem siðferðisrotþró, tannlæknir á Húsavík kallaði hann fávita og prófessor í Háskóla Íslands sagði rök ræðumanns bjánaleg. Önnur ummæli um undirritaðan sem féllu í stuttri yfirferð yfir samfélagsmiðla voru m.a. að hann væri siðlaus, siðblindur, á lyfjum, pakk, skepna,hyski, með þjófsaugu, lygari, blöðruselur, bleyjustubbur, tuskuböllur, rétt útrýmdur, djöfuls þjófalýður, náriðill og djöflabarn svo tæpt sé á nokkrum af áhugaverðustu mannlýsingunum. Íbúi á Hellissandi sem ákvað að leggja orð í belg var hins vegar ekkert að halda aftur af sér eins og aðrir og sagði: ,,Bara skjóta nokkra af þessum glæpahundum.”

Sagan segir okkur að hvers kyns hugmyndir um minni aðkomu ríkisvaldsins hafa í gegnum tíðina mætt efasemdum. Á árum áður hafði ríkið til dæmis með höndum einkasölu á raftækjum og bifreið- um, rak skipaútgerð, símafélag og ferðaskrifstofu. Mörgum fannst það varla geta verið á færi annarra. Þegar til stóð að leggja mjólkurbúðirnar niður á áttunda áratugnum og selja mjólkina í staðinn í kjörbúðum skrifaði lesandi Dagblaðsins, Svavar Pálsson, harðorða grein gegn þeim áformum undir yfirskriftinni: „Ekki loka mjólkurbúðum“ sem í dag þykir eilítið kyndug afstaða. Hann var þó málefnalegur á sinn hátt og kurteis.

Það er annað en erindrekar Svavars Péturssonar dagsins í dag, sem fátt hafa fram að færa annað en merkingarlausar upphrópanir og dónaskap. Það merkilega er eflaust að sömu álitsgjafar og mótmæla öllum hugmyndum um að draga úr áhættu skattgreið- enda með aðkomu einkaaðila að orkuframleiðslu eru eflaust sömu aðilar og sáu því allt til foráttu að orkufyrirtækin virkjuðu fallvötn og jarðvarma á sínum tíma.

Höfundur er framkvæmdastjóri GAMMA Capital Management.