Um liðna helgi hófst kosningavertíðin í Ríkisútvarpinu. Að þess hálfu hefur gætt ýmissar nýbreytni, sumt vel heppnað og annað elítið minna vel heppnað, en engir stórskandalar. Svona af hálfu Ríkisútvarpsins.

En það hefur óneitanlega veruleg áhrif á kosningaumfjöllunina hve margir flokkar eru í framboði, sumir að því er virðist fyrst og fremst til þess að nota sér þann prédikunarstól sem Ríkisútvarpið smíðar þeim í þáttum sem þessum. Raunverulegur metnaður til þess að komast á þing er ef til vill minni.

Þetta spillir þáttunum og þeir eru kjósendum ekki jafngagnlegir og ella. Jafnvel nánast til óþurftar þegar hin raunverulegu álitamál kosninganna komast ekki til þeirrar umræðu sem nauðsynleg er vegna sérlundaðra framboða.

Ríkisútvarpinu er þarna vandi á höndum, það þarf að sinna öllum. Það sem áhorfendur vantar er gagnvirkt sjónvarp og Tinderapp, svo menn geti svæpað lúðana burt eftir fyrstu umferð sjónvarpsumræðunnar.

***

Af því að kosningar eru í aðsigi eru menn viðkvæmari fyrir alls kyns pólitískum vinklum nú en endranær. Þannig brugðust ýmsir misjafnlega við tíðindum um að Jón Gnarr hefði verið ráðinn í kosningastarf Samfylkingarinnar. Bæði persónulega og pólitískt, en einnig út frá fjölmiðlavinkli.

Jón hefur að undanförnu annast útvarpsþátt á Rás 2, en eftir að hann gekk í vistina hjá Samfylkingunni þótti Ríkisútvarpinu vissara að taka hann af dagskrá líkt og vinnureglur og hefðir bjóða.

Var það of langt gengið? Hefði Jón ekki örugglega gætt sín á því að hleypa stjórnmálunum ekki að. Það er engin ástæða til þess að efast um að Jón hefði ekki getað gætt sín, en það skiptir máli fyrir Ríkisútvarpið að enginn efist um að þar sé hlutleysis vel gætt, að enginn geti efast um það. Nóg er nú atið vegna kosninganna líka.

***

Fyrir liðna helgi skaut upp kollinum enn ein umfjöllun Stundarinnar um Bjarna Benediktsson. Þar var hituð upp frétt frá því í mars á þessu ári, sem nú var sögð studd gögnum, en þar var vísað í pappíra ættaða úr Glitni heitnum, sem Stundin (og áður DV) hafa gert sér mat úr við ýmis tækifæri önnur. Í fréttinni var m.a. vísað til ummæla Bjarna við blaðamann breska blaðsins The Guardian, en blöðin tvö áttu með sér samstarf um fréttina.

Hér verður ekki drepið á efnisatriði málsins, en það er þrennt í þessu máli sem er athyglisvert frá sjónarhorni blaðamennsku.

Í fyrsta lagi hefur komið fram að blaðamaður The Guardian hafi ekki gert grein fyrir samstarfi sínu við Stundina þegar hann átti viðtalið við Bjarna. Það er ekki nógu gott, vegna þess að blaðamaður á ekki að villa á sér heimildir. Blaðamenn eiga að greina satt og rétt frá öllum hlutum og því mega þeir ekki fara fram með falsi til þess að afla sannleikans nema alveg sérstakar ástæður séu þess knýjandi, en þannig var það nú engan veginn í þessu máli.

Þetta eru slök vinnubrögð, en snerta aðallega blaðamanninn sjálfan. Næst og hann hringir í einhvern og segist vera að spyrja fyrir Guardian á hann á hættu að verða spurður á móti hvort það sé nú víst.

Í öðru lagi tóku þeir Bjarni og breski blaðamaðurinn að þrefa um það hvernig fréttin væri til komin. Forsætisráðherra sagði að blaðamaðurinn hefði sagt sér að hann hefði fengið gögnin fyrir 4-5 vikum og að sér fyndist sú tilviljun grunsamleg að þarna dúkkaði upp enn eitt þunnildismálið úr Glitni kortéri fyrir kosningar.

Blaðamaðurinn fyrtist mjög við þetta. Sagði fráleitt að ætla sér að vilja hafa áhrif á kosningar með þessu móti. Þvert á móti hafi útgáfu fréttarinnar verið flýtt til þess að hún truflaði kosningarnar sem minnst. Það er hér sem sagan byrjar að verða virklega skrýtin.

Breski blaðamaðurinn sagði að vissulega hefði hann haft gögnin lengi undir höndum, allt frá upphafi september. Hann hafi svo haft samband við Stundina um samvinnu við úrvinnslu gagnanna hinn 5. september, en vegna þess hve gríðarmikið gagnamagnið væri, þá hefðu þeir gert ráð fyrir að fréttin yrði í fyrsta lagi tilbúin í upphafi nóvember.

Hins vegar hafi í millitíðinni verið boðað til kosninga og þá hafi þeir ákveðið að flýta vinnslu og útgáfu fréttarinnar. Að tilmælum hinna íslensku blaðamanna Stundarinnar, sem ekki gátu hugsað sér að fréttin hefði óeðlileg áhrif á gang kosningabaráttunnar, hefðu þeir því flýtt henni svo ákaflega.

Jájá, frétt sem átti að koma eftir kosningar er flýtt fram fyrir kosningar svo hún hafi ekki áhrif á þær. Þetta er skrýtin röksemdafærsla.

Í þriðja lagi er svo athyglisvert að Stundin birti fréttina á undan The Guardian. Þegar fjölmiðlar eiga með sér samstarf um fréttir af ýmsum ástæðum eru ýmsar óskráðar reglur í gildi. Ein sú veigamesta er að það er miðillinn, sem „á fréttina“ sem fyrstur birtir hana. Jafnvel þó svo það muni bara 5 mínútum.

Þarna var því öfugt farið, sem vekur spurningar um það hvor miðillinn vakti og leiddi fréttina. Ekki að það skipti verulegu máli, en það er eitthvað bogið eða ósagt um þetta allt.

***

Líkt og sá má hér að neðan í dálkinum tölfræði fjölmiðla fjalla fjölmiðlarnir mismikið um flokkana og vafalaust af ýmsum ástæðum. Þannig fjallar enginn miðill meira um Sjálfstæðisflokkinn en Stundin, en þegar horft er til heildarumfjöllunar hennar um stjórnmálaflokka ber Sjálfstæðisflokkinn á góma í 41% greinanna. Miðgildið hjá öllum miðlunum er 31%. Það er nokkuð mikill munur.

Það er þó ekkert hjá áhuga Stundarinnar á Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, en samkvæmt tölfræði fjölmiðlavaktar Creditinfo fjalla meira en 10% allra frétta miðilsins um Bjarna! Það er einstaklega vel af sér vikið. Jafnvel Andrésar Andar blöðin fjalla minna um Andrés Önd en Stundin um Bjarna.

***

Og fyrst hér er minnst bæði á Andrés og Sjálfstæðisflokkinn, er til fyllstu upplýsingar rétt að greina enn og aftur frá því, að yðar einlægur er félagi í flokknum og tekur aukin heldur þátt í kosningabaráttu hans.