Það er ískyggileg staðreynd að árið 2016 gerðist það í fyrsta sinn að nýgengi örorku á Íslandi var meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði. Með öðrum orðum: það voru fleiri „nýir“ einstaklingar metnir með 75% örorku það ár en komu nýir inn á vinnumarkaðinn; innflytjendur ekki meðtaldir.

Og það sem er kannski enn ískyggilegra er að þessi fjölgun öryrkja er fyrst og fremst meðal ungs fólks. Um 30% allra öryrkja á Íslandi eru innan við fertugt, sem er tvöfalt hærra hlutfall en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Og stærsti einstaki hópurinn sem kemur nýr inn í 75% örorku eru ungir karlmenn – á aldrinum 20 til 30 ára – vegna geðraskana.

Þetta er grafalvarleg þróun. Alvarlegust auðvitað fyrir einstaklingana sem eiga í hlut – en líka áhyggjuefni fyrir atvinnulífið á Íslandi sem er þá ekki lengur sjálfbært að þessu leyti. Það sem sagt fækkar vinnandi höndum á Íslandi – að frátöldum innflytjendum – þótt þjóðinni fjölgi.

En hvað er hægt að gera í þessu? Er líklegt að íslensk ungmenni séu raunverulega svona miklu veilli á geði en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum eða hefur þetta eitthvað með kerfið sjálft að gera?

Alvarlegust og ágengust er þó þessi spurning: Erum við að stimpla kornungt fólk inn í langvarandi, jafnvel ævarandi, örorku þegar önnur ráð eru eðlilegri, nærtækari, árangursríkari og ódýrari? Það má líka spyrja: Er eitthvað eðlilegt við kerfi sem meðhöndlar tvítugan strák með tímabundnar (vonandi!) kvíðaraskanir með sama hætti og t.d. fjölfatlaðan einstakling sem vitað er að mun aldrei geta komið inn á vinnumarkað?

Svarið við síðustu spurningunni er auðvitað nei. Það er ekki til „ein stærð sem passar fyrir alla“.

Ég varaði fyrst við þessari þróun mála í þingræðu í fyrravetur, þegar tölur um þetta höfðu verið kynntar okkur sem sitjum í fjárlaganefnd, og hef nokkrum sinnum gert það síðan – bæði á Alþingi og í fjölmiðlum. Á þessu tímabili hef ég rætt við marga sérfræðinga um þessi mál og þeim ber eiginlega öllum saman um það sem snýr að þessu unga fólki sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni: Það þarf að grípa inn í stöðu þessa fólks fyrr en gert er í dag og með öðrum úrræðum en að stimpla það til örorku (Danir t.d. meta ekki fólk undir fertugu til örorku). Það er líka afar brýnt að koma því unga fólki, sem þegar er komið inn í 75% örorku, sem fyrst út úr henni aftur – þegar þess er nokkur kostur. Fyrst og fremst fyrir fólkið sjálft – en líka fyrir atvinnulífið sem þarf nauðsynlega á þessu fólki að halda.

Og þá erum við loksins komin að meginefni þessarar greinar: Hvernig getur þetta unga fólk komist aftur til fullrar virkni í samfélaginu – til lífsbóta og hagsbóta fyrir það sjálft og þjóðfélagið í heild?

Og hér kemur atvinnulífið inn í myndina.

Allir sérfræðingarnir sem ég hef rætt við um þessi mál eru sammála um að hluti af lausninni hljóti alltaf að felast í því að aðstoða þetta unga fólk við að finna einhvern tilgang í lífinu. Að það hafi eitthvað að segja að mæta einhversstaðar ; í vinnu eða skóla. Að leggja eitthvað af mörkum sem skiptir máli fyrir það sjálft og heildina. Að það sé ekki stimplað úr leik.

Atvinnulífið þarf að koma til samstarfs við velferðarkerfið um að bjóða því unga fólki, sem af einhverjum ástæðum hefur farið út af sporinu, aðrein inn á brautina aftur. Hjálpa til við að finna hlutastörf sem hentað gætu þessu fólki til að fikra sig inn í atvinnulífið aftur.

Kerfið sjálft má svo ekki vera letjandi að þessu leyti. Það verður líka að vera beinn fjárhagslegur ávinningur af því fyrir fólk að ganga til starfa, eftir getu og hæfni hvers og eins, fremur en að láta það ógert.

Á þessu græða allir: einstaklingarnir, atvinnufyrirtækin og samfélagið í heild.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.