Árið 2017 var helmingur launafólks með 500 til 800 þúsund króna heildarlaun, 10% launþega með minna en 400 þúsund krónur og 12% yfir milljón krónur á mánuði samkvæmt Hagstofunni.

Áhugavert er að máta ofangreinda launadreifingu við kröfur VR og stéttarfélaganna í SGS. Ein krafa er sú að hækka lægsta kauptaxta kjarasamninga um 60% á þremur árum, úr 267.000 í 425.000 krónur og að samið verði um krónutöluhækkanir sem almennar launahækkanir. Kauptaxtahækkanirnar munu ná til ríflega helmings félagsmanna SGS en aðeins til 15% félagsmanna VR, samkvæmt launakönnun Hagstofunnar.

Á Íslandi er tekjujöfnuður sá mesti í heimi samkvæmt OECD. Við slíkar aðstæður nær sérstök hækkun lægstu kauptaxta aldrei tilætluðu markmiði nema um þá stefnu ríki full samstaða hjá öðrum launþegahópum, ekki aðeins innan VR og SGS heldur hinna 150 stéttarfélaganna sem verða með lausa samninga. Slíkar tilraunir hafa misheppnast, nú síðast á tímabilinu 2008-2015. Vegna þessa eru allar líkur á því að launafólk almennt muni knýja á um sömu prósentuhækkanir og lægstu launin fá.

Önnur krafa fyrrnefndra stéttarfélaga er skattleysi lægstu launa. Sú aðgerð kostar ríkissjóð 150 milljarða króna á ári hið minnsta, sem þyrfti að sækja í formi skattahækkana á annað launafólk. Hátekjuskattur hefur verið nefndur í þessu samhengi og sem dæmi mun 60% hátekjuskattur á mánaðarlaun yfir milljón krónur, sem í sósíalískri draumaveröld gæti þótt góð hugmynd, skila 9,5 milljörðum króna aukalega í skatttekjur.

Það blasir við að ef kröfur um skattleysismörk ná fram að ganga mun skattbyrði hækka á millitekjuhópinn, sem telur um helming launafólks. Í VR eru 60-70% félagsmanna með heildarlaun yfir 500 þúsund krónur. Full ástæða er til að efast um að þeir samþykki krónutöluhækkanir á sín laun og taki á sig tuga prósenta skattahækkanir á sama tíma.