Um daginn sendi lögreglan frá sér mynd af manni vegna rannsóknar á atviki í sturtuklefa Breiðholtslaugar á mánudag, þar sem karlmaður er grunaður um að hafa brotið gegn sjö ára dreng. Myndin var birt í sumum fjölmiðlum, en eins var henni töluvert dreift á félagsmiðlum, þar sem margir drógu ekki af sér í ályktunum og fordæmingum. Síðar kom svo á daginn að á myndinni var 15 ára drengur, svo Barnaverndarstofa hafði í framhaldinu samband við lögreglu til þess að ræða vinnubrögðin.

Þarna er mönnum ljóslega nokkur vandi á höndum. Lögreglan getur tæplega aldursgreint fólk með nákvæmum hætti af myndum eftirlitsmyndavéla, hvort sem um er að ræða ætlaða brotamenn, vitni eða þolendur. Fjölmiðlar geta það ekki frekar og þegar lögregla óskar aðstoðar þeirra við að hafa upp á fólki eru þeir varla í stöðu til þess að neita, jafnvel þó svo þeim þyki viðkomandi vera á einhverjum aldursmörkum.

Fjölmiðlar mega vel sýna nærgætni, en þeir eiga fyrst og fremst að segja fréttir. Geti þeir aðstoðað við að upplýsa afbrot með þessum hætti er það rétt og þeim mun frekar, sem brotin eru alvarlegri. En blaðamenn þurfa sjálfsagt að ræða vinnulagið, ekki síður en lögreglan.

***

Á slíkum málum er svo auðvitað annar varúðarvinkill. Í liðinni viku stjakaði skokkari á Putneybrú í Lundúnum við öðrum vegfaranda, þannig að hann féll við og hefði orðið fyrir strætisvagni hefði vagnstjórinn ekki sýnt snör viðbrögð. Þá hefði vart þurft um að binda.

Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél og myndskeiðinu var dreift í fjölmiðlum og félagsmiðlum. Fljótlega var upplýst að maðurinn væri bandarískur fjárfestingarbankamaður í Mayfair og mynd birt af ódáminum.

Vandinn er sá að tveimur dögum síðar þurfti lögregla að játa að hún hefði haft manninn fyrir rangri sök. Ætli það sé nokkur hætta á að hann nái að fullhreinsa sig eða geti verið öruggur fyrir áreiti refsiglaðra samborgara?

***

Hér sem víðar hafa verið gleðilegir og hinsegin dagar, merkileg og mikil mannréttindahátíð. Fréttablaðið brá ekki af vana sínum og minnti lesendur sína á það líkt og öll ár með því að birta forsíðumynd af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Fyrr eða síðar verður einhver að gera blaðinu viðvart um að þetta séu Hinsegin dagar, ekki Hinsegin Dagur.

***

Sumir fjölmiðlar sögðu af því fréttir að þessir og hinir ráðherrar hefðu af einstakri gjafmildi sinni og góðmennsku styrkt Hinsegin daga með opinberu fé og sumir tóku jafnvel fram hvaða ráðherrar hefðu ekki gert það, svona eins og í því fælust einhver sérstök skilaboð eða lesendur ættu að draga af því ályktanir um innræti þeirra og afstöðu til hinsegin fólks.

Enginn fjölmiðill velti því hins vegar upp hvort það væri eðlilegt að einstaka ráðherrar sáldruðu svona um sig í stað þess að það væri einfaldlega gert á fjárlögum, líkt og fordæmi eru um vegna annarra almenningshátíða.

***

Það er í góðu lagi að fjölmiðlar birti lifandi og litríkar fréttir, jafnvel gamansamar. Hlutverk þeirra er að greina almenningi frá hinu athyglisverðasta í veröldinni nær og fjær, ekki að keppa við lögregluna í skýrslugerð. Þetta mættu flestir fjölmiðlar rækta betur, yfirleitt mega fréttir þeirra vel við að vera ögn fjörlegri.

Stundum er þó erfitt að átta sig á því hvort fréttir séu fyndnar eða bara hlægilegar. Í slebbafréttum Morgunblaðsins var á dögunum fjallað um Brandi Glanville, sem af lestrinum mátti skilja að væri heimsfrægt nóboddí úr óraunveruleikasjónvarpsþáttunum Big Brother. Lesendum til glöggvunar sagði um þættina:

Þættirnir Big Brother eru byggðir á skáldsögu George Orwell.

Fjölmiðlarýnir man ekki eftir fyndnari frétt í Morgunblaðinu undanfarin 103 ár.

***

Látinn er á sextugsaldri, Sverrir Vilhelmsson blaðaljósmyndari, sem hóf störf á Tímanum en starfaði lengst af hjá Morgunblaðinu. Sverrir var fjölhæfur ljósmyndari, sem ekki gleymdi mannlega þættinum í ljósmyndum sínum, þó nálgun hans væri fyrst og síðast fréttaleg. Þess gætti ekki síst í eftirminnilegum ljósmyndum hans frá hamfara- og átakasvæðum, bæði heima og erlendis. Fyrir fékk hann enda verðskuldaðar viðurkenningar og verðlaun. Blessuð sé minning hans.