sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

apríl, 2008

 

Breytingum og endurbótum á frystitogaranum Örfirisey RE er nú að ljúka en skipið, sem verið hefur í dráttarbraut Stálsmiðjunnar í Reykjavík sl. hálfan annan mánuð, er nú komið á flot að nýju.


 

Í lok síðustu viku fékk Skinney Þinganes afhent nýtt uppsjávarskip sitt í Skotlandi.


 

Kolmunnaveiðar íslenskra skipa ganga mjög vel. Aflinn á árinu er kominn í um 110 þúsund tonn en heildarkvóti okkar er 232 þúsund tonn.


 

Mælingum á þorski við Noregsstrendur á vegum norsku hafrannsóknastofnunarinnar er lokið.


 

Í eftirlitsflugi í gærkvöldi stóð þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, norska línuveiðiskipið Gayser Senior að meintum ólöglegum veiðum inni á lokuðu svæði í Skaftárdjúpi undan Suðausturlandi.  


 

Greenpeace samtökin í Bandaríkjunum hafa sett saman lista með 22 fisktegundum og farið fram á að smásölukeðjur þar í landi hætti sölu þessara tegunda. Heildarinnkaup þessara smásöluaðila á fiski myndu dragast saman um tæpan helming ef farið yrði eftir þessum lista að mati forsvarsmanna National Fisheries Institute, sem eru stærstu hagsmunasamtök fyrirtækja í sjávarútvegi Bandaríkjunum. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ,segir á heimasíðu LÍÚ að þetta sé dæmigert fyrir vinnubrögð Greenpeace. Samtökin hafa verið að herja á smásölukeðjur í Evrópu og nú eigi að leika sama leik í Bandaríkjunum.      


 

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að sækja um byggðakvóta fyrir Ísafjarðarbæ. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur gefið sveitarfélögum kost á að sækja um byggðakvóta á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum, að því er fram kemur á bb.is.


 

Í dag kl. 10 mun rannsókna- og þróunarsvið Siglingastofnunar Íslands gangsetja í rannsóknarskyni skipavél sem knúin er jurtaolíu (bíódísel).


 

Fjárhagsvandi flestra hafna á Íslandi er mikill og vaxandi. Þetta kom fram á málstofu samgönguráðs um stefnumótun í samgöngum sem haldin var fyrir helgi. Viðfangsefni fundarins voru samgöngur og byggðaþróun. 


 

Það fer að síga á seinni hlutann í netaralli Hafrannsóknastofnunar en gert er ráð fyrir að því ljúki öðru hvoru megin við næstu helgi, að því er Valur Bogason verkefnastjóri sagði í samtali við nýjustu Fiskifréttir. Reiknað er mið minni afla í rallinu í ár en í fyrra en þá veiddist mjög vel.


 

Þriðjudaginn 22. apríl verður haldin ráðstefna um niðurstöður rannsókna á vistkerfi Íslandshafs undanfarin tvö ár. Ráðstefnan hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 15:00 og fer fram í fundasal Hafrannsóknastofnunarinnar á 1. hæð.


 

Utankvótategundir skiluðu 1,1 milljarði króna í aflaverðmæti á síðasta ári. Heildaraflaverðmæti íslenskra skipa voru rétt rúmir 80 milljarðar á árinu.


 

Heildarsamtök í sjávarútvegi í Noregi (Norges Fiskerlag) hafa skorað á norska seðlabankann að hækka ekki stýrivexti á fundi stjórnar bankans sem haldinn verður í næstu viku. Óttast samtökin hrinu gjaldþrota styrkist krónan meir í kjölfar vaxtahækkana.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 4,7 milljörðum króna í janúar 2008 samanborið við 5,8 milljarða í janúar 2007. Aflaverðmæti hefur dregist saman um 1,1 milljarð eða 18,3% milli ára.


 

Á fyrstu sjö mánuðum fiskveiðiársins hafði þorskafli krókaaflamarksbáta ekki náð helming af leyfilegri veiðiheimild. Þrátt fyrir það er það aðeins hærra hlutfall en á sama tíma í fyrra. Þorskaflinn var kominn I2.763 tonn 1. apríl sl. sem er 21% minna en í fyrra og jafngildir 3.395 tonnum, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda.  


 

Gefin hefur verið út reglugerð um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2008. Á árinu 2008 er íslenskum skipum heimilt að veiða alls 220.262 tonn af síld.  


 

Í lauslegri samantekt um síðustu helgi er ljóst að búið er að salta grásleppuhrogn í rúmar 2000 tunnur. Þegar litið er til þrálátrar norðanáttar sem verið nánast frá upphafi vertíðar með tilheyrandi brælum er veiðin víðast hvar viðunandi, segir á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Rúmur helmingur þessara 2000 tunna eru á N-Austurhorninu, Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði og Vopnafirði. Á Húsavík hefur veiði verið góð, en á Siglufirði hefur vertíðin gengið afleitlega. Bæði er þar veðri um að kenna og einnig að minna er af grásleppu á slóðinni en í meðalári, segir á vef LS.


 

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði er orðið langstærsti eignaraðilinn í Fiskmarkaði Íslands hf. GR er komið með ráðandi hlut í fyrirtækinu eftir kaup á 40% eignarhlut Rjúkanda ehf, sem er félag í eigu nokkurra einstaklinga. Fyrir átti Guðmundur Runólfsson 3,5% í FÍ, en fiskmarkaðurinn er nú að langstærstum hluta í eigu aðila á Snæfellsnesi. Næststærsti hluturinn í félaginu er innan við 8%, að því er fram kemur á skessuhorn.is.


 

,,Niðurstöður togararallsins hvað þorskinn varðar komu ekki á óvart. Aldursgreindar vísitölur benda til þess að stærð veiðistofnsins, það er að segja þyngd fjögurra ára fisks og eldri, sé í góðu samræmi við mat okkar á ástandi stofnsins fyrir einu ári. Þegar endanlegt stofnmat verður gert núna í vor verður auk togararallsins tekið tillit til veiðigagna, en niðurstöðurnar úr togararallinu gefa jafnan sterka vísbendingu um stofnmatið,”  sagði Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar.


 

Verulega hefur dregið úr flutningi aflamarks milli skipa í eigu óskyldra aðila á yfirstandandi fiskveiðiári í kjölfar þriðjungs skerðingar þorskkvótans. Nemur samdrátturinn 41% fyrstu sjö mánuði fiskveiðiársins miðað við sama tímabil árið áður.


 

Út er komið hjá Sjómælingum Íslands, Sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands, nýtt sjókort yfir hafið umhverfis Ísland. Kortið, sem er í mælikvarðanum 1:1 000 000, heitir Ísland og er númer 21.


 

Von er á 1.500 sjóstangaveiðimönnum til Suðureyrar og Flateyrar í sumar og koma fyrstu hóparnir strax um næstu mánaðarmót. Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hvíldarkletts á Suðureyri, segir í samtali við bb.is að sala ferðanna hafi gengið vel og upppantað sé fyrstu þrjá mánuði tímabilsins en ekki sé uppselt í ágúst.


 

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2007 nam 93 milljónum króna eftir skatta, en árið 2006 var tap á félaginu kr. 39 milljónir. Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.695 millj.og hækkuðu um 7% frá fyrra ári.


 

Forráðamenn Vinnslustöðvarinnar hafa ákveðið að fresta uppbyggingu á nýju og fullkomnu uppsjávarfrystihúsi um eitt ár. Fyrirhugað var að rífa nyrsta hluta núverandi húsnæðis og byggja þar upp nýja vinnslulínu fyrir uppsjávarfisk, síld og loðnu.


 

Aflamark íslenskra skipa í úthafskarfa á árinu 2008 hefur verið ákveðið, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.


 

Um 850 þúsund tonn mældust af íslensku sumargotssíldinni í vetur, þar af 700 þúsund tonn í Kiðeyjarsundi í Breiðafirði og 70 þúsund tonn í Grundarfirði. Einnig mældist síld í Kolluálnum og í minna mæli á svæðum fyrir austan land, að því er Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, sagði í samtali við nýjustu Fiskifréttir.   Þorsteinn sagði að mælingin sýndi að síldarstofninn væri í góðu ástandi og að svipaðri stærð og kom fram í mælingum árið á undan.


 

Nýtt skip fyrir Ingimund hf. í Reykjavík var sjósett í Ching Fu skipasmíðastöðinni á Tævan í gær. Það mun fá nafnið Helga RE og koma í stað skips með sama nafni sem útgerðin seldi til Skinneyjar-Þinganess árið 2005 og heitir nú Steinunn SF.


 

Humarvertíðin er hafin og lofar byrjunin mjög góðu. Fyrstu bátarnir héldu út strax eftir páska og hefur aflinn verið afbragðsgóður suðaustanlands, nánar tiltekið í Hornafjarðardýpi. Enn sem komið er hafa aðeins fjórir bátar hafið veiðar, allir frá Þorlákshöfn. Að sögn skipstjórans á Fróða ÁR hefur aflinn eftir fjögurra klukkustunda hal farið upp í 500 kíló miðað við slitinn humar sem þykir afar gott.


 

Sjávarútvegsráðuneytið hefur heimilað sex bátum netaveiðar í rannsóknaskyni undir umsjón Hafrannsóknastofnunarinnar á tímabilinu 2. apríl - 30. apríl.


 

Á fundi í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna sem haldinn var í dag var ákveðið að hækka verð á slægðri og óslægðri ýsu um 10%.


 

Hrefnuveiðar í atvinnuskyni verða stundaðar hérlendis í sumar og telja hrefnuveiðimenn sig hafa vilyrði ráðherra fyrir því að fá að veiða þann fjölda dýra sem þörf sé á til að fullnægja innanlandsmarkaði.


 

Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Færeyja gengu í gær frá fiskveiðisamningi ríkjanna fyrir árið 2008. Samkvæmt honum fá færeysk skip heimild til að veiða 30 þúsund lestir af loðnu við Ísland á loðnuvertíðinni 2008/2009 svo fremi að útgefinn kvóti verði a.m.k. 500 þúsund lestir. Sé gefinn út minni kvóti fá Færeyingar 5% í sinn hlut.
SKIPASKRÁ /