föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

nóvember, 2009

 

Evrópusambandið, Færeyjar og Noregur hafa nú boðið Íslandi til viðræðna um heildarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi í mars 2010 og hefur Jón Bjarnason sjávarútvegráðherra þekkst boðið. Aðilar eru sammála um nauðsyn þess að strandríkin fjögur, sem öll eiga hagsmuna að gæta, komi á sameiginlegri stjórnun veiða úr þessum mikilvæga stofni til að tryggja sjálfbæra nýtingu.


 

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt tillögur fyrir árlegt viðmiðunarverð fyrir ferskar og frystar sjávarafurðir á árinu 2010, að því er fram kemur á vefnum Fisker Forum.


 

Fiskeldisfyrirtækin í Noregi ætla sameiginlega að verja á næsta ári einum milljarði norskra króna eða jafnvirði 22 milljarða íslenskra í aðgerðir til þess að draga úr laxalús í eldi.


 

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 3,9% í október síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi IFS greiningar og miðast við tölur um framleiðsluverð í september sem Hagstofan birti sl. föstudag.


 

Faxi RE og Ingunn AK komu til hafnar á Akranesi í lok síðustu viku með samtals um 1.200 tonn af gulldeplu til bræðslu. Faxi var inni á föstudag með rúmlega 700 tonna afla og Ingunn kom degi síðar með tæplega 500 tonn, að því er fram kemur á vef HB Granda.


 

Eftirspurn eftir vörum sem innihalda omega-3 fitusýrur heldur áfram að aukast hröðum skrefum enda líður varla sá dagur að ekki birtist nýjar skýrslur um varnaráhrif þeirra gegn margvíslegum sjúkdómum.


 
Fiskifréttir
29. nóvember 2009

800 gramma risasíld

Það þykir gott að veiða síld sem er að meðaltali um 400 grömm að þyngd en norski síldarbáturinn Saksaberg veiddi um 800 gramma risasíld á dögunum. Meðalvigtin í einu kasti var að sögn eftirlitsmanns 546 grömm!


 

Skotar hófu í ágúst síðastliðnum tilraun með eftirlitsmyndavélakerfi um borð í sjö fiskskipum til þess að kanna hvort raunhæft væri að nota slíkan búnað til þess að hamla gegn brottkasti á fiski. Áður höfðu Danir gert sams konar tilraun um borð í nokkrum dönskum skipum. Þessar tilraunir hafa þótt takast vel.


 

Lokið er árlegum fundi samstarfshóps um þorskrannsóknir sem fór fram dagana 19.-20. nóvember. Þar komu saman um 15 skipstjórnarmenn og útgerðaraðilar sem búa yfir sérþekkingu á sviði þorskveiða mismunandi útgerðaflokka allt í kringum landið ásamt sérfræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.


 

„Hækka þarf sjómannaafsláttinn umtalsvert eða breyta honum þannig að hann verði sambærilegur við skattfrjálsar dagpeningagreiðslur til ríkisstarfsmanna og annarra launþega," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, um þær hugmyndir stjórnvalda að fella afsláttinn niður á fjórum árum.


 

Humarvertíð er nú að ljúka en hún  hefur staðið óvenjulengi að þessu sinni. Síðustu vikur og mánuði hafa humarbátarnir verið mikið vestan við landið, á Eldeyjarsvæðinu og í Jökuldýpinu, og hefur veiðin verið hin prýðilegasta allt fram í vertíðarlok.


 

Fundi strandríkja um stjórn makrílveiða á árinu 2010 var slitið í Edinborg í morgun án þess að niðurstaða næðist. Greint er frá þessu í vefútgáfu norska dagblaðsins VG. Blaðið vitnar til fréttar frá fréttastofunni NTB sem hefur það eftir fulltrúum norska sjávarútvegsráðuneytisins að andrúmsloftið á fundinum hafi verið erfitt og markast af deilum Norðmanna og Evrópusambandsins um veiðirétt þeirra fyrrnefndu innan lögsögu ESB.


 

Vegna ákvörunar ríkisstjórnarinnar um afnám sjómannaafsláttar samþykkti þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) í morgun að afþakka boð sjávarútvegsráðherra sem til stóð að hann héldu þingfulltrúum síðar í dag.


 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um tekjuöflun ríkisins þar sem m.a. er lagt er til að sjómannaafslátturinn verði látinn fjara út á fjórum árum frá og með tekjuárinu 2011.


 

Undirritað hefur verið samkomulag milli Íslands og ESB um framkvæmd sem stuðla á að því að koma í veg fyrir innflutning sjávarafurða sem eiga uppruna sinn í ólöglegum veiðum. Samkvæmt reglugerðinni þarf m.a. frá 1. janúar 2010 að fylgja veiðivottorð með öllum íslenskum sjávarafurðum sem fluttar eru inn á markaðssvæði Evrópusambandsins.


 

Von er á Faxa RE með fyrsta gulldeplufarm á þessum vetri til Akraness í nótt. Faxi var alls kominn með um 500 tonna afla í morgun eftir þrjá sólarhringa á veiðum þannig að von er til þess að heildaraflamagnið verði nokkru meira eftir veiðar dagsins. Um 70 sjómílna sigling er frá miðunum til Akraness.


 

Heildarveiði á rækju í Norður-Atlantshafi er að dragast saman. Í kjölfarið hefur verð á iðnaðarrækju styrkst og birgðir eru að hverfa. Verð á iðnaðarrækju hefur hækkað um 10% í erlendri mynt á einu ári.


 

Þótt vísindamenn hafi úrskurðað stóran hluta íslenska síldarstofnsins sýktan þarf ekki að tína nema óverulegan hluta af  flökum frá í vinnslunni vegna skemmda.


 

Leiðrétting


 

Hálfgert stríðsástand hefur ríkt að undanförnu í Finnmörku í Norður-Noregi milli sjómanna þaðan og sjómanna frá Mæri sunnar í landinu. Ástæðan er sú að hinir síðarnefndu hafa komið norður eftir á bátum sínum og lagt kóngakrabbagildrur ólöglega úti fyrir strönd Finnmerkur.


 

Lundey NS kom í gærkvöldi til Akraness með um 1.350 til 1.400 tonn af síld sem fengust í Breiðafirði í gær og fyrradag. Þar með hafa skip HB Granda lokið við að veiða þann 4.500 tonna síldarkvóta sem kom í hlut félagsins við ákvörðun sjávarútvegsráðherra á 40 þúsund tonna aflamarki á veiðum á íslensku sumargotssíldinni fyrr í þessum mánuði.


 

Tvö skip HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, eru nú að gulldepluveiðum vestast í Grindavíkurdýpi. Faxi var kominn á miðin sl. sunnudag og Ingunn kom á svæðið í morgun.


 

Íslensk skip hafa landað samanlagt tæpum 250 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld á árinu 2009. Enn eru nokkur skip að veiðum í norsku lögsögunni en eftirstöðvar af kvóta þar eru rúm 17 þúsund tonn.


 

Stjórnvöld í Ástralíu og Nýja-Sjálandi áforma að banna notkun gríðarlangra rekneta sem lögð eru í Suður-Kyrrahafið og verða oft að stjórnlausum drauganetum. Nýlega fannst eitt slíkt net sem var yfir 100 kílómetra langt og fullt af tannfiski.


 

Um 162 milljónir villtra laxa hafa verið veidd í atvinnuskyni við Alaska í ár. Þetta er ellefta stærsta veiðiárið í sögunni.


 

Skyndibitakeðjan McDonald’s hefur notað ýsu í ríkum mæli í stað alaska-ufsa í fiskborgara sína í Evrópu á þessu ári vegna samdráttar í ufsaveiðum í Kyrrahafi á sama tíma og ýsukvóti í N-Atlantshafi hefur verið aukinn.


 

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. fagnaði því sl. fimmtudag að tuttugu ár eru um þessar mundir liðin frá því frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til landsins. Á þessum tuttugu árum lætur nærri að aflaverðmæti skipsins nemi 24 milljörðum króna á núvirði.


 

Ódýri, innflutti, víetnamski eldisfiskurinn pangasíus, sem farinn er að ógna hefðbundnum neyslufiski í mörkuðum í Evrópu, fær slæma útreið í rannsókn sem gerð var í Danmörku á innihaldi og gæðum hans samanborið við þorsk og rauðsprettu.


 

,,Aðstæðurnar eru vægast sagt skelfilegar. Hér er stöðug bræla, vindur stendur á land og síldin er alveg uppi í landssteinum. Við erum í Kiðeyjarsundi um hálfa skipslengd frá eyjunni og þrátt fyrir þokkalegar lóðningar af og til þá er ákaflega erfitt að athafna sig.“


 

Pacific Andes International, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem hefur afar sterka stöðu í viðskiptum með fisk í Kína, er að taka í notkun nýjan risafrystitogara, Lafayette, sem mun auka arðsemi veiða og vinnslu verulega.


 

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur tekið á móti 8.000 tonnum af íslenskri síld fram að þessu. Síldin er fryst og það sem flokkast frá fer til bræðslu auk afskurðar.


 

Þótt sjávarútvegsráðherra áformi útvíkkun línuívilnunar er ekki gert ráð fyrir að auka þorskheimildirnar í pottinum. Hins vegar hefur nú þegar verið bætt við ýsuna.


 

Umframveiði á þorski í Barentshafi seinkaði uppbyggingu þorskstofnsins þar en stuðlaði síður en svo að uppvexti hans eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, segir sviðsstjóri veiðiráðgjafar á Hafrannsóknastofnun í viðtali við Fiskifréttir.


 

,,Mér líst afar illa á það, ef skötuselskvótinn verður aukinn úr 2.500 tonnum og upp í allt að 4.500 tonn. Slík aflaaukning mun ofbjóða stofninum. Við höfum reynslu nágrannaþjóðanna sem víti til varnaðar,” segir Einar Jónsson fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir í dag.


 

Stærsta laxeldisfyrirtæki í eigu Chilebú, AquaChile, ætlar að bjarga sér frá hruni í laxeldi með því að leggja meiri áherslu á eldi á tilapia, að því er fram kemur á vef IntraFish.


 

Sá mikilvægi árangur náðist á ársfundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í síðustu viku að samþykkt var bann við brottkasti helstu fisktegunda á alþjóðlega hafsvæðinu í Norður-Atlantshafi sem heyrir samningssvæði NEAFC.


 

Ungum sjómönnum hefur fækkað um 75% í Noregi á síðustu tveim áratugum, að því er fram kemur í frétt í norska ríkissjónvarpinu.


 

Að undanförnu hefur Landssambands smábátaeigenda fundað með lánastofnunum um skuldamál umbjóðenda sinna. Þegar hefur verið rætt við Kaupþing, Landsbankann og Íslandsbanka og fyrirhugaður er fundur með Sparisjóðabankanum. 


 

Rækjuveiðar við Vestur-Grænland munu minnka úr 135.000 tonnum á þessu ári í 110.000 tonn á því næsta ef farið verður að ráðum fiskifræðinga.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 75 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins 2009, samanborið við rúma 63 milljarða yfir sama tímabil 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um 12 milljarða eða 19% á milli ára. Aflaverðmæti í ágústmánuði nam 10 milljörðum króna miðað við 9 milljarða í ágúst 2008.


 

„Þetta er dæmigert fyrir óábyrga afstöðu  ESB í sjávarútvegsmálum," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ en Evrópusambandið sat hjá sl. föstudag við samþykkt samkomulags NEAFC - Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar - um bætt eftirlit með veiðum og löndun á  úthafskarfa sem veiddur er á Reykjaneshrygg.


 

Marine Harvest, stærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum, gerir ráð fyrir samdrætti í viðskiptum með eldislax á næsta ári samfara aukinni eftirspurn, að því er fram kemur á vef IntraFish.


 

Faxi RE er nú á síldveiðum í Breiðafirði og að sögn skipstjórans, Alberts Sveinssonar, er síldin erfið viðureignar. Skipið fór til veiða sl. fimmtudagskvöld og í gær var Faxi kominn með um 950 tonna afla. Stefnt er að því að ná fullfermi eða rúmlega 1500 tonnum en Albert segir að það ætli að reynast erfiðara en hann átti von á.


 

Atlantshafstúnfiskráðið hefur ákveðið að skerða heildarkvóta bláuggatúnfisks um 30% á næsta ári, úr 19.950 tonnum í 13.500 tonn. Þessi túnfiskstofn hrygnir í Miðjarðarhafi og er veiddur þar og í Norður-Atlantshafi allt vestur til Mexíkóflóa.


 

Það færist sífellt í vöxt að neytendur séu blekktir í fiskkaupum með þeim hætti að ódýr fisktegund sé sögð vera dýrari tegund. Þetta á einkum við um ódýran eldisfisk eins og tilapia og pangasius sem seldur er sem þorskur, ýsa eða annar hvítfiskur af dýrari gerðinni. 


 

Systurskipin Bergey VE og Vestmannaey VE hófu veiðar á gulllaxi með partrolli í síðustu viku að færeyskri fyrirmynd. Veiðarnar hafa gengið þokkalega að því er Magnús Kristinsson, útgerðarmaður skipanna, segir í samtali við nýjustu Fiskifréttir.


 

Árleg stofnmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á hörpudiski í Breiðafirði var gerð á Dröfn RE dagana 18.-23. október sl. Meginniðurstaða leiðangursins var sú að heildarvísitala hörpudisks mældist áfram í lágmarki eins og undanfarin ár eða aðeins um 14% af meðaltali áranna 1993-2000.


 

Rússar ætla að verja 12 milljörðum evra eða jafnvirði 2.232 milljörðum íslenskra króna til smíða á 500 stórum fiskiskipum á næstu 12 árum ásamt því að endurbæta eldri skip og skipasmíðastöðvar.


 

Heildarafli landsmanna í október síðastliðnum var 67.000 tonn samanborið við 94.000 tonn í sama mánuði árið áður. Munar þar mestu um helmings samdrátt í uppsjávarafla vegna síldarsýkingarinnar. Þorskafli jókst í mánuðinum en ýsuafli minnkaði.


 

Heimsmarkaðsverð á fiskimjöli hefur hækkað jafnt og þétt frá því í vor og er nú komið í sögulegar hæðir. Á fréttavef Bloomberg kemur fram að verðið hafi aldrei verið hærra á þessari öld að minnsta kosti og það hefur rúmlega fimmfaldast frá því sem það var lægst sumarið 2000.


 

,,Frá árinu 2000 til ársins 2007 nam framlegðartap Ramma af rækjuiðnaði hundruðum milljóna króna,” sagði Ólafur H. Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma hf. í erindi um þróun úthafsrækjuveiðanna á aðalfundi LÍÚ.


 

,,Það má fullyrða að farsælt samstarf sjávarútvegsráðuneytisins, Hafrannsóknarstofnunar og uppsjávarútgerðanna hafi leitt til þess að þó þetta aflamark í síld var gefið út. 15 þúsund tonna rannsóknarkvótinn, sem ráðuneytið gaf út, gerði útgerðarfyrirtækjunum og Hafrannsóknarstofnun kleift að fara í útbreiðslukönnun og síðan í stofnmælingu sem staðfesti að stofninn var mun stærri en síðustu tvær mælingar bentu til.”


 

Meðalverðið á íslensku fiskmörkuðunum frá janúar til október var 200,39 krónur á kílóið. Þetta er í fyrsta skipti sem verðið fer yfir 200 krónur á þessu tímabili.  Meðalverð á sama tíma árið 2008 var 175,62 kr/kg. Þetta er 14% hækkun milli ára.


 

Ríkisstjórn Spánar hefur gripið til sinna ráða til þess að verja túnfiskveiðiskip sín fyrir árásum sómalskra sjóræningja á Indlandshafi. Spænsk lög leyfa ekki að hermenn séu settir um borð í fiskiskipin og því hafa verið ráðnir vopnaðir öryggisverðir frá einkafyrirtækjum til starfans.


 

Markaður með heilsuvörur sem innihalda omega 3 fitusýrur úr fiski hefur vaxið hratt og nú hyggja framleiðendur á nýja landvinninga, að því er fram kemur á IntraFish.


 

  Sjávarútvegsráðherra Skota, Richard Lochhead, sagði á ráðstefnu í síðustu viku að kominn væri tími til þess að hefja uppbyggingarstarf eftir þá eyðileggingu sem hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefði valdið skoskum sjávarútvegi. „Við verðum að fá valdið yfir miðunum okkar heim á ný," sagði hann.


 

Xavier Govare, framkvæmdastjóri Alfesca, er sá stjórnandi sjávarútvegsfyrirtækja í heiminum sem fékk hæstu laun greidd á árinu 2008. Hann vann sér inn 1,2 milljónir dollara á árinu, sem samsvarar um 150 milljónum íslenskra króna.


 

Víetnamski eldisfiskurinn pangasíus virðist í síauknum mæli ryðja sér til rúms í Evrópulöndum á kostnað dýrari hvítfisktegunda úr Norður-Atlantshafi. Frá Danmörku berast þær fréttir að fiskimenn í Hirtshals óttist að rauðsprettan muni verða undir í verðsamkeppninni við þennan ódýra fisk frá Asíu


 

Aflaráðgjafarnefnd sjómanna er nú í fæðingu, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda. Á aðalfundi LS í október var samþykkt að beita sér fyrir stofnun aflaráðgjafarnefndar sjómanna. Hlutverk nefndarinnar yrði að gefa árlega, samhliða Hafrannsóknastofnuninni, rökstudda ráðgjöf um heildarafla sem byggð væri á reynsluheimi sjómanna.  Upphafleg tillaga kom frá Eldingu - félagi smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum.


 

Norsk stjórnvöld hafa snúið sér formlega til Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem þau telja að bann Evrópusambandsins við viðskiptum með selaafurðir brjóti í bága við grundvallarreglur WTO, að því er fram kemur í World Fishing.


 

Yfirvöld í ESB-ríkjunum og talsmenn fisksölufyrirtækja óttast að nýjar reglur þess efnis að veiðivottorð skuli fylgja öllum innfluttum sjávarafurðum til Evrópusambandsins muni valda ringulreið í þessum innflutningi. 


 

Meðalverð á íslensku fiskmörkuðunum í október var 277,99 krónur kílóið sem er hið hæsta í einum mánuði frá upphafi starfsemi markaðanna, að því er fram kemur í frétt frá Reiknistofu fiskmarkaða.


 

Allt stefnir í að fljótlega verði stofnaður smásölufiskmarkaður í Reykjavík. Fram er komin samantekt um möguleika fiskmarkaðar fyrir almenning, þar sem gestir og gangandi geta kynnst óþrjótandi möguleikum íslensks sjávarfangs og komist í tæri við afurðirnar og keypt sér spennandi hráefni til matargerðar. 


 

Fulltrúar Landsbankans, sem var einn þeirra aðila sem lagt höfðu fram kröfu um að útgerðarfélagið Festi í Hafnarfirði yrði gert gjaldþrotaskipta í gær, átti í dag fund með Jóni Auðunni Jónssyni, skiptastjóra og greindu honum frá óskum bankans um að fyrirtækið yrði rekið áfram í allt að 2 mánuði.


 

Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförnum árum staðið fyrir tilraunum til að merkja hvali með gervitunglasendum. Markmið verkefnisins er að kanna ferðir skíðishvala við landið og far þeirra frá íslenskum hafsvæðum á haustin.


 

Um þessar mundir eru níu skip með um það bil 200 sjómönnum í haldi sómalskra sjóræningja. Sjóræningjarnir hafa haldið uppi nánast daglegum árásum á skip í námunda við Seychelles-eyjar síðasta mánuðinn eftir að dró úr monsúnvindinum.


 

Í dag lauk í Qingdao í Kína stærstu sjávarvörusýningu í Asíu „China Fisheries & Seafood Expo 2009“. Útflutningsfyrirtækið Triton ehf var meðal þátttaka í sýningunni og fylgir þar eftir söluátaki sínu á grásleppu til Kína.  Það var á sl. sumri sem Triton opnaði fyrir viðskiptin með útflutningi á rúmum 70 tonnum af frosinni grásleppu til kínverskra samstarfsaðila sinna. 


 

Sýkingin í íslenska síldarstofninum er viðvarandi. Bergmálsmælingar sýna hins vegar svipaða stofnstærð og í fyrra, sem kemur vísindamönnum á óvart. Sýkingin hefði átt að hafa höggvið stór skörð í stofninn. 


 

Íslendingar urðu af hálfum fimmta milljarði króna vegna skipulags makrílveiðanna á liðnu sumri, að mati framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.


 

Nýlokið er haustkönnun Hafrannsóknastofnunarinnar á rækjumiðunum á Vestfjörðum og á fjörðum og flóum norðanlands. Útbreiðsla rækju var svipuð og í fyrra í Arnarfirði en vísitala stofnstærðar var lægri en árið 2008. Leyfðar verða veiðar á 300 tonnum af rækju í Arnarfirði í vetur. Annars staðar eru rækjustofnarnir litlir og skilyrði óhagstæð vegna fiskgengdar. 


 

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum um fjölda þorskseiða virðist 2009 árgangur þorsks slakur og svipaður og árin 2004-2006. Fyrstu merki um 2009 árgang ýsu benda til þess, að sá árgangur sé langt undir meðaltali á grunnslóð. Þetta kom fram í nýafstöðnum árlegum rækjurannsóknum á grunnslóð, en samhliða þeim voru stundaðar aðrar fiskirannsóknir.


 

Alaskaufsi var sú botnfisktegund sem mest var flutt af inn til Evrópusambandsins á síðasta ári og tók hann þar með sæti þorsksins sem hingað til hefur verið mest keypta tegundin.


 

Embætti umhverfisstjóra Evrópusambandsins hefur sektað írsk stjórnvöld um 3,8 milljónir evra eða jafnvirði nálægt 700 milljóna íslenskra króna fyrir að látið undir höfuð leggjast að ráða bót á skólpvandamálum í námunda við skelfiskrækt við strendur landsins.


 

Verð ýsukvótans á leigumarkaði er komið upp í rúmlega 200 krónur kílóið sem er liðlega fjórföld hækkun frá því sem var á tímabilinu 2005-2008.


 

Enginn árangur varð af samningafundi um skiptingu makrílveiða á fundi sem viðkomandi ríki héldu í Cork á Írlandi í síðustu viku. Færeyingar vilja aukna hlutdeild í kvótanum, Norðmenn og Evrópusambandið deila um rétt norskra skipa til veiða í ESB-lögsögunni og Íslendingar eru áfram úti í kuldanum.


 

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,2% í september síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi fyrirtækisins IFS greiningar miðað við tölur um framleiðsluverð í september sem Hagstofan birti fyrir helgina.


 

Frystitogarinn Helga Maríu AK kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun en skipið var að veiðum við Suður- og Suðausturströndina frá því í byrjun þessa mánaðar. Að sögn Eiríks Ragnarssonar skipstjóra settu þrálátar brælur mestan svip á veiðiferðina og aflabrögðin voru með rólegra móti að hans sögn.
SKIPASKRÁ /