þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

desember, 2009

 

Ítölsk stjórnvöld hafa nú í desember lagt hald á samtals 500 tonn af sýktum og skemmdum sjávarafurðum sem að stórum hluta voru ætlaðar til neyslu í nýársveislum nú um áramótin. Meðal þess sem gert var upptækt voru 323 tonn af möðkuðum ansjósum og 70 tonn af fiski frá Asíu sem selja átti sem ítalska vöru.


 

Um 20 Íslendingar búa í norska bænum Leirfjord í Helgelandfylki í Noregi. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa flúið efnahagskreppuna á Íslandi og vinna hjá laxeldisfyrirtæki í bænum sem Íslendingur, sem búið hefur í Noregi í áraraðir, stjórnar.


 

Vægi línu við veiðar á þorski hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi þótt dregið hafi aðeins úr mikilvægi línunnar milli áranna 2008 og 2009. Hlutfall línunnar í þorskafla hefur vaxið úr tæpum 10% árið 1979 í 32,5% á yfirstandandi ári (hlutfallið var hins vegar rúm 37% á árinu 2008) að því er fram kemur á vef Fiskistofu.


 

„Það hlýtur að vera einsdæmi að þjóð sem á jafnmikið undir nýtingu náttúruauðlinda og við og hefur náð að skapa sér þá ímynd á alþjóða vettvangi að hún stundi sjálfbæra nýtingu fiskistofna, ábyrgar fiskveiðar og varúðarnálgun við stjórn fiskveiða hafi til meðferðar á þjóðþingi sínu frumvarp sem beinlínis miðar að því að ofveiða ákveðinn fiskistofn" segir í umsögn LÍÚ um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hann hefur lagt fram á Alþingi.


 

Ákveðið hefur verið að rækjukvótinn við Vestur-Grænland árið 2010 verði sá sami og í ár eða rétt tæp 115 þúsund tonn.


 

Talið er að helmingur af hafsbotninum á Íslandsmiðum ofan 1.000 metra dýptarlínu hafi ekki verið snertur með botntrolli síðustu tuttugu árin. Sé hins vegar miðað við hafsbotinn niður á 500 metra dýpi gæti 20-25% af því svæði verið ósnert af botntrolli síðustu tvo áratugina.


 

,,Ég held að þegar hlutfall eldisfisks í heildarfiskneyslu í heiminum verði komið í 50% stigi menn yfir ákveðinn sálfræðilegan þröskuld og fleiri og fleiri fari þá að spyrja: Þarf nokkuð að vera að eltast við fiskinn í villtri nátturu? Þetta gæti orðið næsta baráttumál umhvefissamtaka."


 

Jólablað Fiskifrétta er komið út, stórt og veglegt að vanda. Í ítarlegu viðtali við Kristján Ragnarsson, fyrrum formann LÍÚ, er m.a. rifjað upp þegar hann, þá 32 ára að aldri,  var óvænt kjörinn formaður samtakanna, þótt forustan hafi ætlað starfið öðrum manni.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 85 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2009, samanborið við rúma 70 milljarða yfir sama tímabil 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um 15 milljarða eða 21% á milli ára. Aflaverðmæti í septembermánuði nam 9,5 milljörðum króna miðað við 7 milljarða í september 2008.


 

Í jólablaði Fiskifrétta sem kemur út í dag er ítarlegt viðtal við Guðjón Arnar Kristjánsson um sjómennskuár hans en Guðjón á að baki langan og farsælan feril sem skipstjóri. Lengst af var hann skipstjóri á skuttogaranum Páli Pálssyni ÍS.


 

Hvorki er hægt að leggja til loðnukvóta fyrir komandi vertíð né mæla með upphafskvóta fyrir vertíðina 2010/2011 að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnuninni um niðurstöður úr loðnumælingu að haustlagi 2009.


 

Sala á ferskum þorski á Frakklandsmarkaði jókst um 52,2% í magni á fyrstu tíu mánuðum ársins og um 35,5% í verðmæti miðað við sama tíma árið 2008.


 

Sérfræðingar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) telja að fram séu komin nægileg rök fyrir því að sett verði alþjóðlegt bann við verslun með afurðir Atlantshafs bláuggatúnfiskstofnsins vegna þess hve illa hann sé á sig kominn.


 

Áætlað að heildarkostnaður við uppbyggingu HB Granda á Vopnafirði muni nema tæpum fjórum milljörðum króna á núverandi verðlagi, að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar forstjóra fyrirtækisins.


 

Umhverfissinnuðum neytendum nægir ekki að fá fullvissu um það að fiskurinn sem þeir borða sé veiddur úr sjálfbærum fiskistofnum. Þeir vilja líka vita um hversu langan veg fiskurinn var fluttur áður en hann komst á markað og hve mikil orka fór í flutninginn.


 

Íslendingar voru 16. stærsta fiskveiðiþjóðin árið 2007 með 1.399 þúsund tonna afla, samkvæmt tölum FAO sem Hagstofa Íslands hefur birt. Það ár nam heimsaflinn liðlega 90 milljónum tonna.


 

Tilraunaveiðar á trjónukrabba fóru fram í Hvammsfirði og innanverðum Breiðafirði í sumar og haust og niðurstöður lofa góðu, að því er fram kemur í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

,,Ég get ekki neitað því að ég er alvarlega að pæla í því að fara að handmjólka til að fá verðlaunin. Ég get ekki horft framhjá þeim möguleika að geta aukið kvóta minn um 20% með því að snúa baki við vélvæðingunni og taka upp bala í staðinn.”


 

Þótt aðeins sé liðinn fjórðungur af fiskveiðiárinu er búið að veiða 70% skötuselskvótans, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Til samanburðar má nefna að veiðihlutfallið á sama tíma í fyrra var 41%.


 

Evrópusambandið hefur ákveðið niðurskurð á kvótum í þorski og ýsu árið 2010 en banni á veiðum á ansjósum hefur verið aflétt.


 

Portúgölsk skip mega nú aftur veiða þorsk við Kanada eftir 11 ára hlé. Þeim er úthlutað 1.070 tonnum af þorski á næsta ári á svæði sem NV-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (NAFO) stjórnar veiðum á.


 

Sjávarútvegsráðherra var óheimilt að framlengja úthlutunartímabil byggðakvóta fiskveiðiársins 2006-2007 til 31. desember 2007 - og þar með inn á nýtt fiskveiðiár - með útgáfu sérstakrar reglugerðar (nr. 440/2007.) Ákvörðunin átti sér ekki lagastoð og var því brot á lögmætisreglunni.


 

Norður-Kyrrahafs fiskveiðiráðið (NPFMC) hefur lagt til að veiðar Bandaríkjamanna á alaskaufsa verði 813 þúsund tonn á árinu 2010. Þetta er lægsti heildarkvóti í 32 ár.


 

Heimsframleiðslan á eldisfiskinum tilapia eða beitarfiski er að nálgast þrjár milljónir tonna á ári og er söluverðmætið um fimm milljónir bandaríkjadala eða jafnvirði 635 milljarða íslenskra króna.


 

Fiskaflinn í nýliðinum nóvember nam 86.000 tonnum samanborið við 119.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn er 27% og stafar hann að stærstum hluta af minni síldarafla en botnfiskaflinn dróst saman um 9%.


 

Sex skip eru nú á gulldepluveiðum og er veiðisvæðið sem fyrr í nágrenni Grindavíkurdýpis, en veiðar hafa tafist nokkuð að undanförnu vegna þrálátrar ótíðar. Aflabrögðin eru líkt og áður með rólegra móti, að því er fram kemur áheimasíðu HB Granda.


 

Vinnslustöð Vestmannaeyja ætlar að greiða hverjum starfsmanni 150.000 krónur til viðbótar desemberuppbót nú fyrir jólin. Þá verður jólabónusinn tvöfaldaður hjá Ísfélagi Vestmannaeyja vegna góðrar afkomu á árinu. Loks hefur Samherji tilkynnt 100.000 kr. launauppbót til starfsmanna sinna í landi auk desemberuppbótar. 


 

Börkur NK, uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, hefur fiskað fyrir 1.330 milljónir króna á árinu og bætt fyrra met sitt um 60 milljónir krona, þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi dottið upp fyrir í ár. Þetta er mjög góður árangur ekki síst þegar þess er gætt að Börkur er ekki vinnsluskip.


 

Nýlokið er umfangsmiklum endurbótum á togaranum Barða NK frá Neskaupstað hjá Slippnum á Akureyri. Fiskvinnslubúnaður skipsins var endurnýjuð að fullu og nemur kostnaðurinn um 200 milljónum króna. Við breytingarnar eykst afkastagetan á hinu nýja vinnsludekki  til muna og er gert ráð fyrir að frystigetan verði allt að 50 tonn á sólarhring.


 

Rækjuiðnaðurinn í Thailandi gengur vel þrátt fyrir efnahagskreppuna í heiminum. Rækjuútflutningur er talinn verða um 3 milljarðar dollara á árinu 2009, eða um 370 milljarðar ísl. kr.


 

Veiðar á gulllaxi hafa aukist gríðarlega í ár og í fyrra samanborið við undanfarin ár. Á árinu 2008 veiddust 9.086 tonn sem er rúmlega tvöfalt meira en veiddist 2007. Í ár hafa veiðst 8.800 tonn miðað við löndunartölur 8. desember.


 

,,Ég fullyrði að þessar sögusagnir eiga ekki við rök að styðjast,” sagði Þórhallur Ottesen á veiðieftirliti Fiskistofu í samtali við Fiskifréttir, en þrálátur orðrómur hefur verið á sveimi þess efnis að mikið smáýsudráp hafi verið stundað á síldveiðum í námunda við Stykkishólm.


 

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað mótmælir fréttaflutningi af meintu stórfelldu smáýsudrápi sídlarflotans í Breiðafirði og segir þennan orðróm algjörlega úr lausu lofti gripinn.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra vísar því á bug að boðað 5% álag við útflutning á óvigtuðum, ferskum fiski sé brot á jafnræðisreglum EES samningsins. Þetta álag sé til að tryggja jafnræði allra við öflun hráefnis til fiskvinnslu.


 

Í Noregi er sjómannaafsláttur tíu sinnum hærri en hérlendis, í Færeyjum er fimmfaldur munur og í Danmörku þrefaldur, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Bátasmiðjan Trefjar ehf. í Hafnarfirði afhenti „flaggskip” sitt nýlega en um er að ræða 30 tonna smábát sem gerður verður út af Íslendingum í Noregi.


 

Jón Steinn Elíasson, forstjóri Toppfisks og formaður Samtaka fiskframleiðenda og –útflytjenda (SFÚ), segir félagsmenn afar óánægða með þau áform sjávarútvegsráðherra að falla frá ákvörðun um að allur afli skuli vigtaður hér á landi.


 

Framkvæmdastjóri LÍÚ, Friðrik J. Arngrímsson, segir nýjar reglur sjávarútvegsráðherra um 5% álag til aflamarks á útflutning ísfisks frá og með 1. janúar næstkomandi fela í sér mismunun. Þær séu jafnframt brot á samningi Íslands og ESB um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Þá megi leiða að því líkum, að þær feli í sér tæknilegar viðskiptahindranir sem gangi í berhögg við EES samninginn um fríverslun með sjávarafurðir til aðildarríkja ESB.


 

Ástæðan fyrir því að slitnað hefur upp úr viðræðum ESB og Noregs um fiskveiðisamninga fyrir árið 2010 er sú að írski sjávarútvegsráðherrann barði í borðið. Hann aftók með öllu að írskir sjómenn borguðu fyrir þorskkvóta spánskra frystitogara í Barentshafi með því að gefa eftir kvóta í uppsjávarfiski.


 

Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi það sem af er árinu nemur 40,4 milljörðum norskra króna, jafnvirði 873 milljarða íslenskra króna. Verðmætið er þegar orðið meira en á öllu árinu í fyrra sem var metár.


 

HB Grandi stendur um þessar mundir fyrir námskeiðum fyrir alla starfsmenn fiskiðjuveranna í Reykjavík og á Akranesi. Námskeiðin haldin á níu tungumálum, íslensku, ensku, tælensku, pólsku, litháísku, víetnömsku, kínversku, portúgölsku og tagalog sem er tungumál þeirra sem ættaðir eru frá Filippseyjum.


 

Framundan er nú sá tími sem einkum eru bundnar vonir við að veiði á gulldeplu geti farið að glæðast. Í fyrra var það upp úr miðjum desember sem sjómenn fóru að verða varir við gulldeplan þétti sig í stærri og veiðanlegri torfum. Mest var veiðin svo eftir áramótin.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að reiknað verði 5% kvótaálag á fisk sem fluttur er óunninn á markað erlendis frá og með næstu áramótum. Hins vegar er fallið frá áformum um að skylt verði að vigta aflann endanlega hérlendis áður en hann er fluttur utan. 


 

Þótt Bandaríkjamenn séu þekktir fyrir að hafa mikið dálæti á kjöti hefur fiskneysla þeirra aukist. Rækja er vinsælasta sjávarafurðin þar í landi en þorskurinn hefur hrapað í vinsældum og er nú aðeins í áttunda sæti.


 

Norðmenn hafa íhugað ýmsar aðgerðir í baráttunni við lúsina sem leggst á eldislaxinn og veldur gríðarlegu fjárhagstjóni. Fimm eldisfyrirtæki í Noregi eru nú að kanna möguleikana á því að hefja sameiginlega eldi á leppefisk eða varafiski sem reynst hefur liðtækur við að éta lúsina af laxinum.


 

Meðalverðið á íslensku fiskmörkuðunum hækkaði í nóvember og var 278,19.  Þetta er hækkun frá metverði í október, en aðeins um 10 aura.  Nóvemberverðið nú er þar af leiðandi hæsta meðalverð í einum mánuði sem sést hefur.


 

Í síðustu viku varð sprenging í verði á fiskimjöli. Fór verðið þá upp í 1.627 dollara á tonnið á uppboðsmarkaði í Hollandi. Hér var að vísu um lítið magn að ræða en verðþróunin hefur þó öll verið upp á við síðustu vikur og mánuði, að því er fram kemur á IntraFish.


 

Gríðarlegt tap hefur verið á þorskeldi í Noregi. Tapið á árunum 2005-2008 nam nálægt einum milljarði norskra króna eða jafnvirði 22 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.


 

Innflutningur Bandaríkjamanna á eldisfiskinum pangasius frá Víetnam hefur aukist gríðarlega. Á fyrstu 10 mánuðum ársins nam verðmæti þessa innflutnings 111 milljónum dollara, eða 13,6 milljörðum íslenskum, og er aukningin um 71% frá sama tíma í fyrra.


 

Lengi hefur verið ljóst að bláuggatúnfiskstofninn í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi er  gróflega ofveiddur og brýn nauðsyn á því að draga úr sókninni í hann. Eigi að síður veitti Evrópusambandið jafnvirði 6,3 milljörðum íslenskra króna til þess að styrkja túnfiskútgerðir í ríkjum sambandsins á árunum 2000-2008.


 

Norskir útflytjendur standa nú frammi fyrir því að útflutningur á óverulegu magni af fiski getur kallað á gríðarlegt flóð vottorða vegna hertra reglna Evrópusambandsins til þess að stemma stigu við ólöglegum fiskveiðum. Reglugerð þar að lútandi tekur gildi þann 1. janúar næstkomandi. Eftir breytinguna eru dæmi um að framvísa gæti þurft 1875 upprunavottorðum vegna útflutnings fimm tonna af blönduðum fiski frá Noregi til kaupanda í Þýskalandi.


 

Nýjar mælingar á stofnstærð síldar og rannsóknir á því hvort sýkt síld lifir sjúkdóminn af gefa ekki tilefni til þess að búast megi við frekari veiðum á þessari vertíð, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu


 

Ísland hefur í dag sent framkvæmdastjórn ESB bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig framkvæmd reglugerðar ESB nr. 1005/2008 um varnir gegn ólöglegum veiðum verður háttað í aðildarríkjum ESB.


 

Í gær lauk leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem metið var magn og útbeiðsla sumargotssíldar við Ísland. Verkefnið, sem staðið hefur sl. 17 daga var m.a. í samstarfi við útgerðir síldveiðiskipa, sem könnuðu hluta rannsóknasvæðisins.


 

,,Stöðu í rekstri þessara fyrirtækja í dag má líkja við neyðarástand. Aflaheimildir sumra skipanna eru uppurnar og við það að klárast hjá öðrum. Ástæður þess eru þær að framboð aflamarks á leigumarkaði hefur snarfallið og verð margfaldast. Stefnir allt í miklar uppsagnir starfsfólks sem þegar eru hafnar.”


 

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að það sé ofmat ársins að Íslendingar geti orðið leiðandi í sjávarútvegi innan ESB. Hann lét þessi orð falla í  ræðu sem hann hélt á fundi í morgun sem Matís og fleiri aðilar stóðu að þar sem fjallað var um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi.


 

Fiskútflutningsráðið norska segir að ferskur þorskur og reyktur lax verði söluhæstu sjávarafurðir ársins á Frakklandsmarkaði. Mikil söluherferð er nú í gangi til að kynna norskar sjávarafurðir í Frakklandi og til að hvetja Frakka til að leggja sér norskan þorsk og lax til munns um jólin.


 

Styrja er einn af verðmætustu fiskum veraldar enda er hinn eini og sanni kavíar búin til úr hrognum styrjunnar. Nú virðist eldi á styrju vera í uppsiglingu í Chile því tekist hefur að finna leið til að láta fiskinn fjölga sér í manngerðu umhverfi eftir 15 ára tilraunir.


 

Evrópusambandið, Færeyjar og Noregur hafa nú boðið Íslandi til viðræðna um heildarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi í mars 2010 og hefur Jón Bjarnason sjávarútvegráðherra þekkst boðið. Aðilar eru sammála um nauðsyn þess að strandríkin fjögur, sem öll eiga hagsmuna að gæta, komi á sameiginlegri stjórnun veiða úr þessum mikilvæga stofni til að tryggja sjálfbæra nýtingu.


 

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt tillögur fyrir árlegt viðmiðunarverð fyrir ferskar og frystar sjávarafurðir á árinu 2010, að því er fram kemur á vefnum Fisker Forum.


 

Fiskeldisfyrirtækin í Noregi ætla sameiginlega að verja á næsta ári einum milljarði norskra króna eða jafnvirði 22 milljarða íslenskra í aðgerðir til þess að draga úr laxalús í eldi.


 

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 3,9% í október síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi IFS greiningar og miðast við tölur um framleiðsluverð í september sem Hagstofan birti sl. föstudag.
SKIPASKRÁ /