sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

september, 2009

 

Fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar verða 1.357 milljónir króna á næsta ári og jafngildir það 201 milljón króna lækkun að raungildi frá fjárlögum þessa árs. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga ársins 2010 sem lagt var fram á Alþingi í dag.


 

„Útvegsmannafélag Vestfjarða lýsir áhyggjum sínum af afleiðingum mikils niðurskurðar í aflaheimildum bolfisktegunda á fiskveiðiárinu sem hófst þann 1. september sl.  Þar var heildaraflamark bolfisktegunda skorið niður um 62.000 tonn eða sem svarar til meðalársafla 100 vertíðarbáta.  Niðurskurður í grálúðu bitnar sérlega hart á Vestfirðingum.”


 

Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, segir að á sama tíma og sjávarútvegur eigi að stuðla að endurreisn þjóðarbúsins stafi greininni mest ógn af aðgerðum stjórnvalda.


 

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur farið fram á það við sjávarútvegsráðherra að línuveiðar á ýsu verði gefnar frjálsar til næstu áramóta í ljósi þeirra vandræða sem skapast hafa vegna skorts á ýsukvóta á leigumarkaði.


 

Veiðum skipa HB Granda á norsk-íslensku síldinni er lokið á yfirstandandi vertíð. Skipin eru búin að veiða upp heimildir félagsins í NÍ síld þetta árið og reyndar einnig hluta þess sem heimilt er að veiða af úthlutun næsta árs, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins. 


 

Fyrirtækið Skysail hefur selt sinn fyrsta seglbúnað til að knýja fiskiskip áfram að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.


 

Ekki er ofsögum sagt af velgengni laxeldis í Noregi. Útflutningsverðmæti eldislax fyrstu átta mánuði ársins jókst um 32% frá sama tímabili í fyrra. Ef sama þróun helst út árið mun aukningin á árinu í heild nema 5,7 milljörðum norskra króna eða jafnvirði 122 milljarða íslenskra króna.


 

Talin hafa þar vetursetu


 

Íslenskum fiskiskipum í aflamarkskerfinu fækkaði um 574 á árunum 2004 – 2009 eða um 44,7% samkvæmt samantekt LÍÚ. Alls voru skráð fiskiskip 1283 talsins fiskveiðiárið 2004/2005 en þeim hafði fækkað niður í 709 fiskveiðiárið 2008/2009.


 

Norska sjávarútvegsráðuneytið verður lagt niður og sameinað stóru atvinnumálaráðuneyti, ef marka má frétt í Dagsavisen í Noregi í dag.


 

Nýlega er lokið leiðangri á r/s Árna Friðrikssyni vegna rannsókna á kjörhæfni fiskivörpu. Að þessu sinni var mælt hve stórt hlutfall af fiski sleppur undir vörpuna. Þetta var gert með því að setja poka, sem voru einskonar smávörpur, fyrir aftan grjóthopparana (fótreipið) og veiða þannig allan fisk sem annars hefði sloppið undir vörpuna.


 

Norsk fiskiskip lönduðu um 1,4 milljónum tonna af fiski og skeldýrum á fyrstu sex mánuðum ársins sem er um 4% samdráttur miðað við sama tíma í fyrra. Aflaverðmæti lækkaði hins vegar um 13%, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.


 

Fiskvinnslufyrirtæki í Lófóten í Norður-Noregi, mikilvægasta vertíðarsvæði landsins, standa mörg hver afar illa vegna mikillar verðlækkunar á þorskafurðum á yfirstandandi ári. Óttast er að fjöldi fyrirtækjanna verði gjaldþrota, að því er norska ríkisútvarpið (NRK) skýrir frá.


 

Veiðar á bláuggatúnfiski eða svarta gullinu eins og hann er nefndur í Japan standa nú sem hæst. Löng hefð er fyrir þessum veiðum nyrst í Japan.


 

Stjórnvöld bæði í Noregi og annars staðar verða að átta sig á þeirri staðreynd að ólöglegar fiskveiðar viðgangast vegna þess að vel skipulögð glæpasamtök taka þátt í þeim og sjá um að koma fiskinum á markað.


 

Makrílafli íslenskra skipa er nú kominn í 116 þúsund tonn. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segist sjá fram á auknar makrílveiðar Íslendinga á næsta ári, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.


 

Í Noregi er fiskveiðum stjórnað með kvótum, en viðskipti með aflaheimildir eru háð margvíslegum takmörkunum og leiguframsal innan ársins er óheimilt.


 

Slæmar horfur eru um veiðar á loðnu og íslenskri síld. Afleiðingin gæti orðið um 30 milljarða króna tap í útflutningstekjum, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Um 13% ýsukvótans voru færð milli fiskveiðiára um þessi kvótaáramót samanborið við 9% í fyrra og 12% í hittifyrra, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Samtök launþega í matvælaiðnaði í Noregi krefjast þess að nýsköpunarsjóðir styðji ekki við bakið á norskum fiskvinnslum sem byggja starfsemi sína á starfsmannaleigum. Þau fullyrða að þriðji hver starfsmaður við fiskverkun búi ekki við samningsbundin launakjör.


 

HB Grandi var með fjögur skip á úthafskarfaveiðum í sumar og nam afli þeirra samtals 6.800 tonn. Að þessu sinni voru veiðarnar stundaðar fram að mánaðamótum júlí og ágúst sem er lengra fram á sumarið en undanfarin ár.  Var mikil ánægja með það hvernig úthafskarfaveiðarnar þróuðust.


 

Í kjölfar skyndiskoðana varðskipsins Ægis á fiskimiðunum við landið í sumar hafa verið gefnar út  14 kærur á skipstjóra  og 28 skipstjórar hafa verið áminntir, að því er fram kemur í frétt á vef Landhelgisgæslunnar. 


 

Forsvarsmenn í dönskum fiskiðnaði hafa gagnrýnt harðlega að grænlenska sjávarútvegsfyrirtækið Royal Greenland skuli hafa fengið styrk upp á hálfan milljarð danskra króna (jafnvirði 12,5 milljarða íslenskra króna) frá grænlensku heimastjórninni.


 

,,Það líður varla sá dagur að maður heyri ekki lýsingar á því hversu gríðarlega mikið sé af þorski víða við landið þannig að til vandræða horfi vegna þess hve lítið má veiða af honum. Ég hef ekki í annan tíma heyrt svona víða að af landinu fréttir af því hve fiskiríið sé gott og fiskurinn vel haldinn,” sagði Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ)  í samtali við Fiskifréttir.


 

Stjórnir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna skora á sjávarútvegsráðherra að auka verulega við útgefinn þorskkvóta.


 

,,Við erum á reki hér rétt við 200 mílna mörkin vestan við Síldarsmuguna. Ef allt gengur að óskum þá ættum við að geta hafið veiðar seint annað kvöld eða í síðasta lagi á miðvikudagsmorgun. Það veltur á því hvenær Ingunn AK kemur á miðin en við munum toga með henni að þessu sinni,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er við náðum tali af honum fyrir stundu.


 

,,Síldveiðarnar innan íslensku lögsögunnar hafa gengið svo vel í sumar að það eru hverfandi líkur á að við þurfum að nýta okkur þann rétt að veiða hluta kvótans í norsku lögsögunni,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, í samtali viðheimasíðu fyrirtækisins.


 

Aðildarríki ESB verja árlega um 400 milljónum evra, um 73 milljörðum íslenskra króna, í eftirlit með sjávarútvegi að því er fram kemur á vef IntraFish.


 

Norsk stjórnvöld undirrituðu nýlega samning við Evrópusambandið um að sérstakt veiðivottorð skuli fylgja útfluttum fiski frá Noregi inn á ESB-markaðinn. Norðmenn eru fyrsta þjóðin sem gerir slíkan samning, en þetta er liður í átaki til þess að hamla gegn því að ólöglega veiddur fiskur sé seldur á markaði í ríkjum bandalagsins.


 

Þriðjungs niðurskurður veiðiheimilda í ýsu er farinn að segja til sín.  Nánast ómögulegt er að fá leigðan ýsukvóta öfugt við það sem hefur verið undanfarin ár þegar nægt framboð var. Afleiðingar þessa eru margvíslegar m.a. fyrir þá sem leigt hafa til sín ýsu á undanförnum árum. 


 

Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåtredernes Forbund) segjast hafa heimildir fyrir því að vart hafi orðið við umtalsvert magn af loðnu í leiðangri norsku hafrannsóknastofnunarinnar á svæðinu milli Jan Mayen og Grænlands nýlega.


 

Meiri áhugi hefur verið fyrir úthafrækjuveiðum í ár en oftast áður. Ráðgert er að frystitogarinn Eyborg hefji þessar veiðar innan tíðar og frysti rækjuna um borð, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.


 

,,Á Nýja-Sjálandi er litið á kvótakerfið sem vel heppnað aðferð til þess að stjórna fiskveiðum þjóðarinnar. Það ríkir sátt um kerfið,” segir Stan Crothers fyrrum starfsmaður nýsjálenska sjávarútvegsráðuneytisins í viðtali við Fiskifréttir.


 

Lítil umsvif eru enn sem komið er hjá líftæknifyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. fyrirtækjum sem vinna verðmæti úr aukaafurðum með líftækni og skyldri tækni. Samanlögð velta þeirra er líklega innan við einn milljarður króna, samkvæmt samantekt Fiskifrétta sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Brátt sér fyrir endann á hrefnuvertíðinni á þessu sumri. Alls hafa veiðst 79 hrefnur, þar af hefur Jóhanna ÁR veitt 67 dýr, Hafsteinn SK sjö dýr, Sæljós GK fjögur dýr og Sproti SH eina hrefnu, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag.


 

Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-Sif stóð í gær togbát að meintum ólöglegum togveiðum, undan Barða milli Önundar- og Dýrafjarðar.


 

Ísland var í 16. sæti listans yfir aflahæstu fiskveiðiþjóðir heims árið 2006 með heildarafla upp á 1,35 milljónir tonna. Kínverjar bera ægishjálm yfir aðrar fiskveiðiþjóðir hvað aflamagn varðar. Heildarafli þeirra árið 2006 var 17,4 milljónir tonna. Næstir á eftir þeim koma Perúmenn með 7 milljónir tonna.


 

Rússneska fiskveiðiráðið hefur í hyggju að byggja upp fiskvinnslu í Barentsburg á Svalbarða og gengið hefur verið frá samningi við norska verktaka um smíði fiskvinnsluhúss.


 

Samanlagt tap tólf stærstu þorskeldisfyrirtækja Noregs nam 525 milljónum norskra króna á síðasta ári eða sem svarar til ríflega 10 milljarða íslenskra króna. Þetta er mun verri afkoma en árið áður en þá nam tap sömu fyrirtækja rúmlega 4 milljörðum íslenskra króna.


 

Sú goðsögn hefur verið lífseig að Asíubúar séu heimsmeistarar í fiskneyslu. Í nýrri neyslukönnunarskýrslu sem unnin hefur verið að undirlagi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur hins vegar í ljós að Evrópa er stærsti markaður fyrir fiskafurðir í heiminum.


 

Útflutningur á heilfrystum hausskornum ufsa frá Rússlandi til Kína mun ekki aukast á næsta ári þar sem rússneskir fiskframleiðendur ætla að beina sjónum sínum að nýjum mörkuðum.


 

Bresk yfirvöld herða nú aðgerðir gegn Fish&chips verslunum sem reyna að villa um fyrir viðskiptavinum sínum og selja þeim ódýrar fisktegundir undir því yfirskyni að um þorsk eða aðrar dýrari tegundir sé að ræða.


 

Aflinn í ágúst 2009 var 113 þúsund tonn samanborið við 142 þús. tonn í sama mánuði árið áður. Botnfiskafli dróst saman um rúm 3.000 tonn og nam tæpum 32.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 13.000 tonn sem er 4.000 tonnum tonna aukning frá fyrra ári. 


 

Því er spáð að útflutningur hefðbundinna sjávarafurða frá Perú árið 2010 muni nema um 1,9 milljörðum dollara eða um 240 milljörðum ísl. króna.


 

Hækkandi sjávarhiti kann að reynast meiri ógn við þorskstofninn í Norðursjó en ofveiði, segir í nýrri breskri vísindaskýrslu. Meðalhiti í Norðursjó hefur hækkað um eina gráðu síðan árið 1970 og slík þróun hefur komið róti á sum vistkerfi.


 
Fiskifréttir
12. september 2009

Smábátum fjölgar

Í upphafi nýliðins kvótaárs fengu 767 skip og bátar úthlutað aflamarki en þeim hefur fjölgað um 21 og eru 788 nú í upphafi fiskveiðiárs.


 

Samkvæmt kvótaúthlutun í upphafi nýs fiskveiðiárs má HB Grandi veiða 16.000 þúsund tonn af karfa sem er 32% af heildarkarfakvótanum. Næsta útgerð á eftir er Samherji með 4.100 tonna karfakvóta eða liðlega 8%. Í þessum tölum er úthafskarfi undanskilinn, en HB Grandi er einnig stærsti kvótahafinn í þeirri tegund.


 

Íslensk skip hafa nú landað rétt rúmum 114 þúsund tonnum af makríl. Dregið hefur úr makríl sem meðafla við veiðar á norsk-íslenskri síld en fari fram sem horfir má gera ráð fyrir því að heildaraflinn verði 116-118 þúsund tonn.


 

Í ágúst fóru fram athuganir á ástandi sjávar umhverfis landið ásamt öðru á báðum skipum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjávarhiti í hlýsjónum suður og vestur af landinu var yfir meðallagi( 7°- 12°C og seltan 35,10 - 35,27 á 50 m dýpi).


 

Beitukóngsveiðar eru að hefjast á ný eftir um það bil eins árs hlé sem varð vegna erfiðleika í sölu afurða, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Mikið hefur mælst af  loðnu, þorski og ýsu í Barentshafinu í rannsóknum norsku hafrannsóknastofnunarinnar, sem hófust snemma í ágúst og standa yfir þar til í októberlok. Þá er útkoma seiðamælinga athyglisverð, m.a. hvað síld áhrærir


 

Kostirnir færeyska sóknardagakerfisins eru þeir að í kerfinu er ekki hvati til brottkasts og aflaupplýsingar eru áreiðanlegar. Gallarnir eru sveiflukenndar veiðar og hvati til offjárfestingar sem leiðir til þess að kerfið er fjárhagslega óhagkvæmt.   


 

Sérblað um kvóta allra skipa og báta í upphafi fiskveiðiárs 2009/2010 fylgir Fiskifréttum í dag. Kvótablaðið er ýtarlegt uppflettirit fyrir þá sem vilja afla sér upplýsinga um hvernig úthlutaðar aflaheimildir skiptast.


 

Treg karfaveiði hefur verið í Síldarsmugunni frá því að veiðar máttu hefjast þar 15. ágúst síðastliðinn. Hinn 7. september  var aðeins búið að tilkynna um 2.310 tonna afla, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni).


 

Viðtal við Rögnvald Hannesson, prófessor í fiskihagfræði


 

Í Bretlandi hefur ávallt verið litið á ufsann sem ódýran valkost í samanburði við þorsk og ýsu, en efnahagskreppan hefur komið því til leiðar að ufsinn er nú kominn á listann yfir 10 vinsælustu fisktegundirnar.


 

Samtök söluaðila á steiktum fiski og frönskum, fish&chips, í Bretlandi undirbúa nú mikla kynningarherferð á næsta ári til að fagna því að þessi víðfrægi þjóðarréttur Breta á þá 150 ára afmæli.


 

Fiskeldi í heiminum hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum og nú á þessu ári hafa orðið þau tímamót að helmingur af þeim fiski sem fer til manneldis er eldisfiskur.


 

Veiðar á makríl eru hafnar fyrir alvöru í Noregi. Í síðustu viku var tilkynnt um 14.000 tonna afla. Meðalverð fyrir makrílinn úr sjó var 8,20-11,62 norskra krónur kílóið eða jafnvirði 172-244 íslenskra króna.


 

Norskir sérfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að minni rækjubátar sem veiða við ströndina geti aukið tekjur sínar umtalsvert með því að landa rækjunni lifandi, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.


 

McDonald’s skyndibitakeðjan hefur ákveðið að nota á ný þorsk úr Eystrasalti í þorskborgara sína en því hætti hún fyrir þremur árum þegar stofninn var talinn að hruni kominn og nýting hans ekki á sjálfbærum nótum.


 

Alls 554 bátar tóku þátt í strandveiðunum svokölluðu í sumar en þeim lauk um síðustu mánaðamót. Alls voru gefin út 595 leyfi til strandveiða. Sædís ÞH varð aflahæst með 28 tonn, þar af 26,7 tonn af þorski.


 

  Ofveiði á nílarkarfa undanfarinn áratug hefur bitnað hart á ástandi hans. Versnandi efnahagur í heiminum ásamt aukinni samkeppni við aðrar ódýrari hvítfisktegundir hafa þó haldið verði á nílarkarfa niðri þrátt fyrir minnkandi framboð.


 

Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að hækka verð á slægðum og óslægðum þorski, sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila, um 5%. Ákveðið var einnig að hækka verð á karfa um 10%.


 

Á síðustu 25 árum hafa 40 þúsund manns flust á brott úr strandbyggðunum í Norður-Noregi og fólksflóttinn heldur áfram. Á hverju ári flytja 1.600 manns úr sjávarþorpunum og inn til borganna.


 

Skip sem skráð eru í Reykjavík eru með mestan kvóta á fiskveiðiárinu 2009/2010, eða 14% kvótans miðað við þorskígildi. Vestmannaeyjar eru í öðru sæti með tæp 11% kvótans og Grindavík í því þriðja með tæp 10%.


 

Smábátum sem stunda atvinnuveiðar og eru aðilar að Landssambandi smábátaeigenda (LS) fækkaði milli áranna 2004 og 2008 úr 1.063 í 657. Fækkunin nemur 406 bátum eða um 38%.


 

Krókaaflamarksbáturinn Ragnar SF gerði það heldur betur gott á nýliðnu fiskveiðiári. Heildaraflinn er 1.329 tonn og verður hann eflaust aflahæsti smábáturinn á árinu. Afli bátsins í ágúst var 218 tonn í 24 róðrum og hásetahluturinn eftir því. Þessar upplýsingar koma fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.


 

,,Það er bara ein leið í stöðunni og hún er sú að láta Íslendinga hafa makrílkvóta,” segir Christian Olesen talsmaður samtaka danskra uppsjávarútgerða. ,,Auðvitað mun það hafa áhrif á okkar félagsmenn og alla aðra, en við teljum að betra sé að fórna 2% af kvótanum fyrir að hleypa Íslendingum inn en að láta þá eyðileggja veiðarnar með því að taka 20%.”


 

Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, vill að útgerðarfyrirtækin taki að sér að greiða sjómannaafslátt í stað ríkissjóðs. Hann býst ekki við því að sjómenn taki þessum tillögum fagnandi.


 

Heildarverðmæti grásleppuhrogna í ár er um 67% hærra en á vertíðinni í fyrra samkvæmt samantekt Landssambands smábátaeigenda. Frá þessu er greint í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Samkvæmt upplýsingum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, voru samþykktir makrílkvótar í NA-Atlantshafi alls 6.636.000 tonn á árunum 1987 – 1997 en áætluð veiði var 7.517.000 tonn. Þarna munar 881.000 tonnum. Veiðiráðgjöf ICES á árunum 1998 – 2007 var alls á bilinu 5.106.000-5.439.000 tonn en ICES áætlar að veiðin hafi á þessum tíma numið a.m.k. 6.470.000 tonnum. Þarna munar yfir einni milljón tonna.


 

Kvótaúthlutun nýs fiskveiðiárs hefur nú séð dagsins ljós. Fimm stærstu kvótahafarnir eru með 32% heildaraflaheimildanna, tíu stærstu með 51%, tuttugu stærstu með 67% og fimmtíu stærstu með 85% heildarkvótans.


 

Kvóta sem hafa leitt til víðtæks brottkasts ætti að afnema en takmarka frekar þá daga sem fiskiskip mega vera á sjó, að því er haft er eftir fiskveiðistjóra Evrópusambandsins á vef breska blaðsins Telegraph.


 

Ævintýralegur uppgangur í norsku laxeldi virðist engan enda ætla að taka. Gert er ráð fyrir að slátrað verði 840 þúsund tonnum af norskum eldislaxi á þessu ári sem er 11% aukning frá árinu á undan. Til samanburðar má nefna að úthlutaður kvóti í íslenskri lögsögu á nýbyrjuðu fiskveiðiári er 260 þúsund tonn í þorskígildum talið.


 

Fiskistofa hefur úthlutað alls 259.797 tonnum í þorskígildum talið nú í upphafi nýs fiskveiðiárs og er það tæplega 2,8% aukning frá 2008.


 

HB Grandi er langkvótahæsta útgerðin á Íslandi við upphaf nýs fiskveiðiárs sem hefst í dag. Kvóti fyrirtækisins í íslenskri lögsögu 25.033 þorskígildistonn (þíg) eða 9,62% af heild. Næst á eftir kemur Brim með 17.402 þorskígildistonn eða 6,69% af heild.


 

Verð á sjófrystum ufsa hefur lækkað, bæði á alaskaufsa sem vottaður er af MSC og tvífrystum ufsa frá Kína. Kaupendur halda að sér höndum og bíða og sjá hvað verða vill, að því er fram kemur á vef IntraFish.


 

Aðildarþjóðir FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hafa náð samkomulagi um aðgerðir til þess að draga úr ólöglegum veiðum í heiminum. Þetta er fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem sérstaklega tekur á þessu vandamáli.


 

„Kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum er samnefnari þeirra framfara sem orðið hafa í fiskveiðum og stjórnun þeirra,“ sagði dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands,  m.a. í erindi sínu á ráðstefnu um skilvirka fiskveiðistjórnun sem lauk í Reykjavík fyrir helgina.
SKIPASKRÁ /