föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

janúar, 2010

 

Stjórnvöld í Perú eru bjartsýn á að verð á fiskimjöli muni haldast áfram í sögulegu hámarki en verðið fór í 1.700 dollara á tonnið á árinu 2009. Aðstæður séu hagstæðar á mörkuðum og gæði mjölsins batni stöðugt.


 

Aðeins 17% af þeim afla sem strandveiðibátarnir veiddu síðastliðið sumar fór til vinnslu í heimahöfn bátanna. Hitt var selt til vinnslu eða á markað utan löndunarhafnar.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur að tillögur Hafrannsóknastofnunar í dag ákveðið að heimila veiðar á 130.000 tonnum af loðnu, en þar af koma rúmar 90.000 þús. tonn í hlut íslenskra loðnuskipa samkvæmt ákvæðum samninga við önnur lönd um nýtingu loðnustofnsins við Ísland.


 

,,Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir. Þótt kvótinn sé lítill skiptir hann sköpum hvað manneldisvinnslu á loðnu varðar. Vonandi mælist svo meira síðar,” sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskfréttir um tillögu Hafrannsóknastofnunar um 130.000 tonna loðnukvóta.


 

Hafrannsóknastofnunin lagt til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að leyfilegur hámarksafli loðnu á þessari vertíð verði 130 þúsund tonn.


 

Bátasmiðjan Seigla hefur hafið smíði á stærsta plastfiskibáti sem smíðaður hefur verið á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Um er að ræða þriggja þilfara bát, lengd er 15 metrar, mesta breidd er 5,7 metrar og stærð nálægt 50 brúttótonn. Áætlaður kostnaður með öllum búnaði er um 200 milljónir króna.


 

 Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 1,1% í desember síðastliðnum samkvæmt útreikningum IFS greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í desember sem Hagstofan birti í morgun.


 

Skötuselur og koli eru þær tegundir sem hlutfallslega mest hefur verið flutt út óunnið í gámum síðustu árin en í tonnum talið er mest flutt út af ýsu í gámum, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Söluhorfur fyrir sjófrystan og landfrystan þorsk eru ágætar og verð hefur verið að styrkjast síðustu mánuðina eftir verulega niðursveiflu í kjölfar efnahagshrunsins, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag.


 

Breskar fjölskyldur velja nú þorsk í síauknum mæli í helgarmatinn um leið og verð á hefðbundnum fish and chips réttum hefur rokið upp, að því er fram kemur á vef The Guardian.


 

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú við mælingar á loðnu á hafsvæðinu úti af Norðausturlandi. Súlan EA fann loðnu austan við 16. gráðuna norður af Sléttu og er talið að þar sé á ferðinni loðnan sem mældist við ísröndina norður af Horni og Húnaflóa 6.-8. janúar síðastliðinn en hefur ekki sést síðan.


 

Landhelgisgæsla Íslands, Hollvinasamtök Óðins og Víkin Sjóminjasafnið fagna í dag 50 ára afmæli varðskipsins Óðins en skipið er nú hluti af Sjómannasafninu Grandagarði 8.


 

Reykjavík er sú höfn á landinu þar sem mestum bolfiskafla var landað á síðasta ári eða tæplega 95.000 tonnum. Næst á eftir kemur Grindavík sem er þó tæplega hálfdrættingur við höfuðstaðinn en þar voru 36.000 tonn af bolfiski lögð á land.


 

Þótt ekki séu miklar líkur á því að menn hreppi fyrsta vinninginn í lottó, eða aðeins 1 á móti 5,4 milljónum, er það samt ekkert á móti þeim lélegu möguleikum sem þorskseiði eiga til að komast á legg.


 

Skip HB Granda héldu til veiða á gulldeplu að nýju í gærkvöldi en þau hafa verið í höfn frá því í síðustu viku vegna brælu á miðunum. Nú eru veðurhorfur hins vegar ágætar og Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi, vonast til þess að aflabrögðin fari að glæðast því nú fari í hönd sá árstími sem gaf bestan afla á veiðunum í fyrra.


 

Það er ekki ofsögum sagt af verðmæti bláuggatúnfisksins. Fyrr í þessum mánuði seldist 232 kílóa túnfiskur á uppboði á fiskmarkaðnum í Tókío á rúmlega 16 milljónir yena eða jafnvirði 23 milljóna íslenskra króna.


 

Á næstu tveimur sólarhringum mun það væntanlega ráðast hvort meira er á ferðinni af loðnu en hingað til hefur mælst, það er að segja ef friður verður til rannsókna fyrir veðri. Loðnumæling undanfarna daga hefur ekki skilað neinni viðbót.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 95 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins 2009, samanborið við tæpa 80 milljarða yfir sama tímabil 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um 15 milljarða eða 19,2% á milli ára. Aflaverðmæti í októbermánuði nam 9,7 milljörðum króna miðað við 9,4 milljarða í október 2008.


 

Gylfi Þ. Gunnarsson, útgerðarmaður í Grímsey, er ómyrkur í máli í garð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra, vegna þeirra hugmynda um verndun grunnslóðar sem kynntar voru fyrir rúmri viku. Gylfi telur ráðuneytið hér beina spjótum sínum að veiðum með dragnót þótt nýleg rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar í Skagafirði sýni að áhrif dragnótaveiða á lífríki hafsbotnins séu ekki marktæk.


 

Bretar halda fish and chips menningu sinni hátt á lofti og velja árlega besta staðinn sem selur þennan þjóðarrétt þeirra. The Atlantic Fast Food fish-and-chips staðurinn í Glasgow í Skotlandi varð fyrir valinu að þessu sinni eftir harða samkeppni þátttakenda.


 

Fyrirtækið Stjörnu-Oddi ehf. hefur hannað nýjan mælibúnað sem opnar vísindamönnum möguleika á því að rannsaka far og stefnu fiska með tilliti til segulsviðs.


 

Um miðja vikuna var búið að tilkynna um löndun á um 11 þúsund tonnum af gulldeplu á yfirstandandi fiskveiðiári en 13 skip hafa stundað þessar veiðar.


 

Þrjár útgerðir, Ísfélag Vestmannaeyja, Síldarvinnslan og HB Grandi hafa yfir aðra helmingi kvótans úr norsk-íslensku síldinni á þessu ári.


 

„Almennur baráttufundur íbúa í Vestmannaeyjum, 21. janúar 2010, krefst þess að stjórnvöld falli þegar í stað frá áformum um svokallaða  fyrningarleið í sjávarútvegi, enda er hún í eðli sínu aðför að starfsgrundvelli fyrirtækja í sjávarútvegi og þar með að lífskjörum og atvinnuöryggi fólks sem í atvinnugreininni starfar," segir m.a. í ályktun sem samþykkt var á 350 manna fundi í Eyjum í gærkvöld, að því er fram kemur á vef Landssambands útvegsmanna.


 

Búist við frosti á leigumarkaði það sem eftir er af fiskveiðiárinu


 

Fullkomin saltfiskvinnslustöð, sem Vísir og Samherji stofnuðu í sameiningu í Cuxhaven í Þýskalandiu, vinnur saltfisk úr aðkeyptu hráefni og verður jafnframt dreifi- og þjónustustöð fyrir afurðir sem Vísir framleiðir á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. 


 

Ný og fullkomin flæðilína hefur verið tekin í notkun í fiskiðjuveri HB Granda í Norðurgarði. Nýja flæðilínan er frá Marel og nema fjárfestingar vegna kaupa á búnaði og nauðsynlegum breytingum og endurbótum vegna uppsetningar línunnar um 200 milljónum króna, því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.


 

-- nýttu aðeins helming loðnukvótans vegna söluerfiðleika


 

Á þessu ári verða þau tímamót í fiskeldi í Noregi að framleiðslan fer yfir eina milljón tonna í fyrsta sinn. Þar af er gert ráð fyrir að eldislax verði 930 þúsund tonn, eldisurriði 65 þúsund tonn og eldisþorskur 18 þúsund tonn.


 

Samtök danskra fiskframleiðenda skjóta nú föstum skotum að frændum sínum Norðmönnum og saka þá um hræsni í afstöðu til stjórnunar á veiðum á makríl og hrossamakríl, að því er fram kemur á vef IntraFish.


 

,,Loðnuskipið Súlan EA hefur að undanförnu verið að kanna grunnslóðina norður á Rifsbanka en ekkert fundið. Hún mun væntanlega einnig skoða svæðið þar vestur af þangað til brælir. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson liggur hins vegar inni á Reyðarfirði og mun fara út á ný á fimmtudagskvöld, ef veður leyfir.”


 

Norðmenn fá að veiða meira af karfa og grálúðu í lögsögu Grænlands á þessu ári en í fyrra samkvæmt fiskveiðisamningi milli Noregs og Grænlands sem gengið var frá í lok síðustu viku að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.


 

Á síðasta ári veiddu íslensk skip 265.000 tonn úr norsk-íslenska stofninum og er þetta mesti afli úr norsk-íslenska stofninum síðan seint á síldarárunum miklu á 7. áratug síðustu aldar.


 

Í Chile, sem er næststærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum, stunda skipulögð glæpasamtök umfangsmikinn þjófnaður á laxi. Talið er að stolið sé laxi fyrir jafnvirði 6-7 milljarða íslenskra króna á ári.


 

Stjórnvöld í Kanada vinna nú hörðum höndum að því að vinna markaði fyrir selaafurðir í Kína. Með því ætla þeir að gefa Evrópusambandinu langt nef en sambandið bannaði innflutning á selaafurðum til ESB-ríkja á síðasta ári.


 

Myndi fólk hugsa sig um tvisvar áður en það pantaði sér máltíð af fiskstautum ef þeir væru nefndir sjókettlingastautar? Myndi sjókettlingafrauð seljast vel á sjávarréttarstöðum? Væri lystugt að borða flak af sjókettlingi?


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að setja af stað verkefni þar sem kannaðir verði kostir þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er.


 

Sjávarútvegsráðuneytið í Indónesíu hefur úthlutað sem svarar 65 milljónum krónum íslenskum til að styðja framleiðslu á möðkum sem fóður í fiskeldi. Maðkarnir eiga að koma í staðinn fyrir fiskimjöl sem keypt er dýrum dómi frá Chile.


 

Þegar rúmur þriðjungur er liðinn af fiskveiðiárinu eiga krókaaflamarksbátar aðeins eftir að veiða  tæp 3000 tonn af veiðiheimildum sínum í ýsu, sem svarar til þess að um þrír fjórðu þeirra hafi nú þegar verið nýttar.


 

,,Íslensk þjóðfélag hefur tapað tugum milljarða á fávisku ríkisstjórnarinnar í sambandi við sjávarútvegsmál og þá eigum við við makrílveiðarnar, strandveiðarnar þar sem vinna var tekin af alvöru sjómönnum, og litlar loðnuveiðar,” segir í harðorðri ályktun stjórnar Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum. 


 

Í Chile stendur nú yfir smíði tveggja uppsjávarskipa fyrir Ísfélag Vestmannaeyja. Fyrra skipið verður afhent í lok þessa árs og um þessar mundir er verið að setja niður aðalvélina. Jafnframt er byrjað á seinna skipinu en afhending þess verður einu ári síðar.


 

„Samfélagsleg ábyrgð er það leiðarljós sem Landssamband íslenskra útvegsmanna fylgir í baráttu sinni gegn því að áform ríkisstjórnarinnar um að fyrna afheimildir sjávarútvegsfyrirtækja nái fram að ganga. Orð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem höfð voru eftir honum fyrr í viðtali við Bylgjuna og síðar á visir.is, um hið gagnstæða eru því öfugmæli," segir í yfirlýsingu sem LÍÚ hefur sent frá sér.


 

Því er spáð í alþjóðlegri skýrslu um mjölmarkaðinn að framleiðslan minnki og verð hækki, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Ráðstöfunarfé Hafrannsóknastofnunarinnar á nýbyrjuðu ári minnkar að raungildi um 230 milljónir króna. Samdrátturinn mun meðal annars hafa þau áhrif að úthald rannsóknaskipanna verður í lágmarki. 


 

Nú þegar harðnar á dalnum hjá breskum neytendum hafa þeir snúið sér í æ ríkari mæli að frosnum matvörum, þar með talið frystum sjávarafurðum.


 

Síldveiðar Norðmanna gengu sérstaklega vel í fyrra og var alls landað 1,15 milljónum tonna af norsk-íslenskri síld og norðursjávarsíld í Noregi það ár. Þetta magn svarar til þess að unnt hefði verið að reiða fram síldarmáltíð fyrir rösklega fjóra milljarða manna eða tvo af hverjum þremur jarðarbúum.


 

Fiskaflinn í nýliðnum desembermánuði varð 58.000 tonn á móti 87.000 tonnum í sama mánuði árið áður. Samdrátturinn nemur um þriðjungi og stafar fyrst og fremst af samdrætti í síldarafla en botnfiskaflinn stóð nokkurn veginn í stað.


 

Alls mældust 360 þúsund tonn af loðnu í nýafstöðnum loðnuleiðangri Hafró, þar af mældist hrygningarstofninn 355 þús. tonn. Aflaregla við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Þetta er undir því magni og því leggur Hafrannsóknastofnunin til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu.


 

Íslensk skip hafa á fyrsta þriðjungi fiskveiðiársins veitt 58.500 tonn af þorski eða 39% af leyfilegum heildarafla. Á sama tíma í fyrra var heildarþorskaflinn 45.700 tonn og nýtingarhlutfallið tæp 29%, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.                


 

Á tímabilinu janúar til nóvember 2009 námu brúttótekjur danskra fiskimanna rétt rúmum 2 milljörðum danskra króna (um 48 milljarðar ísl. kr.) sem er um 15% samdráttur miðað við árið þar á undan. Á sama tíma var landað 716 þúsund tonnum sem er 12% aflaaukning.


 

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson luku við loðnumælinguna umhverfis landið um miðnætti í nótt. Að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra á fyrrnefnda skipinu var unnið úr gögnunum í nótt og niðurstöður sendar Hafrannsóknastofnun í morgun.


 

Útflutningsverðmæti grásleppuafurða - saltaðra hrogna og kavíars var hærra en nokkru sinni á sl. ári.  Þegar mánuður var eftir af árinu höfðu verðmætin aukist um 920 milljónir miðað við allt árið 2008, sem var einnig mjög gott ár.  


 

Írskir vísindamenn kynna sér nú þekkingu sjómanna - sem eru ekki alltaf sammála fiskifræðingum frekar en íslenskir sjómenn - í viðamikilli rannsókn sem nú stendur yfir.


 

,,Það er mjög rólegt yfir þessu og veiðin er mun minni en á sama tíma í fyrra. Þá hefur skipum á veiðunum fjölgað og svæðið, sem veitt er á, er ekki mjög stórt og þolir illa allan þennan fjölda,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann um gang mála á gulldepluveiðunum á heimasíðu HB Granda.


 

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru nú óðum að loka hringnum í leiðöngrum sínum réttsælis og rangsælis um landið. Ennþá hefur ekki fundist neitt af loðnu sem byggjandi er á, að sögn Þorsteins Sigurðssonar sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun.


 

Gott verð hefur verið á íslensku fiskmörkuðunum í upphafi nýs árs. Þannig komst þorskverð hæst upp í 390 kr/kg í síðustu viku og ýsuverð upp í 330 kr/kg, eins og fram kemur í samantekt Landssambands smábátaeigenda.


 

Bernskan ehf. á Súðavík hefur sett á markaðinn beitningarvél fyrir pokabeitu. Vélin er aðlöguð að Mustad beitningarvélinni og gerir í fyrsta sinn kleift að beita með pokabeitu sjálfvirkt úti á sjó, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Veruleg fækkun varð á beiðnum um undanþágu frá skipstjórnar- og vélstjórnarréttindum til sjós á síðasta ári miðað við árið á undan. Þetta stafar að líkindum af því að fjöldi sjómanna, sem leitaði sér vinnu í landi í uppsveiflu efnahagslífsins, skilaði sér aftur til sjós þegar allt hrundi.


 

Icelandic Group seldi skömmu fyrir jól fiskvinnslufyrirtækið Jeka Fish A/S í Lemvig á Vestur-Jótlandi í Danmörk. Kaupandinn er eignarhaldsfélag á vegum danska fjárfestingarsjóðsins Deltaq og tveggja Íslendinga og fyrrum eigenda, þeirra Halldórs Arnarsonar og Sighvats Bjarnasonar frá Vestmannaeyjum.


 

Skip þeirra sjö útgerða, sem skiluðu mestu aflaverðmæti á liðnu ári, fiskuðu fyrir 46 milljarða króna eða fimmtungi meira en árið áður, að því er fram kemur í samantekt Fiskifrétta. 


 

Að minnsta kosti 28 skip fiskuðu fyrir meira en einn milljarð króna á árinu 2009 og hafa ekki áður orðið fleiri, að því er fram kemur í samantekt Fiskifrétta. Á árinu 2008 fóru 24 skip yfir milljarðinn.


 

Sala á fiskmörkuðum landsins gekk vel á síðasta ári. Verðmætin hafa aldrei verið meiri og magnið með því mesta sem þekkist undanfarin ár, að því er fram kemur í úttekt í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Færeyska skipið Fagraberg landaði um 3.000 tonnum af kolmunna til bræðslu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hf. í gær.  Kolmunnann fékk Fagrabergið suður af Færeyjum og er þetta fyrsti aflinn sem berst til bræðslu á Norðfirði á nýju ári.


 

Sjávarútvegsráðuneytið hefur bætt sjö þúsund tonnum við áður útgefinn kvóta 40.000 tonna kvóta úr íslenska sumargotssíldarstofninum. Veiðar á þessari viðbótarúthlutun skulu skipulagðar í samvinnu við Hafrannsóknastofnun í því skyni að kanna með sýnatökum ástand síldarstofnsins.


 

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 0,4% í nóvember síðastliðnum. Þetta byggir á  útreikningi IFS-greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í nóvember sem Hagstofan birti í morgun.


 

Sjö uppsjávarveiðiskip hafa stundað veiðar á gulldeplu nú eftir áramótin og hefur veiðin verið treg og farið rólega af stað eftir áramótin að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda áheimasíðu fyrirtækisins. Hann segir menn nú bíða spennta eftir niðurstöðum loðnuleitar á vegum Hafrannsóknastofnunar.


 

Nordic Naturals, einn stærsti framleiðandi í heimi á omega-3 afurðum, kynnti á dögunum alveg splunkunýja afurð sem er lýsisdrykkur með appelsínubragði. Drykkurinn inniheldur meinholl efni svo sem eicosapentaenoic acid (EPA) and docosahexaenoic acid (DHA).


 

Innan Evrópusambandsins hefur músaprófið svokallaða verið hin opinbera, löggilta aðferð í þess að ganga úr skugga um hvort skelfiskur, svo sem ostrur og kræklingur, sé eitraður eða ekki.


 

Norðmenn fluttu út síldarafurðir fyrir um 4 milljarða króna á árinu 2009 sem jafngildir um 88 milljörðum íslenskra króna. Þetta er aukning um 263 milljónir norskar krónur eða 7% frá árinu 2008.


 

Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi á nýliðnu ári nam 44,7 milljörðum norskra króna eða jafnvirði 979 milljarða íslenskra króna. Þetta er sjötta árið í röð sem sett er met í útflutningsverðmæti sjávarafurða þar í landi.


 

Meðalverð á íslensku fiskmörkuðunum í desember síðastliðnum var 50% hærra en í desember 2008 eða rúmlega 283 krónur á kílóið samanborið við rúmlega 188 kr/kg. Þetta er 1,8% hærra en í nóvember 2009 en þá var meðalverðið 278 kr/kg.


 

Eldi á pangasius á Mekong Delta svæðinu í Víetnam mun vaxa í 2 milljónir tonna fram til ársins 2020 samkvæmt nýrri áætlun fyrir svæðið sem stjórnvöld hafa samþykkt.


 

,,Ríkisstjórn Íslands er búin að setja í sjávarútveginn í uppnám, sjómenn eru sárir, reiðir og finnst sem þeir séu sviknir. Að svíkja fólk er ávísun á það að það fólk sem svikið er svari fyrir sig,” segir í frétt af fjölmennum samstarfsfundi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi og Sjómannafélagsins Jötuns, sem haldinn var 30 des. í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum.


 

Aflabrögð hjá togaraflota HB Granda voru með miklum ágætum á árinu sem nú er að líða. Alls nam afli togaranna tæplega 47.700 tonnum og aflaverðmætið var rúmir 9,3 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togaranna.


 

Ævintýralegur árangur náðist í norsku fiskeldi á árinu 2009. Hagnaður í greininni er talinn hafa numið um 5 milljörðum norskra króna eða jafnvirði yfir 100 milljarða íslenskra króna, að því er haft er eftir sérfræðingi DNB Nor Market á sjávarútvegsvefnum Intrafish.
SKIPASKRÁ /