föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

nóvember, 2010

 

Túnfiskveiðiráð Atlantshafs ákvað í gær lítilsháttar skerðingu á veiðikvóta bláuggatúnfisks fyrir næsta ár. Kvótinn í ár er 13.500 tonn en verður 12.900 tonn á næsta ári.


 

Eitt af stærstu verkefnum norsku ríkisstjórnarinnar, fríverslunarsamningurinn  við Kína, kann að vera í hættu vegna ákvörðunar norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar um að veita kínverskum andófsmanni friðarverðlaun Nóbels.


 

Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að lækka verð á slægðri og óslægðri ýsu, sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seld til skyldra aðila, um 5%. Verð þetta gildir frá og með deginum í dag, 1. desember 2010.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að Ísland taki sér óbreytta hlutdeild í makrílveiðunum á næsta ári, að teknu tilliti til aukningar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Ísland mun jafnframt beina því til hinna strandríkjanna að taka tillit til þessa við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar fari ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 91 milljarði króna á fyrstu átta mánuðum ársins 2010 samanborið við tæpa 77 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um 14 milljarða eða 18,2% á milli ára.


 
Fiskifréttir
29. nóvember 2010

Tímamót hjá MSC

Tímamót urðu í starfsemi The Marine Stewardship Council (MSC) nýlega þegar 100. fiskveiðarnar voru vottaðar samkvæmt staðli MSC um sjálfbærar veiðar og góða stjórn fiskveiða.


 

Fiskistofa hefur lokið álagningu gjalds vegna ólögmæts afla strandveiðibátaá síðustu vertíð og nemur það samtals tæplega 11 milljónum króna. Álagningarnar eru 632 talsins. Gjaldið rennur í Verkefnasjóð sjávarútvegsins.


 

 ,,Markaðshorfur hafa oft verið betri en að vísu er fullsnemmt að segja til um það. Mikið framboð var af loðnuafurðum á síðustu vertíð, ekki síst frá Noregi en einnig frá Rússum,“ segir Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood ehf., í samtali við Fiskifréttir er hann var spurður um markaðshorfur fyrir loðnuafurðir á komandi vertíð.


 

Hægt er að auka gæði togaraþorsks verulega með því að halda honum lifandi um borð þangað til hann er slægður. Þetta er niðurstaða athugunar sem rannsóknastofnunin Nofima í Noregi og norska hafrannsóknastofnunin stóðu fyrir nýlega um borð í hafrannsóknaskipinu G.O Sars.


 

Síldveiðum skipa HB Granda er lokið á þessu ári en Lundey NS er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með síðasta farm vertíðarinnar, um 800 tonna afla. Í morgun var lokið við að landa úr Faxa RE á Vopnafirði en aflinn í síðustu veiðiferð skipsins á síldveiðunum var um 900 tonn.


 

Saltfiskmarkaðir erlendis hafa verið nokkuð stöðugir á árinu 2010. Þó urðu smávegis verðhækkanir í september, um 3-5%, í ljósi lítilla birgða í einstaka afurðaflokkum, að því er Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood ehf., segir í samtali við Fiskifréttir.


 

Fjórðungur þess fólks sem starfar í fiskvinnslu á Íslandi er með erlent ríkisfang. Óveruleg fækkun hefur orðið í hópi þessa fólks frá árinu 2008 til dagsins í dag, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Tíu fyrirtæki, stór og smá, stunda um þessar mundir eldi á þorski, þar af sjö á Vestfjörðum og þrjú á Austfjörðum. Um 1.000 tonnum af eldisþorski hefur verið slátrað á ári síðustu fimm árin, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

HB Grandi er fjölþjóðlegur vinnustaður. Af 120 manns sem starfa við fiskvinnslu hjá fyrirtækinu í Reykjavík eru um 80% fólk af erlendum uppruna og koma frá 15 þjóðlöndum, að því er Bergur Einarsson, gæðastjóri hjá HB Granda, segir í samtali við Fiskifréttir.


 

Grænlendingar hafa bundið vonir við að þorskstofninn við Grænland muni eflast verulega með hlýnun sjávar en sá bati hefur látið á sér standa. Fiskifræðingar leggja áfram til að bein sókn í þorsk verði bönnuð til þess að stuðla að enduruppbyggingu stofnsins.


 

Víetnamar eru með stór áform um uppbyggingu í sjávarútvegi. Þeir stefna að því að flytja út um 1,6 milljónir tonna af sjávarafurðum árið 2015 að verðmæti 6,5 milljarða USD (728 milljarðar ISK) og 1,9 milljónir tonna árið 2020 að verðmæti 8 milljarðar USD (um 900 milljarðar ISK.)


 

Síldarvinnsla hófst að nýju í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði um klukkan 4 í nótt eftir að Ingunn AK hafði komið til hafnar fyrr um nóttina með um 750 tonna afla. Síldin er fersk og af góðri stærð eða rúmlega 300 grömm að jafnaði, að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra, í frétt áheimasíðu fyrirtækisins.


 

Grænlensk stjórnvöld hafa ákveðið að grálúðukvótinn við Austur-Grænland skuli aukinn úr 12.000 tonnum á þessu ári í 13.000 þúsund tonn á því næsta. Þetta er gert til þess að halda í við kvóta Íslendinga og Færeyinga og standa á sögulegum réttindum sínum, eins og það er nefnt.


 

Þjóðirnar sem liggja að Kasbíahafi ræða nú um að setja fimm ára bann við veiðum á styrju sem gefur hrognin í hinn eina og sanna kavíar. Hrogn styrjunnar eru gríðarlega verðmæt, eins og að líkum lætur, og hafa þjóðirnar freistast til þess að veiða styrjuna langt umfram það sem stofninn þolir til lengdar.


 

Brimberg ehf. á Seyðisfirði vinnur nú að skemmtilegu tilraunaverkefni sem er framleiðsla á fiskisósu í samstarfi við Gullberg ehf., Síldarvinnsluna hf. og Matís ohf., að því er fram kemur í Fiskifréttum.


 

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út 200 þúsund tonna loðnukvóta fyrir tímabilið 23. nóv. til 30. apríl n.k. Þar af fara um 139 þúsund tonn til íslenskra loðnuveiðiskipa en rúmlega 60 þúsund tonn til erlendra skipa samkvæmt milliríkjasamningum.


 

Kristina EA-410, uppsjávarveiðiskip Samherja hf., skilaði um 1,3 milljörðum króna í aflaverðmæti í sumar og haust, að því er Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, sagði í samtali við Fiskifréttir.


 

,, Það er léttir að þegar sé komin tillaga um byrjunarkvóta, þó lítill sé. Þá eru niðurstöðurnar varðandi ungloðnuna það jákvæðasta sem hefur komið út úr loðnurannsóknum mjög lengi og er það vissulega fagnaðarefni,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda ávef fyrirtækisins.


 

Krókaaflamarksbátar hafa veitt 4.513 tonn af ýsu það sem af er fiskveiðiárinu sem eru 47% af úthlutuðum heimildum. Alls hafa þeir bætt við sig 625 tonnum með því að leigja heimildir úr aflamarkskerfinu, en á sl. fiskveiðiári juku þeir ýsuheimildir sínar um alls 2.794 tonnum með leigu úr stærra kerfinu.


 

Sendiherra Nígeríu á Íslandi, Kemafor Nonyerem Chikwe, boðaði á dögunum til fundar með skreiðarseljendum og fulltrúum Íslandsstofu, í því skyni að vara við ólögmætum viðskiptaháttum með íslenska skreið.


 

Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2010/2011 verði samtals 200 þúsund tonn. Alls mældust í nýafstöðnum leiðangri um 36 milljarðar af loðnu sem gert er ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð. Þar af var fjöldi tveggja ára loðnu um 26 milljarðar, sem samsvarar um 490 þúsund tonnum. Einungis mældust tæp 20 þúsund tonn af þriggja ára og eldri loðnu.


 

Karfinn hefur verið í mikilli sókn síðustu þrjú árin að mati togaraskipstjóra. Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri Oddeyrinni EA segist aldrei hafa séð svona mikinn karfa á miðunum og telur fráleitt að kvótinn skuli hafa verið minnkaður í stað þess að auka hann.


 

Íslendingum er úthlutað 3.994 tonna þorskkvóta í rússneskri lögsögu í Barentshafi á næsta ári samkvæmt Smugusamningnum svonefnda. Auk þess hafa íslenskar útgerðir rétt á að leigja til sín 2.396 tonna þorskkvóta af Rússum.


 

Vestmannaey VE hefur undanfarin misseri stundað veiðar með sérhönnuðu trolli sem skilur þorskinn frá. Það kemur sér vel við ýsuveiðar þegar takmarka þarf meðafla í þorski, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Á næstu fimm árum munu danskar hafnir stækka sem aldrei fyrr. Áætlað er að hafnirnar verji um 5 milljörðum DKK eða rúmum 100 milljörðum ISK í uppbyggingu, að því er fram kemur í frétt á tv2.


 

Rækjustofninn í Barentshafi er í góðu ástandi og þolir mun meiri veiði en stunduð hefur verið á undanförnum árum.


 

Á tímabilinu janúar til september í ár var aflaverðmæti danskrar útgerðar tæpir 2,2 milljarðar DKK (um 45 milljarðar ISK) sem er 32% aukning miðað við sama tímabili í fyrra.


 

Veiðar á gulldeplu eru hafnar en tvö skipa HB Granda, Faxi RE og Lundey NS, fóru til veiða sl. laugardagskvöld.  Lítill afli hefur fengist þessa fyrstu daga vertíðarinnar en bræla hamlaði veiðum í gær og í nótt að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey NS.


 

Strandríkin í úthafskarfaveiðunum, Ísland, Færeyjar og Grænland, lögðu sameiginlega fram drög að ákvæðum um stjórn þessara veiða á ársfundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í síðustu viku en ekki náðist samkomulag á grunni þeirra.


 

Veiðar á villtum laxi í Alaska skiluðu 534 milljónum USD (60 milljörðum ISK) á þessu ári. Þetta eru mestu verðmæti í laxveiðum í 18 ár.


 

Heildaraflinn nam alls 83.000 tonnum í nýliðnum október samanborið við 67.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Þetta er 24% aukning milli ára sem stafar eingöngu af meiri uppsjávarafla, nánar tiltekið síld.


 

Á síðasta fiskveiðiári leigði íslenska ríkið út tæp 800 tonn af skötusel til fiskiskipa. Heildartekjur vegna leigunnar námu tæpum 96 milljónum króna að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Beitukóngsveiðar eru hafnar í Breiðafirði á þessu hausti og er einn bátur, Garpur SH frá Grundarfirði, á veiðum. Aflinn hefur verið þokkalegur, að því er Ásgeir Valdimarsson skipstjóri segir í samtali við Fiskifréttir.


 

Hvaða áhrif hefur það á næringargildi eldisfisks að ala hann eingöngu á jurtafóðri í stað ætis úr sjávarríkinu? Þessari spurningu var leitast við að svara í rannsókn á vegum dönsku matvælastofnunarinnar og Danska tækniháskólans.


 

Tvö íslensk skip eru nú á leið til Belgíu þar sem þau verða rifin niður í brotajárn; skuttogarinn Óskar RE og togbáturinn Sigurður G.S. Þorleifsson SH, sem fékk nafnið Aðalvík SH um svipað leyti og honum var lagt, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Í fiskslógi er að finna efni sem nýta má til að framleiða verðmætar afurðir, meðal annars áburð fyrir plöntur og lýsi fyrir fiskeldi og gæludýr. Vinnsla á slógi í þessum tilgangi er að hefjast hjá Mar Biotech í Sandgerði að undangengnum miklum fortilraunum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. 


 

Rannsóknir sýna að enginn stofnerfðafræðilegur munur sé á humri eftir veiðisvæðum við Ísland að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.


 

Frystitogarar hafa sótt grimmt í litla karfa að undanförnu og nemur aflinn það sem af er árinu 2010 um 2.300 tonnum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Litli karfi er einn fárra nytjafiska sem eru utankvóta en hann hefur lítið sem ekkert verið veiddur undanfarin ár.


 

Nýjar rannsóknir við háskólann í Tromsö í Noregi hafa leitt í ljós að lýsi sem unnið er úr rauðátu er ekki aðeins ríkt af omega-3 fitusýrum heldur inniheldur það einnig efni sem vinna gegn offitu og fylgifiski hennar sem er sykursýki 2.


 

Stuðningur við svokallaða samningaleið í sjávarútvegi vex og nú eru 57,4% kjósenda fylgjandi því að hún verði farin. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem fyrirtækið Markaðs- og miðlarannsóknir, MMR, vann fyrir LÍÚ dagana 3. -5. nóvember sl. Í sambærilegri könnun sem unnin var í byrjun október mældist fylgi við samningaleiðina 51,7%.


 

Uppsjávarfiskar berjast hart um fæðuna í Norðurhöfum og í ljós hefur komið að síld og makríll standa sig vel en kolmunninn hefur tapað baráttunni um “brauðið”. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri doktorsritgerð norsks fiskifræðings.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur í dag undirritað tvær reglugerðir sem fela í sér aukningu aflamarks til stuðnings minni byggðarlögum á fiskveiðiárinu 2010/2011.


 

Ný og spriklandi fersk rauðspretta fer í miklum mæli í dýrafóður í Danmörku vegna þess að hún nær ekki lágmarksverði. Nokkrir úttgerðarmenn á Jótlandi hafa fundið svar við þvi. Þeir selja umhverfisvottaða rauðsprettu til Hollands og fá miklu betra verð, að því er fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins.


 

Stóru skosku uppsjávarskipin skila ævintýralegu aflaverðmæti á makrílveiðum. Þanig hefur skipið Alter frá Skotlandi fiskaði fyrir jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna á tveimur mánuðum eða fyrir vel yfir einn milljarð á mánuði.


 

Til skamms tíma var talið að vinnuafl í sjávarútvegi í Kína væri sem næst óþrjótandi auðlind en annað er að koma á daginn.


 

Aflakvótakerfi er algengasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum og kvótaréttindum er nánast alltaf úthlutað til þeirra sem í greininni starfa. Þá er sérstök skattlagning á fiskveiðar afar sjaldgæf og uppboð á kvótum sömuleiðis.


 

Lán sjávarútvegsfyrirtækja standa einna best í útlánasafni Íslandsbanka. Sjávarútvegurinn skuldar 130 milljarða í bankanum.


 

Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands í makrílviðræðunum, væntir þess að ESB og Noregur komi fram með raunhæfari tillgögur en áður um hlutdeild Íslands í veiðunum á fundi strandríkja í næstu viku. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Hafrannsóknastofnunin leggur til að kvóti íslensku sumargotssíldarinnar á yfirstandandi vertíð fari ekki yfir 40.000 tonn. Fyrir nokkrum var gefinn út 15.000 tonna byrjunarkvóti þannig að viðbótin nemur 25.000 tonnum.


 

Ljóst er að árið í ár verður enn eitt metárið í útflutningi sjávarafurða frá Noregi. Nú þegar, þótt enn séu eftir tveir mánuðir af árinu, er verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi meira en á öllu árinu 2009 sem þó var metár.


 

Sjálfbærar ýsuveiðar gætu orðið snar þáttur í markaðssetningu hjá fish and chip stöðum í Bretlandi þar sem skoskar ýsuveiðar hafa hlotið vottun í samræmi við staðla MSC.


 

Færeyska línuskipið Stapin FD 32 landaði nú á dögunum um 78 tonnum af bolfiski í heimahöfninni Toftir. Skipið var að veiðum suður af Íslandi en nokkur færeysk skip hafa heimild til að veiða ákveðið magn hér við land.


 

Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að lækka verð á karfa, sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila, um 7%.  Verð þetta gildir frá og með deginum í dag,  1. nóvember 2010.
SKIPASKRÁ /