föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

desember, 2010

 

Þrátt fyrir samdrátt í aflakvótum þá verður ekki annað sagt en að áhafnir togara HB Granda hafi staðið fyrir sínu á árinu sem er að líða. Heildarafli togaranna, sem eru átta talsins, er samtals rúmlega 51.500 tonn að verðmæti rúmlega 11,3 milljarða króna og er þá miðað við FOB verðmæti. Til samanburðar má nefna að á árinu 2009 var heildarafli togaranna rúmlega 47.000 tonn og aflaverðmætið var þá rúmlega 9,3 milljarðar króna (FOB). HB Grandi gerir út fimm frystitogara og afli þeirra jókst úr tæplega 31.900 tonnum í tæplega 33.800 tonn á milli ára. Aflaverðmætið jókst á sama tíma úr um 7,5 milljörðum króna í tæplega 8,6 milljarða króna eða um 16%. Ef litið er á einstaka togara þá kemur í ljós að Þerney RE er aflahæsti frystitogarinn með samtals tæplega 7.600 tonn. Venus HF er hins vegar það skip í þessum flokki sem skilaði mestu aflaverðmæti eða tæplega 1,9 milljarði króna. Á síðasta ári var Þerney með mestan afla, 6.761 tonn en Örfirisey RE skilaði þá mestum verðmætum eða rúmlega 1,5 milljarði króna. Í flokki ísfisktogaranna þá er Ásbjörn RE fremstur meðal jafningja. Heildaraflinn var tæplega 6.400 tonn og aflaverðmætið 926 milljónir króna. Á árinu 2009 var Ottó N. Þorláksson RE hins vegar með mestan afla og hæsta aflaverðmætið.


 

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi. Breyting þessi er unnin í samvinnu við Landsamband smábátaeigenda og er meðal annars tengd árangri sem náðst hefur í markaðsstarfi með hrognkelsahvelju til matvæla og annarar framleiðslu. Breytingin tekur gildi 1. janúar 2012 og þannig gefst ein grásleppuvertíð til aðlögunar. Fyrirtækið Tríton sem starfar bæði í Reykjavík og á Akranesi hefur undanfarin tvö ár flutt grásleppu út til Kína þar sem hún er seld til betri veitingahúsa og elduð ýmist með eða án hveljunni.


 

Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækin Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottorð þessa efnis voru formlega afhent í  Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í gær.


 

Lokið er AVS-verkefninu „veiði, vinnsla og útflutningur á lifandi kúfskel“ sem unnið hefur verið af Ísfélagi Vestmannaeyja hf. á Þórshöfn og Matís ohf. Markmið verkefnisins var að þróa veiðar, vinnslu, geymslu, pakkningar,flutning og markaðssetningu á lifandi kúfskel fyrir Evrópumarkað. Allir þættir verkefnisins gengu vel nema markaðsmálin en neytendur í Evrópu eru of íhaldssamir fyrir íslenska kúffiskinn.


 

Frá stofnun AVS rannsóknasjóðsins árið 2003 hafa á sjötta hundruð styrkir verið veittir til rannsókna í sjávarútvegi og hefur sjóðurinn lagt tæpa tvo milljarða króna til þessara rannsóknaverkefna, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins.


 

Heilsusamleg áhrif af omega-3 fitusýrum í fiski glatast ef fiskurinn er steiktur. Þetta er niðurstaða nýrrar umfangsmikillar rannsóknar sem Emory háskólinn í Atlanta í Bandaríkjunum hefur gert.


 

Stjórn Landssambands smábátaeigenda hefur sent Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áskorun um að auka nú þegar leyfilegan heildarafla í ýsu um 20 þús. tonn, að því er fram kemur á vef LS.


 

Framleiðsla sjávarafurða í Kína mun nema um 54 milljónum tonna á þessu ári og aukast um 4,6% frá fyrra ári, samkvæmt tölum frá landbúnaðarráðuneytinu í Kína.


 

Norðmenn gætu lært það af Íslendingum hvernig á að hlusta eftir þörfum markaðarins. Þetta segir Yannick Forget-Dugaret, forstjóri stærsta framleiðanda og dreifingaraðila ferskra sjávarafurða í Frakklandi. Fyrirtækið Pomona, sem er með höfuðstöðvar sínar í Boulogne, rekur átján dreifingarstöðvar fyrir sjávarafurðir þar í landi. Frá þessu er greint á vef LÍÚ. 


 

Um þessar mundir eru 40 ár frá því að hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson kom nýtt til landsins. Í gegnum árin hefur skipið síðan þjónað fjölþættum rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar og reynst vel og giftusamlega við íslenskar aðstæður, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.


 

Áhöfnin á Goðafossi skipi Eimskipafélagsins var í gær heiðruð fyrir fyrir hetjulega framgöngu við slökkvistörf þegar eldur kom upp í skipinu 30. október síðastliðinn.


 

,,Þorskurinn er verðmætasta fisktegund okkar og því eru það afar jákvæðar fréttir að heildarvísitala þorsksins mældist 20% hærri en í fyrra," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um niðurstöður haustralls Hafrannsóknastofnunarinnar sem kynntar voru í vikunni, að því er fram kemur á vef LÍÚ. Þá segir hann mjög mikilvægt að vísitölur fyrir eins árs og tveggja ára þorsk, þ.e. árganganna frá 2008 og 2009, mældust þær hæstu frá því að stofnmælingar að hausti hófust árið 1996. Þessir árgangar koma inn í viðmiðunarstofninn 2012 og 2013.  


 

Vetrarríkið í Bretlandi síðustu vikurnar hefur ekki aðeins haft slæm áhrif á flug og fótbolta heldur einnig á fisksölu, að því er fram kemur á heimasíðu Ramma hf.


 

Sjávarútvegsráðherra undirritaði í dag reglugerðir um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2010/2011. Reglugerðirnar eru sambærilegar reglugerðum síðustu fiskveiðiára í öllum aðalatriðum en heildarúthlutunin nemur 4.564 tonnum sem er um 17% aukning frá fyrra fiskveiðiári þegar heildin var 3.885 tonn.


 

Samkvæmt haustralli Hafrannsóknastofnunar eru vísbendingar um að þorskstofninn sé að styrkjast. Vísitala ársgamals þorsks, þ.e. árgangsins frá 2009 mældist sú hæsta frá því að stofnmælingar að hausti hófust árið 1996.


 

Þverrandi þorskveiði í hafinu í kringum Skotland er að hluta til því að kenna að sumarhiti sjávar hefur hækkað og skilið fiskinn eftir með of lítið fæðuframboð, samkvæmt niðurstöðum úr nýlegum rannsóknum.    Hækkandi hiti hefur dregið verulega úr svifi sem er undirstaða fæðukeðjunnar í hafinu. Þrátt fyrir útbreidda skoðun um að hnignun þorskstofnsins megi rekja til áratugalangrar ofveiði gera vísindamennirnir því skóna að niðursveifluna megi að hluta rekja til loftlagsbreytinga.   Vísindamenn við háskólann í Glasgow hafa varað við því að ef þessi þróun héldi áfram gæti hún haft umtalsverð áhrif, ekki aðeins á þorskstofninn heldur alla fæðukeðjuna í sjónum í heild.


 

Vilhelm Þorsteinsson EA, uppsjávarskip Samherja, eru búinn að veiða 50.000 tonn á þessu ári að verðmæti 3,3 milljarðar króna. Þetta er sannarlega Íslandsmet í aflaverðmæti.


 

Jólablað Fiskifrétta er komið út, stærra og efnismeira en nokkru sinni fyrr. Víða er leitað fanga, bæði hérlendis og erlendis.


 

Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur tilkynnt að loðnuveiðar norskra skipa í Barentshafi megi hefjast 20. janúar næstkomandi. Loðnukvóti Norðmanna verður 235.000 tonn, þar af fær hringnótaflotinn 200.000 tonn í sinn hlut en togaraflotinn 35.000 tonn.


 

Fiskveiðistjórnunarráðið í Norður-Kyrrahafi hefur lagt fram niðurstöður sínar varðandi veiðar á botnfiski í Beringshafi og við Aljútíneyjar. Aflamark í alaskaufsa og kyrrahafsþorski verður aukið verulega í kjölfarið á gríðarlegum vexti þessara stofna.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að makrílkvóti Íslendinga á næsta ári verði tæplega 147 þúsund tonn samanborið við 130 þúsund tonn á yfirstandandi ári.


 

Árið sem nú er senn á enda hefur verið einstaklega gjöfult fyrir skipverja á uppsjávarveiðiskipinu Berki NK og hafa þeir enn og aftur bætt aflaverðmæti sitt, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.


 

Á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins var 408 tonnum landað sem VS-afla samanborið við 386 tonn á fyrsta fjórðungi síðasta fiskveiðiárs. Stærstur hluti af andvirði aflans greiðist í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS-afli), að því er fram kemur á vef Fiskistofu.


 

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð um 400 tonna viðbótarúthlutun í sandkola. Fiskistofa hefur þegar úthlutað þessari viðbót.


 

Veiðar Íslendinga á þorski í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa hlotið vottun sem byggist á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi. Vottunin staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar, að því er fram kemur á vef LÍÚ.


 

Samkomulag hefur náðst milli aðila í Noregi um að lágmarksverð á loðnu sem landað er til manneldisvinnslu verði óbreytt á árinu 2011 frá því sem það var á síðustu vertíð. Verðið er 1,80 NOK (35 ISK) á kílóið, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.


 

Krókaaflamarksbátar hafa veitt rúmlega 57% af ýsukvóta sínum á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins samanborið við rétt um 50% í fyrra á sama tíma. Aflamarksskip hafa veitt tæp 20% ýsukvóta síns.


 

Fiskaflinn í nóvember síðastliðnum nam tæpum 84.000 tonnum samanborið við tæplega 86.000 tonn í nóvember 2010. Botnfiskaflinn stóð nánast í stað en uppsjávaraflinn, sem var nær eingöngu síld, minnkaði um 1.400 tonn


 

Møgster Havfiske í Noregi hefur selt nótaskipið Møgsterfjord ásamt kvótum fyrir 440 milljónir NOK, sem er um 8,4 milljarðar íslenskra króna. Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir skip og kvóta í Noregi, að því er fram kemur í FiskeribladetFiskaren.


 

Norðmenn og Íslendingar eru langstærstu fiskveiðiþjóðirnar á svæði ESB- og EFTA-ríkjanna. Á árinu 2008 var alls landað 8,2 milljónum tonna af fiski í þessum ríkjum, þar af komu 42% frá Noregi og Íslandi.


 

Atvinnuveiðar á makríl og þorski við Aljútaeyjar í Alaska verða takmarkaðar til að tryggja að sæljón fái nóg að éta.


 

Ísfisktogarinn Björgúlfur EA kom til heimahafnar á Dalvík í dag með fullfermi eða 115 tonn af fiski. Uppistaðan er þorskur sem fer beint til vinnslu í frystihúsinu á Dalvík.  Aflaverðmæti í túrnum eru rúmar 25 milljónir króna. 


 

Grænlensk stjórnvöld hafa aukið rækjukvótann við Vestur-Grænland um 10 þúsund tonn milli ára og verður hann 124 þúsund tonn á komandi ári. Það er fjögur þúsund tonnum meira en fiskifræðingar ráðlögðu.


 

Fulltrúar Noregs og Evrópusambandsins hafa náð samkomulagi um að skipta milli sín þeim makrílafla sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur ráðlegt að veiða á næsta ári. ESB fær 401.000 tonn og Norðmenn 183.000 tonn.


 

Vinnsla á þorski og ýsu fer að verulegu leyti fram á suðvesturhorni landsins, samkvæmt ítarlegri samantekt sem birtist í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.


 

Útgerðarfélagið Nesver ehf. á Rifi fékk nú á dögunum afhentan nýjan Cleopatra bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Báturinn hefur hlotið nafnið Tryggvi Eðvarðs SH og leysir hann eldri samnefndan bát af hólmi sem var mikill aflabátur. Að útgerðinni stendur Ásbjörn Óttarsson og fjölskylda en Arnar Laxdal Jóhannsson er skipstjóri.


 

Frystitogarinn Brettingur KE hóf veiðar á rækju á Flæmingjagrunni í síðasta mánuði og hefur landað afla úr fyrsta túrnum, 115-120 tonnum af iðnaðarrækju, í Kanada, að því er Magni Jóhannsson útgerðarmaður sagði í samtali við Fiskifréttir.


 

Nýsmíðaða togskipið Þórunn Sveinsdóttir VE, sem nú er verið að leggja lokahönd á í skipasmíðastöð í Danmörku, mun leggja af stað heim til Íslands 18. desember ef áætlanir standast, að sögn Sigurjóns Óskarssonar hjá Ósi ehf. í Vestmannaeyjum.


 

Börkur NK landaði í gær fyrsta loðnufarmi vertíðarinnar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, rúmum 400 tonnum.  Loðnan er átulaus og um 16% feit og hentar vel hvort heldur til frystingar á A-Evrópu eða til mjöl- og lýsisframleiðslu. 


 

Matvælastofnun, MAST hefur tilkynnt skoðunarstofum að stofnunin muni ekki fela faggildum aðilum framkvæmd eftirlits með sjávarútvegsfyrirtækjum frá og með 1. mars 2011.


 

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA fór í gær í gæslu- og hafíseftirlit fyrir Vestfirði. Kom þyrlan að ísrönd sem liggur milli Íslands og Grænlands til austurs.


 

Á fyrsta ársfjórðungi fiskveiðiársins er meðalverð á ýsu sem seld var á fiskmörkuðum óbreytt frá sama tíma í fyrra, eða 250 kr./kg.  Óverulegar breytingar eru á þorskinum, meðalverð er 322 kr./kg í ár en var 320 kr. sept.-nóv. 2009.


 

Þriggja manna áhöfn smábátsins Saga K var bjargað um borð í björgunarþyrlu norsku strandgæslunnar í dag þar sem báturinn var að sökkva um 30 sjómílur norðvestur af Slettnes í Finnmörku í Norður-Noregi.


 

Vísindamenn óttast að síld í Noregshafi svelti og að makríllinn leiti til Íslands í kjölfarið á hruni svifdýra, að því er fram kemur í norska ríkissjónvarpinu.


 

Miklar breytingar hafa orðið á dreifingu norsk-íslenskrar síldar, kolmunna og makríls í Noregshafi. Þetta ræðst að miklu leyti af breytingum á sjávarhita, að því er fram kom í erindi Ástu Guðmundsdóttur stærðfræðings á Hafrannsóknastofnun á málstofu Hafró á dögunum. Ásta varpaði fram þeirri spurningu hvort makríllinn væri að yfirtaka Noregshaf og ryðja burt kolmunnanum og einnig síld að hluta til.


 

Vísindamenn hafa fundið elsta steingerving af rækju sem uppgötvast hefur í heiminum. Rækjan er 360 milljóna ára gömul. Steingerfingurinn fannst í Oklahomaríki í Bandaríkjunum.


 

„Með aðferðum sem minna á galdraofsóknir hefur ráðherra sett útgerð og framtíðarrekstur fjölmargra dragnótabáta í fullkomið uppnám. Án nokkurs vísindalegs rökstuðnings hefur ráðherra gróflega mismunað útgerðum eftir tegund veiðarfæra," segir m.a. í ályktun aðalfundar Samtaka dragnótamanna sem haldinn var laugardaginn 27. nóvember.


 

Árni Bjarnason, forseti FFSÍ, segir að óvissa vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða veki mönnum ugg. Hann segir að boðuð leiga ríkisins á aflaheimildum sé aðför að kjörum sjómanna.


 

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið úr reglugerð um loðnuveiðar við Ísland á yfirstandandi loðnuvertíð. Heildarkvótinn er 200.000 tonn, þar af fá erlend skip 61.000 tonn.  


 

Samherji hf. hefur ákveðið að greiða starfsmönnum í landi 260 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 46 þúsund króna desemberuppbót. Þetta er í annað skiptið á árinu sem Samherji greiðir uppbót á laun.


 

,,Aflinn á rækjuveiðunum er afar lélegur. Það er mjög dapurt alls staðar,” sagði Jón Steingrímsson skipstjóri á Gunnbirni ÍS þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans í gær. ,,Það er helst að eitthvað sé hægt að nudda einhverju upp utan við Hraunið norðvestur úr Kolbeinsey en vestursvæðið er alveg dautt.”


 

Túnfiskveiðiráð Atlantshafs ákvað í gær lítilsháttar skerðingu á veiðikvóta bláuggatúnfisks fyrir næsta ár. Kvótinn í ár er 13.500 tonn en verður 12.900 tonn á næsta ári.


 

Eitt af stærstu verkefnum norsku ríkisstjórnarinnar, fríverslunarsamningurinn  við Kína, kann að vera í hættu vegna ákvörðunar norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar um að veita kínverskum andófsmanni friðarverðlaun Nóbels.


 

Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að lækka verð á slægðri og óslægðri ýsu, sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seld til skyldra aðila, um 5%. Verð þetta gildir frá og með deginum í dag, 1. desember 2010.
SKIPASKRÁ /