föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

apríl, 2010

 

Jarðskjálftarnir í Chile fyrr á þessu ári, sem m.a. ollu miklum skemmdum á fiskimjölsverkmiðjum þar í landi, hafa leitt til samdráttar í framboði á fiskimjöli á heimsmarkaði sem aftur hefur þrýst mjölverði upp í áður óþekktar hæðir. Chile er næststærsti útflytjandi fiskimjöls í veröldinni, næst á eftir Perú.


 

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 2,0% í mars síðastliðnum, samkvæmt útreikningi IFS Greiningar m.v. tölur um framleiðsluverð í mars sem Hagstofan birti í morgun.


 

Stefna stjórnvalda um innköllun aflaheimilda hefur lítið sem ekkert verið til umræðu nefndinni sem sjávarútvegsráðherra skipaði síðastliðið haust til þess að freista þess að ná samkomulagi um breytingar á fiskveiðistjórnuninni.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram tillögur sem lúta að verndun grunnslóðar í sjö fjörðum, Önundarfirði, Hrútafirði/Miðfirði, Húnafirði, Skagafirði og Seyðisfirði/Loðmundarfirði.    Í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu segir að þetta sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að takmarka veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð.


 

Sérferðir ehf í Reykjavík fengu nú í vikunni afhentan nýjan bát af gerðinni Cleopatra 50 sem Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði smíðaði. Báturinn hefur hlotið nafnið Rósin og er 30 brúttótonn að stærð.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 8 milljörðum króna í janúar 2010 samanborið við 7,3 milljarða í janúar 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um tæpar 700 milljónir eða 9% á milli ára.


 

Sprenging hefur orðið í gulllaxveiðum en gulllaxinn er utankvótategund. Í byrjun vikunnar var búið að veiða 13.300 tonn frá upphafi fiskveiðiársins samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Ef fram fer sem horfir stefnir í algert met í gulllaxveiðum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Ef stjórnvöld halda fast við stefnu sína um 20% aflareglu í þorskveiðum næstu fimm árin er allt útlit fyrir að þorskkvóti til aflamarks- og krókaaflamarksbáta verði skertur á næsta fiskveiðiári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. 


 

Yfir 20 þingmenn í bandarísku öldungadeildinni hafa hvatt stjórnvöld til að auka fiskveiðikvóta sem lið í neyðarráðstöfunum til að bjarga sjávarbyggðum.


 

Laxalús veldur tjóni í norsku laxeldi sem talið er nema sem svarar allt að 43 milljörðum íslenskra króna á ári. Reynt hefur verið að vinna bug á lúsinni með kemískum efnum en í seinni tíð hefur áherslan í auknum mæli beinst að því að losna við lúsina með því að láta annan fisk éta hana af laxinum.


 

Fiskneysla er að verða lúxus efnaðra Dana. Hátt fiskverð leiðir til þess að lægri tekjuhópar í Danmörku sneiða í vaxandi mæli hjá ráðleggingum matvælafræðinga um að borða fisk nokkrum sinnum í viku.


 

Sambandsstjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ)  telur með öllu óásættanlegt að fjársvelti  Landhelgisgæslu Íslands  hafi leitt til þeirrar skelfilegu staðreyndar að sjómenn sem fjær eru landi en 20 sjómílur geti ekki lengur stólað á hjálp í neyð.


 

Kanadísk stjórnvöld hafa tilkynnt að leyft verði að veiða 330.000 vöðuseli við austurströnd landsins sem er 50.000 dýra aukning frá fyrra ári. Talið er að vöðuselsstofninn séu nú í kringum 6,9 milljónir dýr og hefur hann þrefaldast að stærð síðan á áttunda áratug 20. aldarinnar.


 

Sjávarútvegssýningarnar European Seafood Exposition (ESE) og Seafood Processing Europe (SPE) hefjast í Brüssel í Belgíu í fyrramálið og munu þær standa yfir næstu þrjá dagana. Fjöldi íslenskra fyrirtækja tekur að venju þátt í sýningunum en meðal þeirra er HB Grandi sem tekið hefur þátt í ESE-sýningunni frá árinu 2005.


 

,,Togararallið er og hefur alltaf verið ónýtt til að mæla fisk á grunnslóð.  Svo dæmi sé tekið hafa veiðimenn við Breiðafjörð lýst meiri fiskgengd undanfarin tvö ár en til áratuga. Þessa sér engan stað á skýringarmyndum Hafrannsóknastofnunarinnar,” segir  í ályktun stjórnar Landssambands smábátaeigenda (LS).


 

Hratt hefur gengið á kolmunnakvóta HB Granda að undanförnu og nú eru aðeins óveidd um 3.000 tonn af kvóta ársins. Það samsvarar einni veiðiferð til viðbótar hjá tveimur af uppsjávarveiðiskipum félagsins.


 

Kínverjar sendu tvö fiskveiðiskip til veiða á ljósátu á Suðurheimsskautinu á vertíðinni í ár. Skipin veiddu um 2 þúsund tonn af ljósátu í 23 daga leiðangri sem er um 100 tonn á dag að meðaltali. Þetta er þrisvar sinnum meiri afli en upphaflega var gert ráð fyrir.


 

Spænski herinn hefur ákveðið að nota ómannaða þyrlu til þess að fylgjast með ferðum sómalskra sjóræningja í Indlandshafi sem herjað hafa á spænsk fiskiskip og skip frá öðrum löndum. Þetta er í fyrsta sinn sem Spánverjar beita slíkum aðferðum í viðureign sinni við sjóræningjana.


 

Truflun á flugsamgöngum í Evrópu í vikunni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur haft mikil áhrif á sushi-iðnaðinn í Japan. Hinn víðþekkti norski lax komst ekki á leiðarenda þangað en Japanir gátu bjargað sér fyrir horn með því að kaupa nýjan eldislax frá Nýja-Sjálandi.


 

Sýnt hefur verið fram á að mögulegt er að flytja út lifandi trollveiddan leturhumar frá Hornafirði til Suður-Evrópu. Mjög góður árangur hefur náðst við að halda humri lifandi um borð í veiðiskipum. Búast má við allt að þreföldu verði miðað við frosinn humar.


 

Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir agaleysi hafa ríkt í veiðistjórnun á þorski og að engar forsendur séu fyrir kvótaaukningu nú á miðju fiskveiðiári. Þetta kemur fram í viðtali við hann í nýjustu Fiskifréttum. 


 

Góður afli var í netarallinu fyrir sunnan og vestan land fjórða árið í röð, að því er fram kemur í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Dröfn RE hóf hrefnuveiðar í gær og er hún fyrsti báturinn sem fer af stað þetta vorið. Halldór Sigurðsson ÍS er jafnframt að gera sig kláran fyrir vestan og heldur til veiða í þessum mánuði. Þá er verið að undirbúa þriðja bátinn til veiða í Kópavogshöfn og verður hann væntanlega klár í slaginn í byrjun maí.


 

Hlaupvatnið vegna eldgossins í Eyjafjallajökli virðist hafa borist út á meira dýpi í stað þess að leggjast grunnt vestur með landi. Þetta bendir til þess að viðkvæmum hrygningarstöðvum stafi ekki hætta af hlaupvatninu enn sem komið er.


 

Sænsk náttúruverndaryfirvöld hafa gefið út leyfi til veiða á 230 selum í Eystrasalti í ár. Stofninn þar telur um 25 þúsund seli. Þetta er svipað magn og heimilt var að veiða í fyrra en þá voru 128 selir skotnir.


 

Tilkynnt verður í næstu viku á sjávarútvegssýningunni í Brüssel að veiðar á þorski og ýsu utan 12 sjómílna við Noreg hafi hlotið umhverfisvottun. Jafnframt býst norska fiskútflutningsráðið við því að veiðar á þessum tegundum innan 12 mílna hljóti sams konar vottun innan skamms.


 

Meira af kolmunnaafla Norðmanna fer nú í manneldisvinnslu en áður. Það sem af er árinu hefur 60.000 tonnum verið landað í slíka vinnslu samanborið við 25.000 tonn á öllu síðasta ári.


 

Áframeldi á þorski í Noregi er talið borga sig, að því er fram kemur í niðurstöðum athugana á vegum norsku fiskrannsóknastofnunarinnar.


 

Eftirspurn eftir grásleppuhrognum er mikil í ár og byrjunarverðið hærra en áður hefur þekkst. Birgðir eru engar hjá kavíarframleiðendum og þeir kappkosta að tryggja sér hráefni.


 

,,Við eigum ein sjö tonn af ferskum flökum á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að komast í flug en staðan er vægast sagt mjög óljós. Við erum í stöðugu sambandi við viðskiptavini okkar í Evrópu. Ef einhverjar glufur opnast þá munum við nýta þær, þ.e.a.s. ef kaupendurnir eru sáttir við þær lausnir sem í boði kunna að vera.”


 

Stofnvísitala ýsu lækkaði í nýafstöðnu togararalli um fjórðung frá mælingunni 2009 og er nú einungis rúmlega þriðjungur af meðaltali áranna 2003-2007 þegar hún var í hámarki. Lækkunin er í samræmi það að stóri árgangurinn frá 2003 er að hverfa úr stofninum og minni árgangar að koma í staðinn.


 

Samningafundinum um stjórn makrílveiða í NA-Atlantshafi, sem halda átti á Íslandi næsta mánudag og þriðjudag, hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna samgönguerfiðleika af völdum eldgossins.


 

Bráðabirgðastofnmat þorsks bendir til þess að stofnstærð þorsks í ársbyrjun 2010 sé nálægt fyrra mati, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun um niðurstöður togararallsins í ár.


 

,,Við stefnum að því að hægt verði að vinna makríl til manneldis hér í uppsjávarfrystihúsinu þegar veiðar á síld og makríl hefjast en fram að þessu hefur makrílaflinn farið til bræðslu. Með því að frysta makrílinn fyrir manneldismarkaði ætti að verða hægt að fá mun hærra verð fyrir afurðirnar því frystur makríll hefur selst á mjög háu verði,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri hjá HB Granda á Vopnafirði í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.


 

Ljóst er að sýking í íslensku síldinni veldur gríðarlegu tjóni. Gert er ráð fyrir að í fyrra og í ár drepist samtals um 350 þúsund tonn af síld af völdum sýkinnar. Áætla má að þetta magn af síld gæti skilað þjóðarbúinu um 25 milljörðum króna í útflutningstekjur.


 

Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð sem bannar makrílveiðar í net. Þetta gengur þvert á fyrri ákvörðun ráðuneytisins um að taka frá 3.000 tonna kvóta til veiða á makríl í net, á línu, handfæri og í gildrur og hafa allmargar útgerðir þegar keypt sér sérstök net til þessara veiða.


 

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fer í dag að ósum Markarfljóts til að kanna áhrifasvæði hlaupsins. Athyglin beinist að því hvað verði af efnum í hlaupvatninu bæði er varðar þau uppleystu og gruggið.


 

Nokkrar útgerðir áforma að hefja línuveiðar á skötusel í sumar og eru þegar byrjaðar að útbúa sig til veiðanna. Hingað til hefur bein sókn í skötusel einskorðast við netaveiðar en auk þess hefur skötuselur fengist sem meðafli í troll.


 

Sérstök fæðusamsetning sem byggist á fiski, ávöxtum og hnetum er líkleg til þess að draga úr hættunni á því að fólk fái óminnissjúkdóminn Alzheimer, samkvæmt nýjum rannsóknum sem kynntar voru nú í vikunni.


 

Norski selfangarinn Havsel er kominn í Vesturísinn, sem er svæðið langt norðan Íslands milli Jan Mayen og Grænlands. Havsel er eini báturinn sem stundar selveiðar á þessum slóðum í ár. Prýðisgott veður var á miðunum þegar báturinn kom þangað síðastliðinn sunnudag og var selur dreifður út um allt, að því er Björne Kvernmo skipstjóri tjáði Fiskeribladet/Fiskaren.


 

Botnfiskafli landsmanna dróst saman um tæp 12.000 tonn frá mars 2009 og nam 48.600 tonnum. Þar af nam þorskaflinn rúmum 21.600 tonnum, sem er samdráttur um 5.400 tonn frá fyrra ári. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands sem birtar eru í dag. 


 

Í heild voru fluttar út afurðir uppsjávarfisks frá Noregi fyrir um 2 milljarða NOK (tæpir 43 milljarðar ISK) á fyrsta ársfjórðungi 2010 sem er um 10% samdráttur miðað við sama tíma í fyrra.


 

Síðasta mánuðinn hefur verið ævintýraleg ýsuveiði á Tromsö-flakinu í Barentshafi. Yfir 40 togarar og línubátar hafa verið á svæðinu þegar flotinn hefur verið stærstur.


 

Fiskverð náði áður óþekktum hæðum í Grimsby í síðustu viku. Verð á ýsu fór upp í 5 pund á kílóið á fiskmarkaði á fimmtudeginum sem er um 972 krónur íslenskar, að því að fram kemur í Grimsby Telegraph. Daginn áður hafði ýsan selst á 2 pund eða 389 krónur íslenskar. Verðtoppur eins og varð á fimmtudaginn kemur mjög illa við fiskkaupmenn og sumir þeirra fóru tómhentir heim.


 

Þátttaka í hrefnuveiðum frá Noregi verður helmingi minni í ár en var á fyrstu árunum eftir að hvalveiðar í atvinnuskyni voru teknar upp á ný þar í landi árið 1993.


 

Leiðandi sjávarútvegsfyrirtæki í Perú stefna að verulegri fjárfestingu á næstu árum í endurnýjun á fiskiskipum og vinnslustöðvum og til að nútímavæða fiskiðnaðinn í landinu, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.


 

Aflaverðmæti nýafstaðinnar loðnuvertíðar í Noregi nam um 480 milljónum norskra króna eða jafnvirði 10,3 milljarða íslenskra, samkvæmt mati norsku síldarsölusamtakanna. Alls var norskum skipum leyft að veiða 245 þúsund tonn í Barentshafi.


 

Enn falla metin í útflutningi á sjávarafurðum frá Noregi. Á fyrsta ársfjórðungi 2010 voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 12,4 milljarða NOK (268 milljarðar ISK) sem er um 18% aukning frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.


 

Kórallar í öllum regnbogans litum blöstu við þegar olíuborpallur úr Norðursjó var dreginn inn til Harðangursfjarðar í Noregi, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.


 

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á hinu svokallaða ,,gráa svæði“ á lögsögumörkum Færeyja og Skotlands. Skipin létu úr höfn eftir páskahátíðina en um tveggja sólarhringa sigling er á miðin. Ekki fer miklum sögum af aflabrögðum og svo virðist sem að kolmunninn sé enn ekki genginn norður úr skosku lögsögunni, að því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.


 

Salan fer yfir 3 milljarða í einum mánuði í fyrsta sinn


 

Mikill áhugi er hjá skipum og bátum að hefja veiðar á makríl í net. Um tugur báta að minnsta kosti hefur hug á þessum veiðum, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, hefur staðfest að ef ekki náist samkomulag um stjórn veiða úr makrílstofninum á fundi strandríkjanna á Íslandi nú í aprílmánuði muni hann setja einhliða makrílkvóta fyrir færeyska lögsögu. Þetta kemur fram í Fiskifréttum í dag og er vísað í sjávarútvegsvefinn Intrafish.


 

Veiðiheimildir á snjókrabba í St. Lawrence-flóa í Kanada hafa verið skornar harkalega niður á þessu ári vegna friðunaraðgerða stjórnvalda, að því er fram kemur á vef The Guardian.


 

Veiðar á sandsíli í Norðursjó hefjast brátt og sjómenn búast við góðri vertíð, að því er fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins.


 

Verð sjávarafurða i erlendri mynt hefur síðustu misseri verið í hægu hækkunarferli frá og með öðrum fjórðungi 2009. Nú hefur verðið hins vegar lækkað tvo mánuði í röð. Verðið nú er 3,4% hærra en fyrir 12 mánuðum mælt í erlendri mynt. Tölurnar undanfarna mánuði sýna að aðstæður á mörkuðum erlendis eru að ná betra jafnvægi.


 

,,Umræðan um vistvænar veiðar er á villigötum. Málið er ekki svo einfalt að hægt sé að fullyrða að krókaveiðar séu vistvænar en trollveiðar óvistvænar," segir Hjörtur Gíslason stjórnarformaður togaraútgerðarfélagsins Ögurvíkur í viðtali við páskablaði Fiskifrétta.


 

Töluverður áhugi er hjá mörgum útgerðum, sem ekki hafa stundað makrílveiðar hingað til, að blanda sér í slaginn í sumar. Veiðarfæraframleiðendur sem Fiskifréttir hafa rætt við upplýsa að þeim hafi borist fyrirspurnir frá mörgum útgerðum sem séu að hugleiða að útbúa sig á makrílveiðar í fyrsta inn. Um sé að ræða bæði frystitogara og báta.


 

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að fyrningarleiðin sem ríkisstjórnin hefur boðað sé ekki góð fyrir sjómenn. Þetta kemur fram í viðtali við Sævar í páskablaði Fiskifrétta.
SKIPASKRÁ /