þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

maí, 2010

 

Dagróðrarbátar með landbeitta línu fá 20% línuívilnun frá og með 1. júní í stað 15% áður, samkvæmt nýrri reglugerði sem sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út. Sú nýbreytni hefur einnig verið tekin upp að bátar með línu sem stokkuð er í landi fá nú 15% línuívilnun í fyrsta sinn.


 

Enginn árangur varð af samningaviðræðum í London um helgina um stjórn veiða úr makrílstofninum, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna. Fundinn sóttu fulltrúar strandríkjanna sem hlut eiga að máli, Noregs, Íslands, Evrópusambandsins og Færeyja, auk Rússlands.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 20,6 milljörðum króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2010 samanborið við 12,3 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um 4,5 milljarða eða 28% á milli ára.


 

Breskur sjávarútvegur nýtur góðs af sérstökum styrktarsjóði á vegum ESB, European Fisheries Fund (EFF). Bretar hafa fengið og munu fá alls um 38 milljónir punda, 7,2 milljarða ISK, úr sjóðnum á árabilinu 2007-2013.


 

Fimm íslensk skip eru nú að síldveiðum innan íslensku lögsögunnar, nánar tiltekið um 180 mílur norðaustur af Vopnafirði. Rólegt mun hafa verið yfir aflabrögðunum en skipin hafa þó verið að fá frá um 100 tonnum í holi og upp í um 200 tonn.


 

Fundur strandríkja um skiptingu makrílkvóta í Norðaustur-Atlantshafi hefst í London í dag og á að standa fram á sunnudag. Fundurinn átti upphaflega að vera í Reykjavík í apríl síðastliðnum en honum hefur tvívegis verið frestað vegna truflana á flugi af völdum öskunnar úr Eyjafjallajökli.


 

Sjávarútvegsráðuneytið hefur fellt úr gildi öll leyfi til gulllaxveiða frá og með 7. júní næstkomandi. Ástæðan er sú að aflinn á fiskveiðiárinu er orðinn meiri en Hafrannsóknastofnun telur ráðlegt að veiða.


 

  Skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja voru 543 milljarðar króna í lok ársins 2008. Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja námu á sama tíma samtals 22.675 milljörðum króna að því er kemur fram í Tíund, riti ríkisskattstjóra. Samkvæmt þessu voru skuldir sjávarútvegsfyrirtækja því 2,4% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja í árslok 2008.


 

Mikill áhugi er hjá útgerðarmönnum að senda frystitogara á makrílveiðar í sumar. Óvíst er þó hve margir togarar fara á þessar veiðar þar sem svo lítið kemur í hlut hvers og eins, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. 


 

Skipstjórar segja að gríðarmikið af þorski gangi frá Grænlandi til Íslands til hrygningar snemma árs og svo til baka aftur um þetta leyti .


 

Hrefnuveiðibáturinn Hrafnreyður KÓ er nú búin að veiða sex hrefnur á vertíðinni. Báturinn landar í dag í Kópavogi tveimur hrefnum sem teknar voru í Faxaflóa í gær. Dýrin fara beint í vinnslu Hrefnuveiðimanna ehf. þar í bæ.


 

Sjávarútvegur í Noregi skapar því sem næst jafnmikil verðmæti á öðrum sviðum samfélagsins og í eigin greinum. Þannig leiðir hver króna, sem verður til hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, til 95 aura verðmætasköpunar annars staðar. Þessi margfeldisáhrif eru gríðarlega mikilvæg fyrir norskt samfélag ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.


 

Útflutningur á þorski frá Noregi til Bretlands hefur aukist að undanförnu samhliða því að dregið hefur úr framboði frá Íslandi, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com


 

Margar útgerðir horfa fram á gjaldþrot vegna öfgakenndra umhverfislaga að því er samtök útvegsmanna í Skotlandi fullyrða.


 

Einn af vaxtarbroddum íslensks sjávarútvegs er veiðar á sæbjúgum en slíkar veiðar hafa færst í vöxt hér við land á undanförnum árum. Eldi á sæbjúgum er ekki óþekkt erlendis, en nú hefur fyrirtæki á Filippseyjum sett á laggirnar eldisstöð þar sem sæbjúgu eru alin alveg frá klaki og upp í sláturstærð.


 

Byggðaráð Skagafjarðar styður hugmyndir Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um bann við dragnótaveiðum í Skagafirði. Sjómenn og útgerðarmenn dragnótaveiðibáta á Snæfellsnesi skora hins vegar á ráðherra að draga tillögur sínar til baka.


 

Stjórnvöld gætu haft í kringum 50 milljóna króna tekjur í sumar af því að leigja þorskkvóta sem erlendir túristar, aðallega Þjóðverjar, munu veiða hér við land á sjóstöng, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Hrefnuveiðar við Noreg hófust fyrir nokkru en fá dýr hafa verið skotin enn sem komið er. Borist hafa fregnir af góðri veiði við Svalbarða. Þar hefur aðeins einn bátur haldið sig fram að þessu en fleiri eru á leiðinni þangað.


 

Nú í vikunni lauk árlegum leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar á R/S Árna Friðrikssyni með það að markmiði að kanna útbreiðslu og magn kolmunna og norsk-íslenskrar síldar fyrir vestan, sunnan og austan land, ásamt umhverfismælingum. Leiðangurinn er hluti af sameiginlegri leit og bergmálsmælingum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Evrópusambandsins á útbreiðslusvæði þessara stofna, og eru niðurstöðurnar notaðar við mat á stærð stofnanna.


 

Frysting á kolmunna til manneldis um borð í íslenskum veiðiskipum hefur verið óvenjumikil á þessari vertíð, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Prýðisgóð veiði hefur verið á úthafskarfanum frá því að íslensku skipin hófu veiðar snemma í þessum mánuði, að því fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Svo til allan tímann hafa Íslendingarnir geta verið að veiðum einir og sér í næði innan íslensku lögsögumarkanna eða þar til fyrir 5-6 dögum að karfinn gekk vestur á bóginn og út úr landhelginni. 


 

Meirihluti kosningabærra íbúa í Grímsey hefur skrifað undir áskorun til sjávarútegsráðherra, þar sem skorað er á hann að draga til baka tillögur um lokun sjö fjarða á norðanverðu landinu fyrir dragnótaveiðum. Bent er á að þrír dragnótabátar séu gerðir út frá Grímsey og á þeim starfi 14-15 sjómenn. Frekari lokun veiðisvæða fyrir Norðurlandi komi því sérstaklega illa við útgerð þeirra.


 

Gera má ráð fyrir góðri nýliðun í humarstofninum á næstu árum samkvæmt fyrstu vísbendingum úr humarleiðangri en stofnstærðarmat liggur ekki enn fyrir, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Makríllinn er farinn að ganga inn í íslenska lögsögu á svipaðan hátt og í fyrra, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag. Norsk-íslenska síldin er einnig komin inn fyrir lögsögumörkin en mun minna mældist af henni nú en um þetta leyti á síðasta ári.


 

Norðursjór er í fararbroddi hafsvæða ríkja innan ESB varðandi uppbyggingu þorskstofnsins og fleiri fiskistofna sem taldir hafa verið í hættu, að því er fram kemur á fréttavefnumwww.fis.com


 

Ásjóna fótboltahetjunnar David Beckham prýðir umbúðir utan um fiskstauta og aðrar sjávarafurðir stórframleiðandans Young’s í Bretlandi nú í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu.


 

Stefnt er að því að Lundey NS fari til síldveiða eftir hvítasunnuhelgina eða um miðja næstu viku og í framhaldinu munu Faxi RE og Ingunn AK verða send til veiða að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda á heimasíðu fyrirtækisins.


 

„Þótt skýrsluhöfundar komi sér hjá því að segja það berum orðum dylst engum sem les skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri (RHA) að niðurstaða hennar er að fyrningarleiðin er ófær," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.


 

Samningaviðræðum um framtíðarskipulag makrílveiða hefur enn verið slegið á frest vegna gossins í Eyjafjallajökli.


 

Hratt gengur á strandveiðikvótann í maí á svæði A frá Snæfellsnesi til Súðavíkur. Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út auglýsingu um stöðvun veiða á því svæði frá og með næstkomandi fimmtudegi 20. maí.


 

Veiðar á sandsíli í Norðursjónum hafa sjaldan farið betur af stað en í ár. Það kemur því sem köld vatnsgusa framan í fiskimenn að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur aðeins til 253 þúsund tonna kvóta í ár. Fiskimenn á Norður-Jótlandi höfðu hins vegar vænst þess að kvótinn yrði að minnsta kosti 400 þúsund tonn eins og í fyrra.


 

Á síðasta ári höfðu 57 erlend fiskiskip veiðileyfi íslenskri lögsögu sem er einungis þriðjungur af því sem tíðkast hefur undanfarin ár. Munar þar mestu um að engin leyfi til loðnuveiða voru gefin út á árinu 2009 og engin Evrópusambandsskip sóttu um leyfi til karfaveiða.


 

Fiskaflinn í nýliðnum aprílmánuði nam tæplega 80.000 tonnum samanborið við rúmlega 99.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn skiptist þannig að botnfiskaflinn dróst saman um 6.000 tonn og uppsjávaraflinn um tæp 15.000 tonn.


 

Strandveiðar hófust mánudaginn 10. maí og er veiðum þessa vikuna lokið þar sem ekki er heimilt að róa föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Föstudaginn 14. maí hafði Fiskistofa gefið út 407 leyfi til strandveiða og enn er töluvert af umsóknum í vinnslu.


 

Sjávarútvegur og fiskeldi í Víetnam vex ár frá ári og er ekket lát þar á. Framleiðsla sjávarafurða nam yfir 4,8 milljónum tonna árið 2009 og hefur sexfaldast frá árinu 1986. Fiskeldi hefur tuttugufaldast á sama tíma og nema eldisafurðir 2,5 milljónum tonna á ári.


 

Stefnt er að því að banna allar fiskveiðar á veiðislóð sem er án efa helgustu fiskimið veraldarsögunnar, nefnilega á Galíleuvatni þar sem Jesús gekk forðum daga.


 

Norski frystitogarinn Langvin sigldi undir öskuskýi frá Eyjafjallajökli í gærkvöldi um 60 sjómílur suður af landinu en skipið var þá á leið til veiða á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg.


 

Rannsóknaleiðangur stendur yfir í samstarfi Skinneyjar-Þinganess, Ísnets Hornafirði og Hafrannsóknastofnunarinnar. Rannsóknin er framhald samstarfsverkefnis árið 2009 þar sem prófað var að nota stærri möskva í yfirbyrði humarvörpu en almennt tíðkast við humarveiðar.


 

Grásleppuvertíðin hefur gengið mjög vel þegar á heildina er litið og er aflaverðmæti grásleppuhrogna nú þegar komið í um 1,7 milljarða króna að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Fiskifréttir sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Línuleg fyrning aflaheimilda umfram 0,5% á ári myndi þurrka út hagnað útgerðarinnar, segir í sérfræðiáliti sem unnið var fyrir starfshóp um endurskoðunarnefnd fiskveiðistjórnunarkerfisins.


 

Skip Samherja veiða 390.000 tonn af fiski árlega, að stærstum hluta utan íslenskrar lögsögu. Fyrirtækið selur sjávarafurðir fyrir 230 milljónir króna að meðaltali á hverjum virkum degi.


 

Blautverkaður saltfiskur úr þorski skilaði mestu útflutningsverðmæti á árinu 2009 af einstökum sjávarafurðum. Verðmæti hans nam 16,4 milljörðum króna af um 209 milljarða heildarútflutningi sjávarafurða.


 

Sjórán á Indlandshafi af hálfu Sómala eru síst í rénun. Núna eru yfir 400 sjómenn og að minnsta kosti 25 skip í haldi sómalskra sjóræningja. Hefur fjöldi gísla ekki áður verið meiri síðan sjóránin frá Sómalíu komust í algleyming árið 2007.


 

Síldarvinnslan hf. hefur fest kaup á Margréti EA-710 af Samherja hf.  Margrét EA er eitt öflugasta uppsjávarskip íslenska flotans.  Skipið var smíðað í Noregi 1998 og er 2.188 brúttótonn, 1.270 brúttórúmlestir og 71,1 metri að lengd og 13 metrar að breidd. 


 

Tiltölulega lítt þekkt fisktegund sem er upprunnin frá Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku er nú komin í sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Á fiskurinn að höfða til sælkera.


 

Kræklingabændur og veiðimenn í Limafirði í Danmörku urðu fyrir miklum búsifjum vegna frosthörku í vetur. Fjörðinn lagði og ísinn olli súrefnisskorti. Nú liggur fyrir mat á tjóninu og talið er að meira en 100 þúsund tonn af kræklingi hafi drepist af súrefnisskorti.


 

Gríðarleg verðhækkun varð á íslensku fiskmörkuðunum fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Meðalverð allra tegunda hækkaði úr 176 krónum kílóið í 282 krónur eða um 60%, að því er fram kemur í Fiskifréttum.


 

Nýlega er lokið árlegri rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar á hrygningarslóð þorsks, s.k. netaralli. Afli var góður eins og við var búist en tiltölulega mikið er nú af stórum þorski í stofninum.


 

Ekki er eins mikill kraftur í steinbítsvertíðinni eins og svo oft áður. Minna veiðist á hefðbundnum slóðum og þar fæst steinbíturinn helst mjög nálægt landi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.


 

Úthafskarfaveiðar íslenskra togara á Reykjaneshrygg hófust í þessari viku og lofar byrjunin góðu. Kristinn Gestsson skipstjóri á Þerney RE tjáði Fiskifréttum að afli skipanna hefði verið 2-3 tonn á togtímann sem væri hæfilegt magn til vinnslu um borð. Tvö önnur íslensk skip voru komin á miðin um miðja vikuna, Venus HF sem HB Grandi gerir einnig út og Arnar HU í eigu FISK Seafood.


 

Grásleppuveiðin á vertíðinni er komin vel yfir 9 þúsund tunnur eða um 36% meiri en á sama tíma. Grásleppunefnd Landssambands smábátaeigenda (LS) hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki skuli sótt um framlengingu á yfirstandandi grásleppuvertíð.


 

Fluttar voru út sjávarafurðir að verðmæti tæplega 209 milljarða króna á árinu 2009 og jókst verðmæti þeirra milli ára um 22% en dróst saman í magni um 4%. Árið 2009 voru flutt út 669 þúsund tonn samanborið við 697 þúsund tonn árið áður.


 

Um 150 bátar, skemmtibátar eða afskráðir bátar, hafa verið skráðir sem fiskibátar á tveimur árum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Kolmunnaveiðum skipa HB Granda á þessari vertíð er nú lokið. Lundey NS kom með rúmlega 1.300 tonna afla til Vopnafjarðar í gær og Faxi RE kom til Akraness með 1.400 tonn sl. mánudag. Ákveðin tímamót voru á Vopnafirði í gær en þá var í fyrsta sinn skipað út mjöli í nýju og lokuðu útskipunarkerfi í hinni nýju verksmiðju HB Granda sem tekin var í notkun fyrir tveimur mánuðum.


 

Framboð á fiski á fiskmörkuðum í Bretlandi hefur aukist á ný í þessari viku eftir mjög dapurlegt ástand síðustu 10 dagana.


 

Umhverfisstofnun hefur gefið út endurnýjað starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði.


 

Þessar nýju tillögur sjávarútvegsráðherra um að loka sjö svæðum fyrir dragnótaveiðum þýða það einfaldlega að það er verið að hindra aðgang að mörgum af bestu veiðisvæðunum í Húnaflóa og Skagafirði án þess að fyrir því liggi nokkur vísindaleg rök," segir Friðgeir Höskuldsson á Drangsnesi, sem gerir út dragnótabátinn Grímsey ST 2.  Hann telur að gangi tillögurnar eftir sé grundvellinum kippt undan útgerð hans.


 

Lax er sú fisktegund sem franskir neytendur eru sólgnastir í. Samkvæmt nýrri markaðskönnun kaupa 72% franskra heimila reyktan lax, 46% ferskan lax og 25% frystan lax. Næstvinsælasti matfiskurinn er þorskur.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um strandveiðar á yfirstandandi fiskveiðiári.   Fyrirkomulag veiðanna verður að mestu óbreytt en nú er ráðstafað 6.000 tonnum af óslægðum botnfiski til þeirra í stað 3.995 tonna í fyrra.


 

Verðmæti sjávarafurða dróst verulega saman á síðasta ári á Nýfundnalandi og Labrador í Austur-Kanada. Þetta eru einmitt þau svæði sem urðu einna harðast úti þegar þorskstofninn við Kanada hrundi árið 1990.


 

Nýjar rannsóknir sýna að við rækjuveiðar er unnt að skilja frá allt að 80% af smárækju með sérstökum ristum eða skiljum sem komið er fyrir í trollinu. Smárækjunni er þannig hleypt út aftur en stærri rækjan situr eftir í veiðarfærinu.


 

Fiskistofa hefur skipt þeim 500 tonnum af skötusel sem ákveðið var að leigja út gegn gjaldi milli þeirra báta sem sóttu um. Alls sóttu útgerðir 195 skipa og báta um leigukvóta og er hámarksúthlutun 2.907 kíló á hvern umsækjenda.


 

Tillögur um breytingar á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gætu riðið sjávarbyggðum í Skotlandi að fullu nái þær fram að ganga, segir skoski þingmaðurinn Struan Stevenson.


 

Jarðskjálftarnir í Chile fyrr á þessu ári, sem m.a. ollu miklum skemmdum á fiskimjölsverkmiðjum þar í landi, hafa leitt til samdráttar í framboði á fiskimjöli á heimsmarkaði sem aftur hefur þrýst mjölverði upp í áður óþekktar hæðir. Chile er næststærsti útflytjandi fiskimjöls í veröldinni, næst á eftir Perú.
SKIPASKRÁ /