föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

júní, 2010

 

Hrefnuveiðibáturinn Hrafnreyður KÓ kom inn með þrjú dýr í morgun og landaði við Kópavogshöfn. Dýrin voru allt tarfar um átta metrar að lengd. Kjötið er komið í kjötvinnslu Hrefnuveiðimanna ehf. og verður dreift í verslanir og veitingahús fyrir helgi.  


 

 Makrílvertíðin er komin í fullan gang og eru skipin að veiðum ýmist úti fyrir Suðausturlandi eða fyrir sunnan og suðvestan land. Vinnslan á sjó og í landi gengur vel.


 

Síðdegis í gær tók þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, á loft frá Reykjavíkurflugvelli og flaug til Bretlands þar sem henni verður skilað til leigusala en framlengdur leigusamningur þyrlunnar rann nýverið út.


 

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæplega 36 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2010 samanborið við 26,5 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um rúmlega 9 milljarða eða liðlega 34% á milli ára.


 

Með lagasetningu í maí síðastliðnum var sjávarútvegsráðherra veitt heimild til að ráðstafa allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski til frístundaveiða fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011. Gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þessari kvótaleigu muni nema 50-60 milljónum króna á þessu ári og öðru eins á því næsta.


 

Veiðum frystitogara HB Granda á úthafskarfa á djúpslóð á þessari vertíð er nú lokið. Fjögur frystiskip stunduðu veiðarnar og varð afli þeirra alls um 4.600 tonn. Mun betur gekk að veiða kvótann að þessu sinni en menn áttu von á og gefur það vonandi fyrirheit um að staða karfastofnsins á Reykjaneshryggnum sé betri en talið hefur verið.


 

Makrílegg fundust víða í nýafstöðnum rannsóknaleiðangri Árna Friðrikssonar en mestur var þéttleikinn við miðlínuna milli Íslands og Færeyja.


 

Á norska stórþinginu er komin fram tillaga um að Norðmenn breyti fiskveiðiári sínu að hætti Íslendinga þannig að það hefjist 1. september ár hvert í stað 1. janúar. Tveir þingmenn Hægri flokksins bera tillöguna fram að þessu sinni en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessari hugmynd er hreyft.


 

Aðalsteinn Jónsson SU frá Eskifirði kom inn til hafnar í síðustu viku með fullfermi af frystum makríl. Um 600 tonn af frystum afurðum eru í lestum skipsins og svo landaði skipið einnig 310 tonnum af  makrílafskurði og 350 tonnum af síld sem veiðist sem meðafli.


 

Norski selfangarinn Havsel hefur lokið selveiðum þetta árið í Vesturísnum, en það er svæðið langt norðan Íslands milli Jan Mayen og Grænlands kallað. Báturinn fór tvær ferðir og veiddi fjögur þúsund seli í fyrri ferðinni en sjö hundruð í þeirri síðari.


 

Á sama tíma og  krókaflamarksbátar hafa lokið við að veiða úthlutaðan ýsukvóta sinn á yfirstandandi fiskveiðiári á eftir að veiða um 30% af ýsukvótanum í aflamarkskerfinu.


 

Upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis vísar á bug ásökunum um slæm vinnubrögð og slæma stjórnsýslu ráðuneytisins við ákvörðun um lokun sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum. 


 

Markaðsverð á helstu botnfiskafurðum Íslendinga í erlendri mynt er mjög hátt um þessar mundir og slagar hátt í toppverðið sem tíðkaðist fyrir efnahagshrunið árið 2008, segir Friðleifur Friðleifsson sölustjóri frystra afurða hjá Iceland Seafood í viðtali í nýjustu Fiskifréttum.


 

Ísframleiðandinn Frederick´s í Lancaskíri í Bretlandi hefur sett á markað ís sem bragðast eins og fiskur og franskar eða fish and chip´s.


 

Norska hafrannsóknastofnunin telur að minnka þurfi skarfastofninn meðfram allri suðurströnd Noregs. Ástæðan er sú að skarfurinn er talinn éta ógrynni af þorski, svo mikið að þorskstofninn láti á sjá.


 

Vinnsla á makríl og síld hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði gengur samkvæmt áætlun að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra. Hann segir að flokkun á aflanum hafi gengið mjög vel en það taki sinn tíma að stilla saman nýjar vélar fyrir makrílvinnsluna, að þvi er fram kemur á heimasíðu HB Granda.


 

Veiðar á grásleppu hafa gengið vel á vertíðinni sem senn fer að ljúka. Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda telur að saltað verði í yfir 15.000 tunnur hér á landi sem er 4.500 tunnum meira en í fyrra. 


 

Matís er að hrinda af stað verkefni sem stuðla á að því að nýta að nýta á arðbæran hátt það slóg sem berst að landi í Þorlákshöfn með afla sem ekki er slægður úti á sjó. Stefnt er að stofnun sprotafyrirtækis sem leggja mun áherslu á nýtingu slógs til áburðarframleiðslu. Væntanleg hliðarafurð framleiðsluferilsins er hrálýsi.


 

Tveir sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun rita grein í Fiskifréttir í dag þar sem þeir gagnrýna rökstuðning og málsmeðferð sjávarútvegsráðherra vegna umdeilds banns við veiðum með dragnót í sjö fjörðum.


 

Grásleppuveiðar á Íslandi gætu skilað 5,3 milljörðum í útflutningsverðmæti á þessu ári sem er tvöfalt meira en á árinu 2009. Ástæðan er aflaaukning og verðhækkanir á hrognum milli ára.


 

Fiskaflinn í nýliðnum maímánuði nam alls 73.600 tonnum samanborið við 64.300 tonn í sama mánuði í fyrra.


 

Í Austur-Afríku fundust nýlega minjar þess að maðurinn hafi þá þegar verið farinn að borða fisk fyrir rétt tæpum tveimur milljónum ára.


 

Hafrannsóknastofnunin tekur nú í fyrsta sinn þátt í rannsóknum á hrygningu makríls. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lét úr höfn nú í vikunni þessara erinda og verður aðallega að störfum í kringum Færeyjar.


 

„Við vorum að ljúka við að landa um 100 tonnum af stórum og fallegum makríl sem við fengum í tveimur köstum í Háfadjúpi í gær, svona 15 mílur SA af Eyjum," sagði Jón Axelsson, skipstjóri á Júpíter ÞH í samtali við Útveginn á vefsíðu LÍÚ fyrr í dag. Önnur skip voru ekki að makrílveiðum á þessum slóðum í gær.


 

Gott verð hefur fengist fyrir ufsa á fiskmörkuðum að því er fram kemur í spjalli Fiskifrétta við Þorvald Garðarsson, skipstjóra á krókaaflamarksbátnum Sæunni Sæmundsdóttur ÁR, í nýjustu Fiskifréttum.


 

Nú er verið að þróa aflareglu fyrir ufsa og til stendur að gera slíkt hið sama fyrir ýsu. Með því móti yrði fastsett að útgefinn árlegur kvóti í þessum tegundum yrði ákveðin prósenta af veiðistofninum hverju sinni, líkt og nú tíðkast varðandi þorskinn, segir í nýjustu Fiskifréttum. 


 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beitir blekkingum í fréttatilkynningu sem send var út til fjölmiðla þann 3. júní sl. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þeir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ og Friðrik G. Halldórsson, talsmaður dragnótamanna hafa sent frá sér.


 

Íslensku síldveiðiskipin fóru flest til veiða í byrjun vikunnar eftir það hlé sem gert var á veiðunum vegna sjómannadagsins. Ekki er hægt að segja annað en að byrjunin lofi góðu því skipin hafa verið að fá góðan afla eftir stuttan togtíma.


 

Brottkast þorsks og ýsu hefur minnkað samkvæmt mælingum á árinu 2009. Hér er um að ræða brottkast þegar tiltekinni lengd af fiski er hent kerfisbundið, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.


 

Hrygningarstofn þorsks stækkaði úr 220 þús. tonnum í 300 þús. tonn frá byrjun síðasta árs til upphafs yfirstandandi árs. Rúmlega helminginn af aukningunni eða 50 þús. tonn má rekja til þorsks sem gengið hefur frá Grænlandi til Íslands.


 

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur tilkynnt veiðiráðgjöf á nytjastofnum í Barentshafi árið 2011.


 

Sjávarútvegsráðuneytið vísar á bug gagnrýni stjórnar LÍÚ þess efnis að vönduð stjórnsýsla hafi ekki verið í hávegum höfð og meðalhófs gætt við ákvarðanatöku vegna friðunar sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum.


 

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna fordæmir þau vinnubrögð sem sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra viðhafði í aðdraganda og við útgáfu nýlegrar reglugerðar um takmarkanir á dragnótaveiðum.


 

Veiðar á ungál hafa verið stöðvaðar við strendur Englands og gildir veiðibann til febrúar á næsta ári. Gripið er til þessara aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að álastofninn deyi hreinlega út.


 

Norska hafrannsóknastofnunin hefur gert ítarlega könnun á því hve mikinn fisk ferðamenn draga úr sjó á ári hverju þar í landi. Niðurstaðan er sú að þessi afli sé um 3.300 tonn.


 

Góð nýliðun hefur verið í blálöngu og vísbendingar eru um að ástand stofnsins sé að batna að því er fram kemur í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar sem kynnt var fyrir helgi.


 

  Maímánuður síðastliðinn skilaði met verðmætum fyrir þennan mánuð í útflutningi á laxi og laxaafurðum frá Noregi. Útflutningsverðmæti jókst um 26% miðað við sama tíma í fyrra og fór í 509 milljónir NOK (10 milljarða ISK).


 

Evrópusambandið hefur gefið út heildarkvóta fyrir veiðar á sandsíli á árinu 2010 og er hann 400 þúsund tonn. Þar af fá dönsk skip drjúgan hluta, eða 327 þúsund tonn.


 

Norska hafrannsóknastofnunin hefur upplýst að hafi minna fundist af norsk-íslenskri síld en vænst hafi verið í  leiðangri stofnunarinnar í maímánuði. Gert var ráð fyrir að stofninn færi minnkandi en samdrátturinn er verulega meiri en búist var við, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. 


 

Hafrannsóknastofnum telur óhætt að veiddar verði 216 hrefnur á íslenska landgrunnssvæðinu að því er fram kemur í nýjustu skýrslu stofnunarinnar um ástand og horfur nytjastofna sem kynnt var í dag. Fyrri ráðgjöf gerði ráð fyrir að óhætt væri að veið 200 hrefnur.


 

Þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári verður 160 þúsund tonn ef farið verður eftir gildandi aflareglu. Það er 10.000 tonnum meira en á yfirstandandi fiskveiðiári. Þetta kemur fram í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar sem kynnt var rétt áðan.


 

Krabbaveiðar við Alaska, togveiðar í suðurhöfum, saga fimmtugs aflaskips og lúðuveiðar við Ísland fyrr og nú eru meðal umfjöllunarefna í veglegu sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem kom út í dag.


 

Þrír aðilar ráða yfir um 50% af makrílkvótanum, sem úthlutað er samkvæmt aflahlutdeild, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Um er að ræða 112 þúsund tonn sem úthlutað er í samræmi við veiðireynslu.


 

Í vorleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar sem lauk 28. maí kom í ljós að hiti og selta voru yfir langtímameðaltali umhverfis landið. Hiti í Austur-Íslandsstraumi var heldur lægri en verið hefur síðustu árin.


 

 ,,Það hefur verið rólegt yfir síldveiðunum að undanförnu. Síldin er á litlum blettum og aflinn ekki mikill. Skipin hafa fengið upp í 150 tonn og niður í 70 tonn í holi eftir 6-12 tíma tog,” sagði Stefán Ingason stýrimaður á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar Fiskifréttir ræddu við hann í gær.


 

Mörgum fiskstofnum stafar ógn af sívaxandi hávaða sem er tilkominn vegna athafna okkar mannanna að því er fram kemur í grein á vef BBC.


 

„Það er ekki hægt að segja að það komi lengur á óvart, en okkur þykir það samt miður að enn á ný skuli Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ganga á bak orða sinna," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ á vef samtakanna. Hann segir að ráðherra hafi á fundi með dragnótamönnum lofað að fara frekar yfir málið með þeim áður en til ákvörðunar kæmi. Það loforð hafi verið svikið.


 

Hlé verður gert á úthafskarfaveiðum íslenskra skipa nú í vikunni vegna sjómannadagsins. Á heimasíðu HB Granda segir að fjórir frystitogarar félagsins hafa stundað veiðarnar undanfarnar vikur. Aflabrögð hafi verið mjög góð og heita megi að full vinnsla hafi verið um borð í skipunum frá fyrsta degi vertíðarinnar, en afkastageta þeirra er um 40 til 50 tonn af fiski upp úr sjó á sólarhring.


 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að vernda grunnslóð í Önundarfirði, Hrútafirði/Miðfirði, Húnafirði, Skagafirði og Seyðisfirði/Loðmundarfirði með því að banna dragnótaveiðar innan tiltekinna svæða í þessum fjörðum.


 

Júpíter ÞH, skip Ísfélags Vestmannaeyja, varð í síðustu viku vart við makríl skammt undan Eyjum. Lítilræði af honum ánetjaðist er verið var að prófa nýja gerð trolls að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra Ísfélagsins. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.


 

Niðurstaða rannsóknar Hafrannsóknastofnunarinnar á áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli á lífríkið í hafinu gefur til kynna að gosefni í hlaupvatni geti við ákveðnar aðstæður haft neikvæð áhrif á klak þorskhrogna og vöxt þorskungviðis.


 

Mikill áhugi er á makrílveiðum meðal færeyskra útgerðarmanna sem ekki hafa stundað þessa veiðar áður. Eftir að samningaviðræður strandríkja um makrílveiðar fóru út um þúfur í London um helgina er ljóst að færeysk stjórnvöld munu setja sér einhliða makrílkvóta í eigin lögsögu.
SKIPASKRÁ /