Veiðar erlendra skipa í íslenskri lögsögu jukust á síðasta ári eftir mikinn samdrátt árið 2009 þegar loðnuveiðin brást. Veiðar erlendra skipa hér jafnast þó ekki á við það sem hún var fyrir nokkrum árum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum desembermánuði, metinn á föstu verði, var 8,2% minni en í desember 2009. Árið 2010 dróst aflinn saman um 8,0% miðað við árið 2009, sé hann metinn á föstu verði, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands.
Sjónvarpsþættir á sjónvarpsstöðinni Channel 4 í Bretlandi, þar sem þekktir matreiðslumenn á borð við Jamie Oliver og Hugh Fearnley-Whittingstall berjast opinskátt gegn brottkasti á fiski innan ESB, hafa vakið athygli þar í landi.
Í lok nóvember 2010 höfðu verið flutt inn um 60.500 tonn af makríl til Japans. Þar af voru 58.550 tonn norskur makríll eða um 97% af heildarinnflutningi makríls fyrstu 11 mánuði ársins.
Fiskeldisfyrirtækið Ondartxo Arraika í Baskalandi á Norður-Spáni hefur tekið í notkun nýja eldisstöð fyrir þorsk, sandhverfu og flundru og er vatnið í stöðinni endurnýtt í lokuðu kerfi.
Loðnuvinnsla er hafin að nýju á Vopnafirði eftir að Lundey NS kom þangað með um 680 tonn af loðnu á miðnætti sl. Magnús Róbertsson vinnslustjóri hjá HB Granda segir að loðnan nú sé heldur smærri en sú sem barst til vinnslu fyrir áramótin en það muni ekki miklu. Góður hluti aflans henti til frystingar en það sem flokkist frá fari til bræðslu.
Á árinu 2010 jókst hlutdeild krókabáta í veiðum á fimm af sex tegundum þar sem aflinn fór yfir eitt þúsund tonn miðað við árið 2009, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.
Í fyrsta sinn á síðustu hundrað árum eða svo munu bandarískir sjómenn ekki stunda ofveiði á neinum nytjastofni, að því er bandarískur fiskifræðingur í fremstu röð heldur fram. Þessum árangri verður náð á árinu 2011.
Alls voru samþykktar 425 undanþágur frá skipstjórnar- og vélstjórnarréttindum á árinu 2010. Þar af voru 87 undanþágur vegna skipstjórnarstarfa og 338 vegna vélstjórnarstarfa.
Góður árangur hefur náðst í föngun og áframeldi á þorski hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. (HG). Bátar HG veiða milli 150 og 200 tonn af þorski í Ísafjarðadjúpi á ári til áframeldis, að því er fram kemur í nýjustu Fiskfréttum.
,,Það er rangt sem fullyrt er í auglýsingu [sjómannasamtaka] í morgun, að skip sem sinna álflutningum fyrir álverið séu „mönnuð áhöfnum á smánarlaunum“. Samkvæmt upplýsingum álversins eru kjör áhafnanna sambærileg við kjör íslenskra áhafna.”
Aðeins rétt tæp 1.300 tonn af kolmunna eru til ráðstöfunar fyrir íslensk fiskiskip í ár en úthlutaður kvóti er 6.507 tonn, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.
Stjörnu-Oddi vinnur að þróun tækis sem kallast fiskvali og er ætlað að velja þann fiskinn sem fer inn í pokann við veiðar með trolli. Valinn tegundagreinir og lengdarmælir fisk og sleppir óæskilegum fiski út um loka sem er á milli belgsins og pokans á trollinu.
Þann 20. janúar næstkomandi rennur út útboðsfrestur vegna álflutninga á sjó fyrir Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna krefjast þess að Rio Tinto Alcan í Straumsvík semji við skipafélag sem tryggir íslenskum sjómönnum vinnu.
Breska sjávarútvegsfyrirtækið UK Fisheries, sem Samherji á helmingshlut í á móti Parlevliet & Van der Plas, hefur keypt franska sjávarútvegsfyrirtækið Euronor. Það félag stundar öðru fremur veiðar og vinnslu úr ufsa og þorski.
Árið 2010 var líflegt á fiskmörkuðum landsins. Þrátt fyrir að framboð á fiski hafi minnkað frá árinu á undan jókst velta markaðanna um rúm 20% milli ár, samkvæmt samantekt sem birtist í nýjustu Fiskifréttum.
Á árinu 2010 voru fluttar út sjávarafurðir frá Noregi að verðmæti 53,8 milljarðar NOK (1.060 milljarðar ISK). Þetta er sjöunda árið í röð sem met er slegið í útflutningi norskra sjávarafurða. Aukningin frá árinu 2009 nemur 9,1 milljarði NOK.
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 101 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2010 samanborið við rúma 86 milljarða á sama tímabili árið 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um 15 milljarða eða 17,8% á milli ára.
Starfshópur sem sjávarútvegsráðherra skipaði tekur undir tillögur Hafrannsóknastofnunar um að bann verði lagt við beinni sókn í lúðu, en veltir einnig upp öðrum möguleikum til að takmarka sókn í stofninn.
Á árinu 2010 voru fluttar út makrílafurðir fyrir 3 milljarða norskra króna, sem jafngildir tæpum 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta er um 36% aukning frá árinu 2009. Aldrei fyrr hafa Norðmenn haft jafnmiklar útflutningstekjur af makrílafurðum. Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Afli uppsjávarveiðiskipa HB Granda var alls tæplega 96.400 tonn á síðasta ári og aflaverðmætið nam rúmlega 3,4 milljörðum króna. Aflinn dróst saman um tæp 8% frá því á árinu 2009 en þrátt fyrir það jókst aflaverðmætið um 28,3% milli ára,.
Félagsfundur Félags skipstjórnarmanna haldinn þann 30. desember krefst þess að nýtilkomin lög um sjómannaafslátt verði dregin til baka. Bent er á að stórir starfshópar svo sem opinberir starfsmenn, þar á meðal þingmenn og ráðherrar, flugliðar auk fjölmargra annarra njóti fríðinda í formi skattfrjálsra dagpeninga.
Félagsfundur Félags skipstjórnarmanna haldinn þann 30. desember gerir þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að þriðju þyrlunni verði bætt við flugflota Landhelgisgæslunnar.
Nýverið lauk tilraunaverkefni til framleiðslu á kollageni (hráefni til snyrtivöruframleiðslu) úr grásleppuhvelju og skiluðu þær ekki nægilega góðum árangri, að því er fram kemur á vef Matís. Áfram verður unnið að því að finna leiðir til að nýta aukaafurðir úr grásleppu.
Íslendingar eru í öðru sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir í Norðaustur-Atlantshafi en Norðmenn eru langefstir með rúmlega fjórðung aflans á þessu hafsvæði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Hagstofunni um heimsaflann 2008.
Norðaustur-Atlantshaf markast af hafsvæðinu norður af 36°00’ norðlægrar breiddar og austur af 42°00’ vestlægrar lengdar. Heildarafli úr Norðaustur-Atlantshafi var 8,6 milljónir tonna árið 2008 sem er tæplega 335 þúsundum tonna minni afli en árið 2007. Lítil breyting hefur orðið á listanum yfir þau ríki sem veiða mest á þessu hafsvæði. Sömu þjóðir raða sér í tíu efstu sætin árið 2008 og árið á undan. Mest veiddu Norðmenn um 2,4 milljónir tonna eða 27,6% aflans, Íslendingar veiddu 1,3 milljónir tonna eða 15% en Rússar veiddu 831 þúsund tonn og Danir 686 þúsund tonn.
Tvær tegundir af uppsjávarfiski úr Norðaustur-Atlantshafi veiddust í yfir einni milljón tonnum árið 2008. Alls veiddust um 2,3 milljónir tonna af síld, sem er 6,1% aukning frá fyrra ári, og 1,3 milljónir tonna af kolmunna en það er 23,6% samdráttur frá 2007. Af botnfisktegundum í Norðaustur-Atlantshafi veiddist mest af þorski, 709 þúsund tonn eða 8,3% heildaraflans, ufsaaflinn var 441 þúsund tonn eða 2,9% og ýsuaflinn 305 þúsund tonn eða 3,6% af heildaraflanum í NA-Atlantshafi árið 2008
Ísland kemur við sögu í fyrsta og tíunda sæti yfir mikilvægustu fréttir og fjölmiðlaumfjöllun á árinu 2010 sem tengjast markaðsmálum í sjávarútvegi, samkvæmt samantekt fréttavefsins SeafoodSource. Þar er um að ræða makrílstríðið (the never-ending mackerel war, eins og það er orðað) og áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á viðskipti með fisk.