

Þorskstofninn við Noreg er í mikilli uppsveiflu og er allt fullt af fiski á hrygningarslóðinni. Norska hafrannsóknastofnunin hefur mælt þéttleika þorskhrogna á Lófótensvæðinu og reyndust 15.872 þorskegg vera á hvern fermetra yfirborðs sjávar milli Henningsvær og Stamsund.
Aldrei áður hefur þéttleikinn mælst svona mikill. Næstmest mældist árið 1950 eða 13.000 egg á hvern fermetra. Til samanburðar má nefna að á árunum 1970-1990 mældust um 7.000 þorskegg á hvern fermetra á þessu svæði.
Ekki er kálið þó sopið þótt í ausuna sé komið. Lífsskilyrði í sjónum næstu þrjá mánuðina mun ráða því hvernig þessum hrognum reiðir af. Í frétt í Fiskeribladet segir að stór hrygna geti hrygnt 5 milljónum eggja en nóg sé að tvö af þeim nái að verða að fullorðnum fiski til þess að halda stofninum í jafnvægi.