þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

13% meiri afli í október

15. nóvember 2016 kl. 10:26

Norsk-íslensk síld. Mynd Þorgeir Baldursson

Á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2015 til október 2016 hefur heildarafli dregist saman um 232 þúsund tonn

Fiskafli íslenskra skipa í október var rúm 81þúsund tonn sem er 13% meiri afli en í október 2015. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. 

Botnfiskafli nam rúmum 40 þúsund tonnum og dróst saman um 2% samanborið við október 2015. Aukning var í þorskafla á milli ára en samdráttur í öðrum botnfisktegundum. Uppsjávarafli var tæp 39 þúsund tonn í október sem er 40% meiri afli en í október 2015. Síld var uppistaðan í uppsjávaraflanum og veiddust rúm 32 þúsund tonn af henni samanborið við tæp 23 þúsund tonn í október 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2015 til október 2016 hefur heildarafli dregist saman um 232 þúsund tonn eða 18% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Á tímabilinu hefur botnfiskafli aukist um 11% en samdráttur í heildarafla skýrist nær eingöngu af minni loðnuafla.

Afli í október  metinn á föstu verðlagi var 2,9% meiri en í október 2015.