sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

1.500 sjóstangaveiðimenn hafa staðfest komu sína í sumar

7. apríl 2008 kl. 15:48

Von er á 1.500 sjóstangaveiðimönnum til Suðureyrar og Flateyrar í sumar og koma fyrstu hóparnir strax um næstu mánaðarmót. Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hvíldarkletts á Suðureyri, segir í samtali við bb.is að sala ferðanna hafi gengið vel og upppantað sé fyrstu þrjá mánuði tímabilsins en ekki sé uppselt í ágúst.

Fleiri fyrirtæki hafa haslað sér völl á þessum vettvangi og má þar nefna Sumarbyggð ehf. sem býður upp á sjóstangaveiði frá Súðavík og Tálknafirði. Algjör sprenging hefur verið í komum sjóstangaveiðimanna til Vestfjarða á undanförnum árum.

Aðspurður hvort markaðurinn sé endalaus fyrir þessar ferðir segir Elías svo ekki vera. „Við förum að nálgast efri mörkin. Við erum að keppa við fyrirtæki í N-Noregi sem eru að bjóð sömu verð og við. Það eru 700.000 manns sem hafa áhuga á sjóstangaveiði í Þýskalandi en ekki nema lítill hluti, eða 5 – 10 þúsund manns kaupa svona dýrar ferðir. Ef 2000-3000 af þeim koma til Vestfjarða þá megum við vel við una.“

Að sögn Elíasar sækja flestir veiðimenn til Suður-Noregs þangað sem þeir geta keyrt á eigin bílum og eru það mun ódýrari ferðir. Hvað gerir Vestfirði áhugaverða segir Elías vera ný veiðisvæði, meiri veiði og betri báta. Þá mega veiðimennirnir fiska eins og þeir vilja þar sem aflinn er bundinn í venjulegan kvóta sem fyrirtækin útvega.

Hingað til hafa það aðallega verið Þjóðverjar sem hafa sótt í sjóstangaveiðina á Vestfjörðum, en Elías segir það vera að breytast. Austurríkismenn, Svisslendingar, Tékkar, Svíar og Pólverjar eru farnir að sækja í þessar ferðir í auknum mæli, segir á vefnum bb.is.