þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

160 grunnskólanemendur í launuðu sjávarútvegsnámi

Guðjón Guðmundsson
20. febrúar 2019 kl. 07:00

Grunnskólanemendur kynna sér veiðarfæragerð. Aðsend mynd

Skólann sækja 14 ára grunnskólanemendur og hver bekkur tekur eina viku í sjávarútvegstengt nám á sumrin. Kennarar í skólanum eru nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður.

Um 160 grunnskólanemendur sóttu á síðasta ári launað nám í Sjávarútvegsskólanum sem rekinn er af Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri. Sjávarútvegsmiðstöðin heyrir undir viðskipta- og raunvísindasvið háskólans. Henni er m.a. ætlað er að efla tengsl háskólans við atvinnulífið. Guðrún Arndís Jónsdóttir er forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar.

„Eitt af okkar föstu verkefnum undanfarin ár hefur verið rekstur Sjávarútvegsskólans í samstarfi við fyrirtæki á Akureyri og á Austurlandi.  Skólann sækja 14 ára grunnskólanemendur og hver bekkur tekur eina viku í sjávarútvegstengt nám á sumrin. Kennarar í skólanum eru nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Á hverju ári tekur þetta verkefni í heildina tvo til þrjá mánuði,“ segir Guðrún.

Tengt vinnuskólanum

Það var Síldarvinnslan á Neskaupstað sem hratt verkefninu upphaflega af stað en Sjávarútvegsmiðstöðin tók síðan við keflinu. Námið fer fram í heimabæ grunnskólanemendanna. Sveitarfélögin hafa stutt þetta nám með því að tengja það vinnuskóla viðkomandi sveitarfélags og grunnskólanemendurnir fá greidd laun meðan á náminu stendur. Fram til þessa hefur Sjávarútvegskólinn boðið þetta nám þar sem sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífinu, eins og á Höfn, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Seyðisfirði, Vopnafirði, Húsavík, Akureyri og Dalvík. Guðrún gefur sér það að þekking grunnskólanemenda á þessum stöðum á sjávarútvegi geti verið meiri en barna á höfuðborgarsvæðinu.

Meðal námsefnis í skólanum er lífríki hafsins, veiðar, vinnsla sjávarafurða og eitt og annað sem tengist greininni.

„Það veitir ekki af því að byrja uppfræðslu um greinina strax í grunnskóla. Við vonum líka að uppfræðslan leiði til þess að einhverjir þessara nemenda haldi áfram og sæki sér menntun í sjávarútvegsfræði hjá Háskólanum á Akureyri og síðar störf við greinina. Það má því eiginlega segja að við séum á vissan hátt að rækta ungviðið,“ segir Guðrún.

Þörf á höfuðborgarsvæðinu

Stefna Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar er að bjóða upp á þetta nám víðar á landinu. Guðrún segir að hugmyndin sé að útvíkka starfsemi skólans með því að sækja á fleiri staði s.s. á höfuðborgarsvæðið en það má ætla að sjávarútvegur og greinar honum tengdum séu grunnskólanemendum þaðan fjarlægari en þeim börnum sem koma frá þeim landsvæðum sem byggja meira og minna á sjávarútvegi.

Erlend verkefni

Sjávarútvegsmiðstöðin hefur einnig aðstoðað við þróunarverkefni á vegum hins opinbera í Víetnam og er í samstarfi við Utanríkisráðuneytið.  Einnig tekur Sjávarútvegsmiðstöðin þátt í verkefni fyrir Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Fimm nemendur frá Afríku og Asíu eru nú við nám í sjávarútvegsfræðum í Háskólanum á Akureyri í tengslum við þetta verkefni sem tekur sex mánuði og lýkur í mars.